Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur sig hafa uppfyllt eftirlitsskyldu sína með Ríkisútvarpinu (RÚV) eins og kveðið er á um í lögum um hlutafélög og eigendastefnu ríkisins. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf aftur á móti að efla fjárhagslegt eftirlit stjórnar Ríkisútvarpsins og leggur stofnun því til að fjármála- og efnahagsráðuneyti fari frekar með hlut ríkisins í RÚV.
Þetta er á meðal þess sem má finna í niðurstöðum stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á RÚV sem birt var í dag.
Skilja á milli eigendaábyrgðar og faglegrar ábyrgðar
Stjórnskipulag RÚV ohf. er ólíkt því sem almennt einkennir opinber hlutafélög í eigu ríkisins. Fjármála- og efnahagsráðuneyti fer ekki með eignarhlut ríkisins í félaginu og kemur ekki að skipan stjórnar þess, líkt og gert er ráð fyrir í lögum um opinber fjármál. Þess í stað fer mennta- og menningarmálaráðuneytið með eignarhlut ríkisins í RÚV og stjórn félagsins er skipuð eftir hlutbundna kosningu á Alþingi.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að fyrir vikið verði aðkoma ráðuneytisins að fjárhagslegu eftirliti og aðhaldi með rekstri félagsins minni en almennt gerist. Að mati Ríkisendurskoðunar ætti fjármála- og efnahagsráðuneyti því að fara með hlut ríkisins í RÚV og skilja þannig á milli eigendaábyrgðar og faglegrar ábyrgðar.
Mikilvægt að hluti stjórnarmanna hafi sérþekkingu á fjármálum
Auk þess telur Ríkisendurskoðun að efla þurfi fjárhagslegt eftirlit stjórnar RÚV. „Afar mikilvægt er að tryggja ráðdeild í rekstri og öflugt fjárhagslegt eftirlit svo RÚV ohf. lendi ekki í alvarlegum greiðsluerfiðleikum að nýju. Fjármálastjórn félagsins hefur lengstum verið svipuð og um A-hluta ríkisstofnun sé að ræða og megináhersla lögð á að reksturinn rúmist innan fjárheimilda. Slíkt dugir ekki fyrir verulega skuldsett félag sem einnig þarf að standa undir fjárfestingum með framlagi á grundvelli þjónustusamnings auk sjálfsaflatekna,“ segir í skýrslunni og bendir Ríkisendurskoðun jafnframt á að ólíklegt sé að hægt verði að grípa til aðgerða sambærilegar við sölu byggingaréttar á lóðinni við Efstaleiti árið 2015 ef rekstur félagsins stefnir í óefni að nýju.
Enn fremur telur ríkisendurskoðandi rétt að skipa í stjórn Ríkisútvarpsins ohf. á forsendum hæfisskilyrða í lögum um hlutafélög og opinber fjármál en í núgildandi lögum um RÚV ohf. er ekki kveðið á um að tilnefnt sé í hana á grundvelli hæfni, menntunar eða reynslu.
Ríkisendurskoðun ítrekar að mikilvægt sé að tryggja að að minnsta kosti hluti stjórnarmanna hafi sérþekkingu á fjármálum.
Ekki mikill munur á eftirliti þessa tveggja ráðuneyta
Mennta- og menningarmálaráðuneytið segist ekki taka afstöðu til ábendingar Ríkisendurskoðunar um að færa eignarhlut ríkisins í RÚV til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í viðbrögðum sínum við skýrsludrögunum. Ráðuneytið segir að það sé Alþingis að ákvarða um slíkt.
Hins vegar bendir ráðuneytið á að sömu lög gilda um öll opinber hlutafélög og í lögum um opinber fjármál sé ekki kveðið á um ólíkt eftirlitshlutverk ráðuneyta í þessu efni. „Af svari fjármála- og efnahagsráðuneytis við fyrirspurn ráðuneytisins um eftirlit með opinberum hlutafélögum er ekki að ráða að mikill munur sé á eftirliti þessara tveggja ráðuneyta á hlutaðeigandi félögum. Ráðuneytið telur sig því hafa uppfyllt eftirlitsskyldu sína með Ríkisútvarpinu, eins og kveðið er á um í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og eigendastefnu ríkisins.“
Engu á síður segist ráðuneytið ætla meta hvort þörf sé á sérstökum ráðstöfunum til að tryggja enn virkara eftirlit með fjárhagsstöðu og rekstraráætlunum Ríkisútvarpsins. Ráðuneytið bendir jafnframt á að fjölmiðlanefnd hefur einnig eftirlit með starfsemi Ríkisútvarpsins og skal njóta til þess aðstoðar Ríkisendurskoðunar, einkum er varðar bókhaldsmál.
Enn fremur lítur ráðuneytið svo á að ábendingum Ríkisendurskoðunar um fyrirkomulag við skipan í stjórn Ríkisútvarpsins sé beint til Alþingis.