Rannsókn á hendur stofnanda WikiLeaks, Julian Assange, hefur verið felld niður í Svíþjóð. Frá þessu er greint á Twitter-síðu WikiLeaks í dag.
Assange var dæmdur í fimmtíu vikna fangelsi fyrir að brjóta gegn skilmálum lausnar sem hann hlaut gegn tryggingu árið 2012. Þá leitaði hann hælis í sendiráði Ekvadors í London þar sem hann dvaldi þar til í apríl á þessu ári. Á þeim tíma fjölluðu breskir dómstólar um framsalsbeiðni Svía vegna kynferðisbrotamáls gegn Assange þar í landi.
URGENT: Sweden Drops Investigation of Julian Assange.
— WikiLeaks (@wikileaks) November 19, 2019
Mesta atlaga að blaðamennsku á Vesturlöndum á síðari tímum
Að sögn Kristins Hrafnssonar, ritstjóra WikiLeaks, dvelur Assange nú í mesta öryggisfangelsi Bretlands á meðan beðið er réttarhalds í febrúar þar sem framsalskrafa Trump stjórnarinnar verður tekin fyrir. Hann lauk formlegri afplánun þann 22. september síðastliðinn en því var hafnað að hann færi í skaplegra úrræði, samkvæmt Kristni.
„Samkvæmt orðum sænska saksóknarans rétt í þessu telst vitnisburður hins meinta fórnarlambs veikur og ónógar sannanir fyrir hendi til að byggja undir málið. Það hefur tekið níu ár að komast að þessari niðurstöðu. Þetta getur ekki talist annað en réttarfarsskandall,“ segir Kristinn í samtali við Kjarnann.
Hann segir það þó létti að koma þessu máli frá svo hægt sé að einbeita sér að alvörumálinu sem sé framsalskrafa Julian Assange til Bandaríkjanna sem feli í sér eina mestu atlögu að blaðamennsku á Vesturlöndum á síðari tímum.