Arngrímur Brynjólfsson, 67 ára íslenskur skipstjóri, er í haldi yfirvalda í Namibíu fyrir að hafa stundað ólöglegar veiðar í landhelgi landsins.
Arngrímur var leiddur fyrir dómara í gær í Walvis Bay sem komst að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti að vera áfram í gæsluvarðhaldi þangað til að 100 þúsund dala trygging yrði greidd fyrir hann, svo Arngrímur gæti verið frjáls ferða sinna á meðan að beðið er eftir því að málið hljóti dómsmeðferð. Hann þurfti auk þess að afhenda vegabréfið sitt til namibískra yfirvalda.
Arngrímur starfaði um árabil fyrir Samherja en í frétt Namibian Broadcasting Corporation (NBC) af málinu kom ekki fram hvar hann starfar nú, eða hvort hann starfi enn fyrir Samherja. Í Viðskiptablaðinu í dag kemur þó fram, í viðtali við Björgólf Jóhannsson, tímabundinn forstjóra Samherja, að fyrirtækið sé enn við veiðar í Namibíu. Björgólfur staðfesti svo í samtali við mbl.issíðdegis að Arngrímur sé skiptstjóri á Heinaste, verksmiðjutogara sem Samherji gerir út í Namibíu. Þar sagði Björgólfur þó að Arngrímur væri í farbanni, ekki í gæsluvarðhaldi.
Auk Arngríms er rússneskur skipstjóri, Iurri Festison, í haldi yfirvalda í Namibíu fyrir ólöglegar veiðar af sama togi.
Á þriðjudag í síðustu viku opinberuðu Kveikur og Stundin hvernig viðskiptahættir Samherja í Afríku, nánar tiltekið í Namibíu, hefðu verið á síðustu árum á meðan að fyrirtækið náði undir sig mjög verðmætum hrossamakrílskvóta í landinu. Það var gert með mútugreiðslum til tveggja ráðherra í landinu og annarra manna úr þeirra nánasta hring.
Opinberunin byggði annars vegar á tugþúsundum skjala og tölvupósta sem sýndu viðskiptahættina svart á hvítu, og hins vegar á frásögn Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi verkefnastjóra Samherja í Namibíu, sem játaði á sig fjölmörg lögbrot og sagðist hafa framið þau að undirlagi Þorsteins Más og Aðalsteins Helgasonar, sem var lengi yfir útgerð Samherja í Afríku.