Sexmenningarnir Sacky Shanghala, Bernard Esau, James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, Tamson Hatuikulipi og Pius Mwatulelo mættu fyrir rétt í dag, samkvæmt fréttamiðlinum The Namibian.
Eins og fram hefur komið í fréttum þá voru sexmenningarnir handteknir í gær, miðvikudag, í tengslum við rannsókn á Samherjaskjölunum og spillingu er tengist úthlutun aflaheimilda í Namibíu.
Samkvæmt The Namibian var máli þeirra frestað þangað til á morgun vegna umsóknar um lausn gegn tryggingu. Þeir munu sitja áfram í varðhaldi á meðan.
Lesa
Yfirvöld í Namibíu, Íslandi og Noregi rannsaka nú ýmsa þætti sem tengjast starfsemi Samherja í Namibíu, og eru þar á meðal upplýsingar um mútugreiðslur, skattaundanskot og peningaþvætti.
Enginn hefur enn fengið stöðu grunaðs manns á Íslandi vegna þessa, og hafa ekki farið fram neinar formlegar yfirheyrslur vegna rannsóknar mála.