GAMMA hefur tilkynnt að fyrirtækið sé að flytja starfsemi sína úr Garðastræti 37 og í Katrínartún 2, eða turninn í Borgartúni. Þar verður starfsemin að fullu sameinuð Kviku sem flytur um þessar mundir alla starfsemi sína á þrjár hæðir í þeim turni. Kvika keypti GAMMA fyrr á þessu ári.
GAMMA var fyrirferðamikið fyrirtæki í íslensku fjármálalífi síðastliðinn áratug. Það óx hratt frá því að það var stofnað 2008 og þar til í lok 2017, þegar 137 milljarðar króna voru í stýringu hjá GAMMA. Hagnaður ársins 2017 var 626 milljónir króna.
Í kjölfarið fóru hlutirnir hins vegar hratt suður hjá fyrirtækinu. Fyrst fauk erlenda starfsemi þess og í júní 2018 var greint frá þvi að til stæði að GAMMA myndi renna inn í Kviku fyrir 3,8 milljarða króna.
Þegar ársreikningurinn fyrir 2018 var birtur sást betur glitta í hina breyttu stöðu. Þóknannagreiðslur höfðu dregist verulega saman, úr rúmlega tveimur milljörðum króna í 1,3 milljarð króna. Tekjur GAMMA í heild minnkuðu um rúmlega 800 milljónir króna, eða um rúmlega þriðjung. Rekstrarkostnaður hafði hins vegar aukist.
Alls tapaði GAMMA 268 milljónum króna í fyrra. Það var í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem tap hafði orðið á rekstrinum.
Lokapunktur við endalokaferli
Eftirlitsaðilar samþykktu samruna Kviku og GAMMA í mars 2019. Áfram var þó kvittur um að ekki væri allt eins og af hefði verið látið hjá GAMMA. Í hálfsársuppgjöri Kviku banka fyrir árið 2019 kom til að mynda skýrt fram að áhyggjur voru af stöðu sjóða í stýringu hjá GAMMA.
Vegna þess að stór hluti kaupverðs Kviku banka á GAMMA er bundinn í árangurstengdum þóknunum þá liggur áhættan á því að eignir GAMMA súrni hjá fyrrverandi eigendum félagsins, ekki bankanum.
Í lok júní var greint frá því að tveimur fjárfestingarsjóðum félagsins, GAMMA: Total Return Fund og GAMMA: Global, hefði verið lokað og sjóðsfélögum tilkynnt að við slit þeirra yrðu þeim fjármunum sem myndu fást við sölu eigna ráðstafað til hlutdeildarskírteinishafa. Skömmu áður en að ofangreindum tveimur sjóðum var lokað þá var fjórum sjóðum GAMMA rennt saman við sjóði Júpíters, sem er líka í eigu Kviku banka.
Í byrjun september 2019 var svo greint frá því að stjórn Kviku banka hefði ákveðið að sameina alla eigna- og sjóðastýringarstarfsemi samstæðunnar í eitt dótturfélag. GAMMA yrði þá ekki lengur til sem sjálfstæð eining þegar fram liðu stundir. Samhliða þeirri tilkynningu var greint frá því að Valdimar Ármann myndi hætta sem forstjóri GAMMA.
Í lok þess mánaðar kom stóri skellurinn. Greint var frá því, með tilkynningu til Kauphallar, að tveir sjóðir í stýringu GAMMA væru í mun verra standi en gert hafði verið ráð fyrir. Um var að ræða sjóði í efsta lagi áhættu sem gæti mögulega skilað mikilli ávöxtun, og fjárfestar í þeim áttu að vita að þeir væru að taka þátt í verkefnum sem gætu súrnað. Það kom hins vegar flestum í opna skjöldu þegar annar sjóðurinn var færður niður að nánast öllu leyti, og hinn að miklu leyti.
Í haust var GAMMA vart til lengur nema að nafninu til. Nær allir lykilstarfsmenn GAMMA voru horfnir frá. Á heimasíðu GAMMA eru taldir upp níu starfsmenn. Þar af voru fimm sem voru færðir yfir frá Kviku á þessu ári.
Nú hefur höfuðstöðvunum í Garðastræti, sem GAMMA hafði flutt inn í árið 2014 og lét meðal annars útbúa gallerí í til að sýna samtímalist, verið lokað.