Sexmenningarnir Sacky Shanghala, Bernard Esau, James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, Tamson Hatuikulipi og Pius Mwatulelo mættu fyrir rétt í dag, samkvæmt fréttamiðlinum The Namibian.
Eins og fram hefur komið í fréttum þá voru sexmenningarnir handteknir í gær, miðvikudag, í tengslum við rannsókn á Samherjaskjölunum og spillingu er tengist úthlutun aflaheimilda í Namibíu.
Samkvæmt The Namibian var máli þeirra frestað þangað til á morgun vegna umsóknar um lausn gegn tryggingu. Þeir munu sitja áfram í varðhaldi á meðan.
Aðilarnir sem um ræðir eru Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor í síðustu viku, Bernhardt Esau, sem sagði af sér sem sjávarútvegsráðherra á sunnudaginn, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau sem jafnframt er frændi James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius 'Taxa' Mwatelulo, sem einnig tengist James Hatuikulipi fjölskylduböndum.
FISHROT6: Sacky Shanghala, Bernard Esau, James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, Tamson Hatuikulipi and Pius Mwatulelo appeared in the Windhoek Magistrates Court today on charges of corruption, money laundering and fraud. The case is postponed to tomorrow for a formal bail hearing. Magistrate Samunzala Samunzala presided over the matter. They remain in custody.
Posted by Confidente on Thursday, November 28, 2019
Yfirvöld í Namibíu, Íslandi og Noregi rannsaka nú ýmsa þætti sem tengjast starfsemi Samherja í Namibíu, og eru þar á meðal upplýsingar um mútugreiðslur, skattaundanskot og peningaþvætti.
Enginn hefur enn fengið stöðu grunaðs manns á Íslandi vegna þessa, og hafa ekki farið fram neinar formlegar yfirheyrslur vegna rannsóknar mála.