Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun hafa frumkvæði að því að Alþjóðamatvælastofnunin (FAO) vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir, þar á meðal í þróunarlöndum. Á grundvelli þeirrar úttektar mun FAO síðan vinna tillögur til úrbóta gegn spillingu, mútum og peningaþvætti.
Þetta er á meðal aðgerða sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðast í með það fyrir augum auka traust á íslensku atvinnulífi.
Aukið fjármagn til skattrannsókna
Ríkisstjórnin ætlar jafnframt að tryggja viðbótarfjárveitingar til skattrannsókna vegna Samherjamálsins. Þannig geti Skattrannsóknarstjóra og Ríkisskattstjóra aukið við mannafla tímabundið til að geta sinnt þessum verkefnum á sem „skjótastan og farsælastan hátt“. Þá verður einnig hugað sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara í tengslum við rannsókn embættisins á málinu.
Jafnframt er undirbúningur hafin innan ríkisstjórnarinnar að lagafrumvarpi um ríkari upplýsingaskyldu hlutfallslega stórra fyrirtækja í öllum atvinnurekstri sem geti haft kerfislæg áhrif í íslensku efnahagslífi. Meðal annars verður höfð hliðsjón af kröfum um upplýsingar sem gerðar eru til fyrirtækja sem skráð eru í kauphöll.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur enn fremur óskað eftir því að við þessa vinnu verði tekið til sérstakrar skoðunar hvort gera þurfi enn ríkari kröfur um gagnsæi til stærri sjávarútvegsfyrirtækja.
Hafa undirbúið viðbrögð vegna umfjöllunar erlendis
Önnur aðgerð sem ríkisstjórnin ætlar grípa til er að óska eftir því að nefnd sem vinnur nú að því að koma með tillögur um bætt eftirlit með fiskiveiðiauðlindinni skili þeim tillögum fyrir næstu áramót. Þar á meðal er endurskoðun á skilgreiningu á tengdum aðilum í sjávarútvegi.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu frá því í janúar síðastliðnum kemur fram að ekki verði séð að Fiskistofa kanni hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum um stjórn fiskveiða.
Að lokum kom fram á fundi ríkisstjórnarinnar í dag að utanríkisráðuneytið fylgist með umfjöllun um Samherjamálið erlendis og hefur undirbúið viðbrögð vegna hugsanlegs orðsporhnekkis. Hvorki utanríkisráðuneytið, sendiskrifstofur né viðskiptafulltrúar hafa þó fengið margar fyrirspurnir eða athugasemdir frá stjórnvöldum annarra ríkja eða alþjóðlegum og svæðisbundnum samtökum.