„Ég lít svo á að ekki sé til nein hnattræn skyndilausn við peningaþvætti. En við gætum lágmarkað skaðann af peningaþvætti með því að fylgja ákveðnum skrefum.“
Þetta segir Ilia Shumanov, aðstoðarframkvæmdastjóri Rússlandsdeildar Transparency International, í samtali við Kjarnann. Hann mun halda fyrirlestur um áskoranir peningaþvættis og leiðir til að rannsaka það á umræðufundi sem fer fram seinna í dag á Sólon klukkan 16:00.
Í fyrsta lagi beri að auka gegnsæi fyrirtækja og peningastofnana, í öðru lagi verði að þróa gervigreindarnálgun fyrir baráttuna gegn peningaþvætti og í þriðja lagi að fá samfélagið og fjölmiðla til að taka meiri þátt í baráttunni gegn peningaþvætti og koma í kring umbótum á eftirlitskerfum. Ekki sé nóg að fjalla um peningaþvætti í hverju landi fyrir sig, heldur þurfi að gera það heildrænna.
Umræðufundurinn er á vegum Gagnsæis, Kjarnans og Blaðamannafélags Íslands. Að loknum fyrirlestri verða pallborðsumræður þar sem meðal annars Samherjamálið verður til umræðu.
Í fyrirlestri sínum mun Shumanov meðal annars fjalla um þær tegundir peningaþvættis sem spruttu upp í kjölfar hruns Sovétríkjanna og frá fyrri lýðveldum þess og hvernig aðferðir og leiðir hafi verið í stöðugri breytingu og þróun á síðustu árum.
Hann mun jafnframt fjalla um hvernig alþjóðlegir hringir séu oftast einu skrefi á undan yfirvöldum og hvert hlutverk milliliða sé í peningaþvætti. Auk þess mun hann ræða „Blockchain“ og alþjóðlega baráttu gegn peningaþvætti.
Sameiginlegir þræðir hjá fyrrum Sóvétríkjunum
Peningaþvættisáskoranirnar hjá fyrrum Sovétríkjunum eru breytilegar eftir löndum, samkvæmt Shumanov. Hann segir að margt sé til að mynda mjög ólíkt með Eistlandi, og meðlimnum í ESB og fyrrum Sovétríkjunum, og Kyrgyzstan, sem er meðlimur í Samveldi sjálfstæðra ríkja (CIS).
Þó séu nokkrir sameiginlegir meginþræðir sem renna í gegnum öll fyrrum Sovétlýðveldin:
- Hlutverk arftaka KGB í baráttunni gegn peningaþvætti (meirihluti bankanna í fyrrum Sovétríkjunum, sérstaklega í Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og í Mið-Asíuríkjunum, hafa eða hafa haft „sérstaka ráðgjafa“ úr röðum löggæslumanna á launaskrá hjá sér).
- Umburðarlyndið í fyrrum Sovétríkjum fyrir peningaþvættisferlinu. Viðhorfið í samfélaginu er á þann veg að peningaþvætti skaði engan og að einungis sé verið að svindla á ríkisstjórninni en ekki skattborgurum.
- Lágur gæðastaðall baráttuferlisins gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í peningastofnunum fyrrum Sovétríkjanna og fjárhagsleynd banka.
- Geysileg eftirspurn aðila úr fyrrum Sovétríkjunum eftir því að gera starfsemi sína og eignir löglegar í þróunarlöndum.
- Spilling sem hversdagsleg viðskiptavenja í fyrrum Sovétríkjunum.
Vísitalan sem Transparency International gefur út, sem segir til um það hversu meðvitað fólk er um spillingu, sýni þetta svart á hvítu.
Ísland með meira gegnsæi og hærri siðferðisstaðla en Rússland
Þegar Shumanov er spurður út í það hvað honum finnist um það að Íslands sé á gráum lista FATF þá svarar hann að hann telji þetta vera mjög erfiða spurningu. „Annars vegar eru svarti og grái listinn hjá FATF mjög tæknileg viðfangsefni og hins vegar gætu verið einhverjir pólitískir hvatar fyrir því að setja Ísland á gráa listann,“ segir hann.
Varðandi þau tæknilegu vandamál sem fylgja þessum listum þá segir Shumanov að ef ríki fari ekki nægilega vel eftir tæknilegum meðmælum FATF þá geti það ríki endað á þessum lista, þrátt fyrir að peningaþvætti sé ekki sérstaklega stórt vandamál þar.
„Ef við berum saman eftirfylgni peningaþvættis í Rússlandi og á Íslandi komumst við að því að Ísland hefur meira gegnsæi og hærri siðferðisstaðla en Rússland. Peningaþvætti er ekkert stórmál í ykkar landi, en rússneska stjórnin fer mun samviskusamlegar eftir meðmælum FATF (sér í lagi tæknilegum meðmælum). Til eru tæknileg meðmæli frá FATF sem Ísland fer ekki eftir, til að mynda væri enn hægt að nota félagssamtök fyrir peningaþvætti og hefur ríkisstjórn Íslands ekkert brugðist við þessum vanda,“ segir hann.
„Meginvandamálið út frá mínum bæjardyrum séð er hins vegar hversu óskilvirkar baráttuaðferðirnar gegn peningaþvætti eru,“ segir hann enn fremur.
Ríkisstjórn Íslands hafi ekki brugðist almennilega við niðurstöðum endurskoðunar FATF síðan stofnunin gerði rannsókn sína í apríl árið 2018. FATF komst að því að skilvirkni sé ábótavant í viðleitni íslenskra stjórnvalda til að vernda efnahagskerfið fyrir ógnum peningaþvættis, sérstaklega í því samhengi að koma í veg fyrir að ágóði af glæpastarfsemi og styrktarfé í þágu hryðjuverka flæði inn í íslenska hagkerfið.
FATF orðið að pólitískri stofnun
Varðandi pólitíska vandamálið með lista FATF þá sýnist Shumanov sem svo að á síðasta ári hafi FATF orðið að pólitískari stofnun. „Ef FATF setur til að mynda Kína eða Rússland á gráan lista þá verður fjargviðri á heimsvísu sem mun hafa pólitískar afleiðingar í för með sér. Þess vegna forðast hópurinn að bendla stóra aðila við slíkt þrátt fyrir að þeir séu verri,“ segir hann.