Arngrímur Brynjólfsson, skipstjóri Samherja á skipinu Heinaste, segir í yfirlýsingu að það hafi komið á óvart að vera sakaður um að hafa siglt skipi inn á bannsvæði úti fyrir ströndum Namibíu.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birt er á vef RÚV, en eins og greint var frá á vef Kjarnans í morgun var Arngrímur handtekinn og færður fyrir dóma, en hann var sakaður um að hafa stýrt skipinu inn á hrygningarsvæði þar sem bannað var að sigla.
Í yfirlýsingunni segist Arngrímur hafa verið sjómaður í 49 ár og þar af 34 ár sem skipstjóri, og hann hafi aldrei verið sakaður um neitt misjafnt á öllum sínum ferli. Því hafi þetta komið á óvart. Auk þess var þetta síðasta ferð hans sem skipstjóri, og því vonbrigði að málin hafi farið á þennan veg.
„Skipið Heinaste kláraði löndun í fyrradag. Eftir að skipið hafði klárað löndun var ég boðaður til fundar við Fiskistofu Namibíu sem stýrir veiðum í landinu. Þar komu fram ásakanir þess efnis að skipið hefði farið inná á lokað svæði til veiða.
Ég vill taka fram að á mínum 49 ára ferli til sjós, þar af yfir 34 ár sem skipstjóri, hef ég aldrei verið sakaður um hafa brotið af mér í starfi á neinn hátt. Þessi veiðiferð átti að vera sú síðasta á ferlinum og eru það mér mikil vonbrigði að verða fyrir þessum ásökunum nú.
Mér vitandi hefur skipið ekki verið sakað um brot af þessu tagi áður og kemur ásökunin sjálfum mér á óvart enda er þess gætt af kostgæfni að veiða aldrei á þeim svæðum sem eru lokuð hverju sinni.
Allajafna þegar skip er sakað um að hafa veitt innan lokaðs svæðis í lögsögu Namibíu er skipstjóri leiddur fyrir dómara og sleppt samdægurs. Vonast ég til að það taki ekki langan tíma að leiða málið til lykta og eftir því sem ég kemst næst hefur öllum málum af þessu tagi lokið með sektargreiðslu teljist það sannað að skip hafi í raun stundað veiðar innan lokaðs svæðis.
Langt var liðið á daginn þegar samtalið við Fiskistofu fór fram. Það tókst því ekki að koma málinu fyrir dómara samdægurs og þurfti ég því að gista fangageymslur eina nótt. Í gærmorgun fór málið svo fyrir dómara, mér var sleppt og vonast ég til þess að málið leysist endanlega innan skamms,“ segir Arngrímur í yfirlýsingunni, sem birt er í heild á vef RÚV.