Anna Wojtynska er doktor í mannfræði frá Háskóla Íslands en hún kom fyrst til Íslands árið 1996 og lýsir hún gjörólíkum aðstæðum Pólverja hér á landi á þeim tíma. Hún segir að þeir hafi einungis verið nokkur hundruð talsins, flestir hafi búið í þorpum úti á landi og aðeins örfáir í Reykjavík. Kjarninn settist með Önnu og spjallaði við hana um reynslu Pólverja á Íslandi en hún hefur rannsakað tengsl pólsks verkafólks hér á landi við heimalandið og hvaða áhrif þessi tengsl hafa á hversu vel þeir hafa samlagast íslensku samfélagi.
Hún flutti til Ísafjarðar árið 2005. „Fyrst þegar pólskir innflytjendur fluttu til þessara þorpa þá höfðu þeir tækifæri til að aðlagast samfélaginu. Til að mynda var litið á pólskar konur sem komu til Ísafjarðar og eignuðust íslenskan maka og töluðu íslensku sem innfæddar. Svo þegar fólk talar um „þessa Pólverja“ þá er það líklegast ekki að tala um til dæmis þessar konur.“ Þannig megi segja að þegar Pólverjar aðlagist vel þá sé á vissan hátt ekki lengur litið á þá sem „Pólverja“.
Hún hefur rætt við marga Pólverja í rannsóknum sínum, bæði úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu en flestir vinna í fiskvinnslu úti á landi. „Fólk finnur því ekki fyrir því að það sé lágstétt og jafnvel hér í Reykjavík segja sumir að vinna þeirra sé metin að verðleikum og þar af leiðandi séu þeir einnig metnir að verðleikum.“
Upplifun ólík eftir einstaklingum
Anna telur þó að þetta hafi breyst að einhverju leyti á undanförnum árum. Eftir að svo margir Pólverjar komu til landsins til að vinna og eftir að samband atvinnurekenda og launþega breyttist þá hafi viðhorfin jafnframt breyst. Þá hafi til að mynda einn viðmælandi hennar sagt að Íslendingar komi fram við þau eins og varning. Sumum líði eins og þeir séu innflutt vinnuafl og ekkert meira.
Hún tekur sérstaklega fram að ástandið hafi þó ekki verið fullkomið hér áður fyrr og sé ekki alslæmt núna. Sumt hafi lagast með tímanum og nefnir hún sem dæmi að ákveðin vitundarvakning hafi orðið varðandi mikilvægi pólska tungumálsins. Á öðrum sviðum hafi viðhorf Íslendinga versnað.
Hópur Pólverja fjölbreyttur
Að flytja búferlum milli landa og festa rætur í öðru landi getur verið flókið. Þegar Anna er spurð út í viðhorf Pólverja gagnvart Íslandi sem heimkynnum þá segir hún að það sé auðvitað ólíkt milli einstaklinga. „Ein pólsk kona sem ég tók viðtal við fyrir um þremur árum og býr enn hér á Íslandi, en hún hefur líklega búið hér hálfa ævina, talar enn eins og hún sé hérna tímabundið. Það er til fólk eins og hún. Og hún lifir sínu eigin lífi á Íslandi en enginn úr fjölskyldunni hennar býr á Íslandi þannig að í hvert sinn sem hún á frí þá fer hún heim til þeirra," segir hún og bætir því við að vinnan haldi þessari tilteknu konu hér á landi.
„En stundum er ekki hægt að gefa einfalt svar við þessari spurningu. Nýlega kynntist ég konu sem flutti hingað, dvaldi í stuttan tíma og sneri aftur til Póllands en nú er hún aftur komin og segist vilja búa á Íslandi,“ segir hún.
Anna segir að önnur breyting sem orðið hafi á undanförnum árum sé sú að hópur Pólverja sé orðinn mjög fjölbreyttur hvað varðar aldur, plön og vonir og hvaðan þau komi frá Póllandi. „Hér eru farandverkamenn sem eiga fjölskyldur í Póllandi og munu þeir snúa aftur til síns heima. Svo er til fólk sem er mitt á milli og einnig fólk sem er búið að koma sér vel fyrir hér.“
Pólska samfélagið hér á landi svipað hinu íslenska
Þegar Anna er spurð út í það hvort pólska samfélagið standi styrkum fótum hér á landi segir hún að það virki svipað og hið íslenska. „Sumir Pólverjar myndu segja að við séum ekki nógu samheldin og hjálpumst ekki nægilega að en á hinn bóginn hef ég séð að þetta virkar eins og á meðal Íslendinganna. Samfélagið er smátt þannig að við vitum hvert af öðru og það er mun auðveldara að mynda sambönd.“ Hún telur sjálf að pólska samfélagið sé mjög samheldið enda hafi hún séð mörg dæmi þess á þessum árum sem hún hefur dvalið á Íslandi.
