Auglýsing

Svo virð­ist sem að íslenskur stjórn­mála- og fjár­mála­heimur sé að vakna skyndi­lega upp við þann vonda draum að á morgun verði Ísland mögu­lega komið á lista með ríkjum sem við viljum aldrei kenna okkur við. 

Ástæðan er sú að árum saman brást Ísland ekki við kröfum Fin­ancial Act­ion Task Force (FATF) um hvernig vörnum gegn pen­inga­þvætti skyldi hátt­að. Raunar gerðum við nán­ast ekki neitt til að sporna við þeim vágesti. Þess í stað voru settar upp opin­berar pen­inga­þvætt­is­leiðir af Seðla­banka Íslands. Þess í stað var ekk­ert gert til að tryggja að losun hafta byði pen­inga­þvætti ekki heim. Þess í stað var litið undan gagn­vart því að spila­kassar á vegum Háskóla Íslands, Rauða kross­ins, SÁÁ og slysa­varna­fé­lags hafa verið not­aðar sem pen­inga­þvætt­is­vélar fyrir glæpa­menn. Þess í stað var ekk­ert gert til að fylla í göt í starf­semi lög­manna sem gat aug­ljós­lega verið mis­notuð til að þvætta pen­inga. Þess í stað var raun­veru­legum eig­endum eign­ar­halds­fé­laga sem stofnuð voru á Íslandi áfram sem áður leyft að fela sig. Og svo fram­veg­is. 

Engin vilji var hér­lendis til að sjá pen­inga­þvætti, og afleið­ingin var sú að stjórn­völd sáu það ekki. Það þurfti útlenska stofn­un, í hlut­verki barns­ins, til að benda á að keis­ar­inn var kviknakinn. 

Afleið­ingin er að Ísland mun mögu­lega fara á lista með Norð­­ur­-Kóreu, Afganistan, Jem­en, Írak, Úganda og fleirum á morg­un. Banda­ríkin og Bret­land vilja að við verðum sett á hann. Evr­ópu­sam­bandið og aðild­ar­ríki þess vilja hindra það vegna þess að það lítur illa út fyrir EES-­sam­starf­ið, ekki vegna þess að við eigum það ekki skil­ið.

Þótt að það verði að vona að af þessu verði ekki, þá blasir alveg við að Ísland á skilið að lenda þessum lista. 

Mun hafa alvar­legar afleið­ingar

Fyrst að afleið­ing­un­um. Í einu af fjöl­mörgum frum­vörpum sem keyrð hafa verið í gegn síð­ustu mán­uði til að laga íslenskt lagaum­hverfi þannig að það sam­ræm­ist eðli­legum kröfum sam­fé­lags sem vill ekki að pen­inga­þvætti sé til staðar hjá sér er farið ágæt­lega yfir hvað ger­ist ef Ísland endar á list­an­um. Þar seg­ir: „Bregð­ist ríki ekki við kröfum FATF hafa aðild­ar­ríkin sam­mælst um að beita hvert annað þrýst­ingi með því að setja ríki á sér­stakan lista FATF yfir „ósam­vinnu­þýð“ ríki eða ríkja­svæði.

Auglýsing
Felst þrýst­ing­ur­inn m.a. í því að fara fram á að við­skipti við aðila sem búsettur er í við­kom­andi ríki sæti auk­inni áreið­an­leika­könn­un, gerðar séu strang­ari kröfur um hvers konar fjár­mála­starf­semi, stofnun úti­búa, dótt­ur­fé­laga og umboðs­skrif­stofa og jafn­vel útgáfu aðvar­ana um að við­skipti við aðila þess­ara ríkja geti falið í sér hættu á pen­inga­þvætti eða fjár­mögnun hryðju­verka. Dæmi eru um að erlend fyr­ir­tæki og fjár­mála­stofn­anir hafi frekar kosið að slíta við­skipta­sam­böndum við við­kom­andi ríki, þar á meðal milli­banka­við­skipt­um, í stað þess að fram­kvæma aukna áreið­an­leika­könnun (e. de-risk­ing). Það getur því haft veru­lega nei­kvæð áhrif á fjár­mála­kerfið í heild sinni og trú­verð­ug­leika Íslands á alþjóða­vett­vangi ef ekki er brugð­ist við til­mælum FATF fljótt og örugg­lega.“

Löngu búið að hringja aðvör­un­ar­bjöll­unum

Ísland gerð­ist aðili að FATF árið 1991 og skuld­batt sig þá til að sam­ræma lög­gjöf sína að til­mælum sam­tak­anna. Síðan gerðum við lítið sem ekk­ert til að standa við þá skuld­bind­ing­u. 

FATF skil­aði fyrstu skýrslu sinni um Ísland í októ­ber 2006. Í nið­ur­stöðum hennar var skýrt tekið fram að sam­tökin hefðu áhyggjur af virkni eft­ir­lits með pen­inga­þvætti hér­lend­is. 

Bæði Fjár­mála­eft­ir­litið og emb­ætti rík­is­lög­reglu­stjóra fengu athuga­semdir fyrir að hafa ekki veitt nægi­legum kröftum í mála­flokk­inn. 

Brugð­ist var við með því að setja á fót pen­inga­þvætt­is­skrif­stofu rík­is­lög­reglu­stjóra. Á henni starf­aði lengst af einn maður sem sinnti nær engri frum­kvæð­is­skyldu heldur treysti á til­kynn­ingar frá bönkum og öðrum aðilum um að við­skipta­vinir þeirra væru mögu­lega að stunda þvætti. Auk þess ætl­aði Fjár­mála­eft­ir­litið að fram­kvæmda reglu­legri og ítar­legri úttektir á fjár­mála­fyr­ir­tækjum vegna þessa. Þær úttektir beindust fyrst og síð­ast að stóru bönk­unum þrem­ur: Kaup­þingi, Lands­banka Íslands og Glitni.

