Lágtekjuhlutfall meðal leigjenda er hærra en á meðal fólks sem býr í eigin húsnæði og hefur verið svo frá því að mælingar hófust. Í fyrra voru 20 prósent heimila á leigumarkaði undir lágtekjumörkum en 6 prósent heimila í eigin húsnæði. Þetta kemur fram í niðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands.
Einn af hverjum tíu undir lágtekjumörkum
Alls voru 31.400 einstaklingar undir lágtekjumörkum í fyrra eða um 9 prósent íbúa á Íslandi. Það eru mun lægra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum en þar er hlutfallið á bilinu 16 til 18 prósent.
Þessir rúmlega 31 þúsund einstaklingar bjuggu á um 16 þúsund heimilum í fyrra. Mikill meirihluti þeirra heimila var á leigumarkaði. Á þeim fimmtán árum sem Hagstofan hefur mælt lágtekjuhlutfall þá hefur hlutfall leigjenda undir lágtekjumörkum verið 25 prósent að meðaltali.
Hæst fór hlutfallið í 32 prósent en lægst í 20 prósent árin 2014 og í fyrra. Þá hefur hlutfall eigenda undir lágtekjumörkum farið hæst í 11 prósent árið 2007 en var lægst árin 2011 og 2012 þegar það var um 5 prósent.
Helmingur leigjenda telur sig ekki búa við húsnæðisöryggi
Alls voru 17,5 prósent fullorðinna einstaklinga 18 ára og eldri á leigumarkaði hér á landi í september síðastliðnum og 19 prósent fullorðinna á höfuðborgarsvæðinu.
Í viðhorfskönnun Íbúðalánasjóðs frá því í júní á þessu ári kemur fram að meirihluti þjóðarinnar telur óhagstætt að leigja eða alls 92 prósent. Þá kemur fram í sömu könnun að einungis 51 prósent leigjenda telji sig búa við húsnæðisöryggi. Algengasta ástæða þess að fólk telur sig ekki búa við húsnæðisöryggi er vegna þess að fólk hefur ekki efni á leigu eða verð of hátt.
Í önnuninnikom jafnframt að fjárhagsstaða heimilisins er marktækt verri hjá leigjendum en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði. Yfir 20 prósent þeirra sem eru á leigumarkaði segjast safna skuldum eða nota sparifé til þess að ná endum saman samanborið við einungis 7 prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði.
Færri búa við skort
Í niðurstöðum Hagstofunnar kemur jafnframt fram að þegar litið er til skorts á efnislegum gæðum reyndust 4 prósent einstaklinga búa við skort og 0,7 prósent búa við verulegan skort hér á landi árið 2018. Það er þó lækkun frá árinu 2016 þegar 6,1 prósent bjuggu við skort og 1,9 prósent við verulegan skort efnislegra gæða.
Hlutfallslega fáir búa við skort á Íslandi í evrópskum samanburði og á það einnig við um hin Norðurlöndin. Að meðaltali bjuggu 15 prósent við skort á efnislegum gæðum í ríkjum Evrópusambandsins árið 2017, hlutfallslega fæstir í Svíþjóð 4 prósent en flestir í Búlgaríu 44 prósent.