Hún segir frá pólskri vinkonu sinni sem flutti til Danmerkur eftir að hafa búið hér á landi um nokkurt skeið. „Hún sagði að það væri mun auðveldara að tengjast Pólverjum hér en úti í Kaupmannahöfn. Hún vann í þrifum þar rétt eins og hér en borgin er svo stór.“
Hóparnir innan pólska samfélagsins eru orðnir nokkuð margir, að sögn Önnu. Þá sé til að mynda búið að stofna hlaupahóp, ljósmyndarahóp og svo framvegis. Þannig séu Pólverjar orðnir nógu margir á Íslandi til að mynda ýmiss konar hópa í kringum ákveðin áhugamál.
„Það er ljóst að Pólverja langar að hittast og koma sér á framfæri. Og þeir telja Íslendinga á meðal sinna bestu vina og kunna vel við þá sem einstaklinga. Aftur á móti getur heildarmyndin litið aðeins öðruvísi út, sérstaklega hvað varðar vinnuaðstæður. Þær hafa breyst mikið, finnst mér, síðan góðærið hófst. Þær hafa versnað,“ segir hún.
Skiptir máli að vera hluti af vinnustaðnum
Varðandi viðhorf gagnvart Pólverjum á Íslandi þá segir Anna að vegna stærðar hópsins þá sé auðveldara að líta á þau sem nafnlausan hóp frekar en sem einstaklinga og sem fjölmennt vinnuafl í ófaglærðum störfum. „Áður fyrr var hreingerningafólkið oftast ráðið beint af atvinnurekandanum en nú er það breytt. Nú sjá sérstök fyrirtæki um ráðningar og hefur það fyrirkomulag breytt tengingu inn á vinnustöðunum. Nú er það fólk, sem ráðið er í gegnum þjónustufyrirtæki, ekki hluti af starfsmannahópnum. Það skapar sundrung.“
Anna telur þar af leiðandi að þegar fólk er ráðið beint en ekki í gegnum þjónustufyrirtæki myndist önnur dýnamík milli starfsmanna. Það skipti máli að vera hluti af vinnustaðnum en ekki einhvern veginn á jaðrinum. Þess vegna gagnrýnir hún til að mynda þessi ræstingarfyrirtæki og segir hún að launin séu oft það lág að fólk rétt nær endum saman.
Geta fallið milli tveggja heima
En hvernig er það að vera innflytjandi á Íslandi, að mati Önnu? Hún segir í því samhengi að sjálfsmynd fólks sé mismunandi, enda aðlagist fólk með ólíkum hætti og jafnframt séu aðstæður ólíkar. Hún bendir á að augljóslega líti Pólverjar, sem búið hafa lengi hér á landi, á sig í fyrsta lagi sem Pólverja en einnig sem Íslendinga. „Fyrir suma er mikilvægt að halda í þessa sjálfsmynd. Fyrir börn er þetta aftur á móti flóknara. Stundum eru foreldrarnir bæði Íslendingar og Pólverjar,“ segir hún. Þá falli þau jafnvel milli þessara tveggja heima og geti börnin litið á sig sem bæði Íslendinga og Pólverja.
„Við lifum á tímum þar sem fjölbreytileikanum er fagnað. Það er því ákveðinn kostur þegar fólk er með ólíkan bakgrunn. Það er þó erfiðara fyrir Pólverja að viðurkenna þjóðerni sitt á Íslandi þegar hlutirnir eru orðnir þannig að þeir vinna í láglaunavinnu. Ef samfélagið verður mjög stéttaskipt – jafnvel eftir þjóðerni – þá erum við komin á mjög slæman stað,“ segir hún.
Hægt er að lesa ítarlega fréttaskýringu um Pólverja á Íslandi hér.