Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var ráðin sem tímabundinn ráðgjafi á aðalskrifstofu UN Women í New York í byrjun árs 2019. Hún var meðal annars ráðin til að vinna að verkefninu Women's Politcal Empowerment and Leadership en það er eitt þeirra verkefna sem íslensk stjórnvöld ákváðu að styrkja árið 2018.
UN Women er stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Hún er jafnframt ein af áherslustofnunum Íslands á sviði þróunarsamvinnu og samkvæmt rammasamningi við UN Women greiðir Ísland almenn framlög til stofnunarinnar, sem og framlög til einstakra verkefna.
Heildarstuðningur Íslands til stofnunarinnar á árinu 2019 er áætlaður 234 milljónir króna, samkvæmt svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans. Af þeim 234 milljónum er 35 milljónum varið til verkefnisins Women's Political Empowerment and Leadership, sem lýtur að pólitískri valdeflingu kvenna og leiðtogahæfni víða um heim, þar á meðal í þróunarríkjunum, í ár, auk 35 milljóna á næsta ári.
Það verkefni er eitt þeirra verkefna sem Hanna Birnu vinnur að hjá UN Women ásamt öðrum störfum. Í svari ráðuneytisins kemur fram að ákvörðun um að styrkja verkefnið hafi verið tekin 2018. Aðspurð hvort að ráðning Hönnu Birnu til verkefnisins sé tengd fjárframlagi Íslands til verkefnisins segir ráðuneytið að UN Women hafi ráðið Hönnu Birnu til starfa og ráðningarsambandið liggi alfarið hjá stofnuninni.
Hanna Birna greindi frá ráðningunni til UN Women í byrjun febrúar á þessu ári en hún hætti í stjórnmálum hérlendis eftir kosningarnar sem fram fóru haustið 2016. Hún hætti sem innanríkisráðherra í lok árs 2014 í kjölfar lekamálsins og fór í leyfi frá þingstörfum í kjölfarið. Skömmu síðar, eða í október 2015, ákvað hún að hætta sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins.