Nú standa yfir verkfallsaðgerðir blaðamanna, ljósmyndara og tökumanna í Blaðamannafélagi Íslands en þær hófust klukkan 10 í morgun og munu standa yfir til klukkan 22 í kvöld. Ekki náðist samkomulag á fundi samninganefndar BÍ og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara í gær en meðal fyrirtækja innan SA eru Árvakur, útgefandi mbl.is, Sýn, Torg, útgefandi Fréttablaðsins, og RÚV. Verkfallið nær hins vegar ekki til félaga í Félagi fréttamanna á RÚV eða félaga í Rafiðnaðarsambandinu á Sýn.
Þetta er þriðja vinnustöðvunin sem BÍ hefur staðið fyrir í nóvember en athygli hefur vakið að vefur Mbl.is hefur ítrekað birt fréttir á meðan verkfallsaðgerðir standa yfir. Ekki er breyting þar á í dag þar sem fréttir hafa verið birtar síðan klukkan 10 í morgun á vefnum.
Í tilkynningu frá Mbl.is segir að miðillinn sinni afar þýðingarmiklu hlutverki sem fréttamiðill en gegni um leið mikilvægu öryggishlutverki. Af þessum sökum sé allt kapp lagt á að vefurinn loki aldrei, jafnvel þó að úr fréttaflæði kunni að draga í langvarandi verkfalli.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, segir í samtali við Kjarnann að verkfall sé bara verkfall, menn hafi sætt sig við það hingað til. „Það skiptir ekki máli hvort þú ert að dæla bensíni eða skrifa fréttir,“ segir hann um meint verkfallsbrot Mbl.is.
Hann bendir á að blöðin hafi komið út í morgun og að útvarpið sé í gangi, sem og RÚV. „Takmarkið er að koma okkar skoðunum á framfæri, það er ljóst. Og vilji félagsmanna Blaðamannafélagsins er mjög skýr.“ Hann segist vera stoltur af félagsmönnum hvernig þeir hafi staðið sig í þessu ferli.