Aðdragandi þess að Ísland var sett á gráa lista FATF er langur og nokkrar samverkandi orsakir liggja að baki. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu dómsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um aðdraganda og ástæður þess að Ísland lenti á gráa lista FATF.
Samkvæmt upplýsingum á vef Stjórnarráðsins var skýrslan lögð fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og var hún til umfjöllunar á fundi nefndarinnar í gærmorgun. Jafnframt kemur fram að aðgerðaáætlun um endurbætur sé í farvegi.
Í skýrslunni kemur fram að úrvinnsla Íslands á útistandandi atriðum í þriðju úttektinni 2006 til 2016 hafi alvarlega farið út af sporinu í kjölfar hrunsins. Í þeim efnum verði að líta til þeirrar stöðu sem þá var uppi hér á landi og mjög takmarkaðrar getu stjórnvalda til að leggja áherslu á varnir gegn peningaþvætti.
Aðgerðir vart dugað til að klóra í bakkann
Jafnframt segir í skýrslunni að þær takmörkuðu bjargir sem Ísland hafi þó getað varið til þessa málaflokks á árunum eftir hrunið hafi vart dugað til að klóra í bakkann í þessari eftirfylgni.
Þá er bent á að þetta hafi þó ekki blasað við á þessum tíma, þegar íslenskt fjármálakerfi var í töluverðri einangrun vegna gjaldeyrishafta og aðrar áskoranir hafi kallað á athygli og vinnu stjórnvalda. Þrátt fyrir það sé ljóst að vinna hefði mátt betur úr þeim áskorunum sem fylgdu þriðju úttektinni og af þeim skýrslum FATF sem liggja fyrir um eftirfylgnistímabilið verði ráðið að þolinmæði samtakanna hafi verið að þrotum komin þegar Ísland komst loks út úr eftirfylgni þriðju úttektarinnar.
Í skýrslunni kemur enn fremur fram að vitað sé til þess að vísað hafi verið til slakrar frammistöðu Íslands í þriðju úttektinni þegar málefni Íslands hafi borið á góma á vettvangi samtakanna, það er að Ísland hafi ekki sinnt starfi FATF af metnaði með því að leggja til sérfræðinga í úttektir á öðrum ríkjum og svo framvegis.
Fjármagn í málaflokkinn kom of seint
Þá verði ekki framhjá því litið að á umræddum tíma virðist hafa verið til staðar takmörkuð þekking á starfsemi og kröfum FATF og því ekki nægilega vitað um umfang þess starfs sem þátttaka Íslands í samtökunum krafðist. Af þeim sökum virðist ekki hafa verið sett aukið fjármagn í málaflokkinn fyrr en of seint eða haustið 2017, þegar fjórða úttektin var þegar hafin.
Ekki verði heldur framhjá því horft að fjórða úttektin hafi ekki verið nægjanlega vel undirbúin af Íslands hálfu og stjórnkerfið allt ekki í stakk búið til að taka á málum af þeirri festu sem nauðsynleg hafi verið, en jafnframt verði að hafa í huga í því sambandi að á umræddum tíma hafi kosningar verið tíðar og ráðherraskipti í innanríkis- og dómsmálaráðuneytinu ör.
Stjórnvöld ekki nægilega meðvituð um grundvallarbreytingar á tilmælum FATF
Samkvæmt skýrsluhöfunum verður þannig að ætla að hlutaðeigandi stofnanir hafi verið lítt meðvitaðar um þær kröfur sem gerðar voru af hálfu FATF og ekki undir það búnar að taka ábyrgð á því verkefni sem fólst í úttektinni. Þegar málið hafi verið tekið fastari tökum í kjölfar fjórðu úttektarinnar, með tilheyrandi uppbyggingu á reynslu og aukinni þekkingu á málaflokknum, hafi sennilega þegar verið orðið of seint að bregðast við kröfum FATF með fullnægjandi hætti.
„Þá skiptir hér jafnframt máli að þegar fjórða úttektin fór fram höfðu orðið grundvallarbreytingar á tilmælum og aðferðafræði FATF sem stjórnvöld virðast ekki hafa verið nægilega meðvituð um. Slæm útkoma Íslands úr fjórðu úttektinni, svo og orðspor landsins eftir þriðju úttektina, virðist því hafa vegið þyngra en þær umfangsmiklu aðgerðir sem ráðist var í til að vinna bug á þeim ágöllum sem úttektin leiddi í ljós á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,“ segir í skýrslunni.
Hins vegar benda skýrsluhöfundar á að þetta ferli hafi verið lærdómsríkt þar sem orðið hafi til dýrmæt reynsla og þekking innan stjórnkerfisins sem nýst hafi vel í þeim umbótum sem þegar hafa farið fram, og muni áfram nýtast í þeim aðgerðum sem nú sé unnið að til þess að vinna bug á þeim ágöllum sem enn eru taldir vera til staðar á vörnum Íslands að þessu leyti.