Hlutbréf í norska bankanum DNB hafa lækkað um 5,53 prósent í dag en Stundin greinir frá fyrst íslenskra fjölmiðla. Ástæðan er sögð vera sú að efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar greindi frá því í gær að hafin væri rannsókn á bankanum í kjölfar uppljóstrana Stundarinnar og Kveiks, í samvinnu við Wikileaks og Al Jazeera, á mútugreiðslum Samherja og spillingu tengdri makrílveiðum fyrirtækisins við strendur Namibíu, auk hugsanlegs peningaþvættis í gegnum bankann.
Í frétt Norska ríkisútvarpsins um málið kemur fram að hlutabréfin hafi lækkað um rúm sex prósent í morgun, föstudag. Það jafngildi því að virði bankans hafi rýrnað um 15 milljarða norskra króna, eða um tæpa 200 milljarða íslenskra króna. Þá hafa hlutabréfin hækkað lítillega síðan frétt NRK birtist í morgun.
Formleg rannsókn hafin
Fram kom í fréttum í gær að efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar hefði hafið formlega rannsókn á norska bankanum DNB vegna umfjöllunar fjölmiðla um Samherjaskjölin.
Í yfirlýsingu sem birtist á vef efnahagsbrotadeildarinnar kom fram að eðli málsins samkvæmt yrði haft samstarf við yfirvöld í öðrum löndum. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, staðfesti í samtali við RÚV í gær að norska efnahagsbrotadeildin hefði þegar haft samband við embættið.
Í yfirlýsingunni var jafnframt haft eftir starfandi forstjóra að markmið rannsóknarinnar væri að finna út hvað hefði gerst og hvort það varðaði við hegningarlög. „Rannsóknin er á frumstigi og við munum ekki veita frekari upplýsingar um málið.“
Miklar sveiflur eftir umfjöllunina um Samherja
Stundin greinir frá því að virði bréfa í DNB í Kauphöllinni í Osló hefði hrunið eftir umfjöllun Stundarinnar og Kveiks þann 12. nóvember síðastliðinn úr 170,25 stigum og niður í 161,65 föstudaginn 15. nóvember. Síðan þá hafi virði bréfa í bankanum hækkað hægt og bítandi og þann 25. nóvember hafi það verið 169,20 stig. Daginn eftir hafi virði bréfa lækkað skarpt en hækkað aftur á miðvikudag. Það hafi síðan lækkað í gær og í dag.
Vísitala bréfanna er komin niður í 156,3 stig þegar þetta er skrifað.