Íslandsbanki braut gegn lögum um neytendalán með ófullnægjandi upplýsingagjöf í stöðluðu eyðublaði með neytendaláni og í lánssamningi til neytenda. Neytendastofa hefur veitt Íslandsbanka fjögurra vikna frest til að koma málum í rétt horf en verði það ekki gert má bankinn búast við sektum.
Þetta kemur fram í ákvörðun Neytendastofu frá 26. nóvember síðastliðnum.
Ófullnægjandi upplýsingagjöf
Neytendastofa hóf athugun á upplýsingagjöf Íslandsbanka í vor en sambærilegt erindi var sent á aðra banka og neytendalánveitendur. Enn sem komið er hefur niðurstaða í tilfellum er varða aðra lánveitendur ekki verið birt.
Skoðunin fólst í því að yfirfara hvort annars vegar staðlað eyðublað sem Íslandsbanki afhendir neytendum fyrir samningsgerð og hins vegar lánssamningur væru í samræmi við lög. Niðurstaða Neytendastofu var að upplýsingagjöfin væri ófullnægjandi.
Neytendastofa gerði meðal annars athugasemdir við ófullnægjandi upplýsingar varðandi breytingu á vöxtum, varðandi lán í appi og um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Einnig þótti upplýsingagjöf um kostnað við notkun greiðsluleiða ekki fullnægjandi en þar var látið nægja að vísa á verðskrá á heimasíðu bankans. Hið sama gilti um kostnað vegna vanskila.
Íslandsbanki hefur nú þegar gert breytingar á þeim atriðum sem Neytendastofu gerði athugasemdir fyrir utan þá athugasemd að bæta þyrfti upplýsingar um hvaða þættir gætu haft áhrif á vaxtabreytingar.
Féllst ekki á að gera breytingar á upplýsingum um útlánsvexti
Í bréfi Neytendastofu til Íslandsbanki segir að stofnunin telji að upplýsingagjöf Íslandsbanka í stöðluðum upplýsingum um að vextir og breytingar á þeim taki meðal annars mið af „og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði“ geti talist ófullnægjandi upplýsingar um skilyrði fyrir breytingu á útlánsvöxtum.
Í svari Íslandsbanka var ekki fallist á þessa athugasemd Neytendastofu og vísaði bankinn til þess að þetta væri viðleitni til þess að veita neytendum upplýsingar með sem ítarlegustum og skýrustum hætti um hvaða þættir geti mögulega haft áhrif á vaxtabreytingar. Óhjákvæmilegt er að mati bankans að ófyrirséðir þættir geti mögulega haft áhrif á vexti.
Að mati Neytendastofu getur tilvísun í ófyriséðan kostnað aftur á móti ekki talist fullnægjandi upplýsingar um skilyrði fyrir breytingu á útlánsvöxtum og tryggi ekki gagnsæi eða að neytendum sé gert kleift að átta sig á því á hvaða grundvelli vaxtabreytingar byggjast. Auk þess telur stofnunin að upptalning á þáttum sem geta leitt til breytinga á útlánsvöxtum þjóni takmörkuðum tilgangi þegar tilgreint er að annar ófyrirséður kostnaður geti einnig leitt til breytinga á útlánsvöxtum.
Fjórar vikur til að kippa þessu í liðinn
Neytendastofa beinir því þeim fyrirmælum til Íslandsbanka að koma þessum upplýsingum í viðunandi horf. Auk þess gerir stofnunin kröfu um að bankinn geri viðeigandi umbætur á upplýsingum í stöðluðu eyðublaði og lánssamningi innan Íslandsbanki við Hagasmára í Kópavogi. Geri bankinn það ekki innan fjögurra vikna er viðbúið að Neytendastofa leggi sektir á bankann.