Aðstoðarframkvæmdastjóri fiskveiðisviðs stofnunarinnar sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur falið að gera úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga viðskipti með aflaheimildir er Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármála- og sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Ríkisstjórnin tilkynnti í dag þær aðgerðir sem hún ætlar að ráðast í til að auka traust á íslensku atvinnulífi í kjölfar Samherjamálsins. Þar á meðal mun Kristján Þór hafa frumkvæði að því að FAO vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir, þar á meðal í þróunarlöndunum.
Á grundvelli úttektarinnar mun FAO síðan vinna tillögur til úrbóta í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir sem vinna að heilbrigðum viðskiptaháttum, gegn spillingu, mútum og peningaþvætti.
Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar segir að FAO sé stærsta alþjóðlega stofnunin sem sinnir reglubundnu starfi hvað varðar aðgerðir til að bæta stjórn fiskveiða og þróun sjávarútvegs á heimsvísu. „Á vettvangi stofnunarinnar hafa verið gerðir alþjóðasamningar m.a. til að takast á við ólöglegar veiðar og bæta stjórn og upplýsingagjöf með fiskveiðum. Verkefnið fellur því vel að hlutverki stofnunarinnar“ segir i tilkynningunni.
Árni sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn til fjölda ára eða frá 1991 til 2003. Hann var jafnframt sjávarútvegsráðherra á árunum 1999 til 2005 og fjármálaráðherra 2005 til 2009. Hann hóf störf sem aðstoðarframkvæmdastjóri fiskveiðisviðs FAO árið 2010 og samkvæmt frétt RÚV um ráðninguna þá studdu íslensk stjórnvöld umsókn Árna.