Kjarn­inn greindi frá því í mars á þessu ári að eft­ir­litið hafi ein­ungis klárað úttekt sína á einum banka, Kaup­þing, þrátt fyrir að frum­nið­ur­stöður úr könn­unum á hinum tveimur bentu til að þar væri að finna brotala­mir sem leiddu af sér fall­ein­kunn þegar kom að pen­inga­þvætt­is­vörn­um. Ástæðan var sögð starfs­manna­skortur og síðan sér­stakar ástæður á fjár­mála­mark­að­i. 

Svo kom hrun og fólk fór að hugsa um eitt­hvað annað en pen­inga­þvætti.

Heil­brigð­is­vott­orð fyrir falið fé

Það liggur þó fyrir að áður en að bank­arnir hrundu og Íslandi var lokað með fjár­magns­höftum þá komu valdir hópar, sem höfðu aðgang að betri upp­lýs­ingum og tæki­færum en hinn venju­legi Íslend­ing­ur, hund­ruð millj­arða króna hið minnsta fyrir ann­ars staðar en á Íslandi. Hluti þeirra fjár­muna var geymdur í aflands­fé­lögum í löndum þar sem engin upp­lýs­inga­skylda var til stað­ar. 

Margir þeirra sem höfðu komið þessu fé undan voru í vand­ræðum með að nota það. Ástæðan gat verið sú að ekki hefðu verið greiddir skattar af því með rétt­mætum hætti í upp­runa­landi pen­ing­anna, eða engir skattar yfir höf­uð. Nú eða að um væri að ræða fjár­muni sem með réttu ættu að vera í eigu kröfu­hafa sem höfðu lánað við­kom­andi fé en ekki fengið end­ur­greitt. 

Það var flókið fyrir þessa aðila að koma pen­ing­unum sínum aftur í vinnu. Ekki ósvipað því og það er fyrir fíkni­efna­sala að kaupa sér t.d. fast­eign fyrir reiðu­féð sem hann fær fyrir svarta­mark­aðs­starf­semi sína án þess að íþrótta­task­ann hans, troðin af fimm þús­und köll­um, veki upp rétt­mætar spurn­ingar þegar hann ætlar að borga með inni­haldi henn­ar. 

Seðla­banki Íslands ákvað að skera þennan hóp niður úr snör­unni með fjár­fest­inga­leið sinni, sem var opnuð fyrir við­skipti snemma árs 2012. Í gegnum þá leið var hægt að ferja pen­inga sem faldir höfðu verið erlendis til Íslands, leysa út tug­pró­senta geng­is­hagn­að, fá 20 pró­sent virð­is­aukn­ingu á féð og kaupa eignir á Íslandi eft­ir­hrunsár­anna á bruna­út­sölu­verði. En mik­il­væg­ast af öllu var að þá fengu þeir heil­brigð­is­vott­orð frá Seðla­banka um að pen­ing­arnir þeirra væru hrein­ir.

Á meðal þeirra sem nýttu sér þessa leið voru fyrr­ver­andi eig­endur fall­ina banka, fyrr­ver­andi stjórn­endur þeirra og menn úr hópi stærstu lán­tak­enda bank­anna sem höfðu í sam­ein­ingu tæmt þá inn­an­frá. Fjöl­margir aðrir gerðu það auð­vitað líka, inn­lendir og erlendir aðil­ar. Við vitum ekki nákvæm­lega hverjir allir þeirra voru vegna þess að Seðla­banki Íslands vill ekki upp­lýsa um það.

Auglýsing
Í skýrslu sem Seðla­bank­inn gerði um fjár­fest­inga­leið­ina, og birt var í ágúst 2019 eftir að bank­inn hafði rann­sakað sjálfan sig vegna henn­ar, við­ur­kenndi hann nei­kvæð áhrif á íslenskt sam­fé­lag vegna leið­ar­inn­ar, þótt hann teldi að til­gang­ur­inn, að minnka snjó­hengju íslenskra krónu­eigna í eigu erlendra aðila, hefði helgað með­al­ið, sem í fólst að hleypa inn í íslenskt sam­fé­lag „skítug­um“ pen­ing­um. Hann við­ur­kenndi að leiðin hefði ekki gætt jafn­ræð­is, að hún hefði stuðlað að nei­kvæðum áhrifum á eigna­skipt­ingu, að hún hefði mögu­lega opnað á pen­inga­þvætti og gert „óæski­legum auð­mönn­um“ kleift að flytja til Íslands falda pen­inga af aflands­svæð­u­m. 

Í skýrsl­unni stóð að það væri ekki hlut­verk Seðla­­banka Íslands að útdeila rétt­­læti í sam­­fé­lag­inu „með því að greina á milli æski­­legra og óæski­­legra fjár­­­festa, verð­ugra og óverð­ugra.“ 

Ísland fær loks verð­skuld­aða fall­ein­kunn

Í apríl 2018 var FATF loks nóg boðið af þess­ari litlu eyju sem kaus að líta undan gagn­vart aug­ljósum brota­lömum í pen­inga­þvætt­is­vörnum til að geta sagt við sjálfa sig að hér væri ekk­ert slíkt að finna. Sam­tökin skil­uðu af sér nýrri úttekt þar sem nið­ur­staðan var sú að varnir lands­ins gegn pen­inga­þvætti fengu fall­ein­kunn

Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregð­ast við. Skýrsla FATF ýtti veru­lega við málum hér­lend­is. Það þurfti að bregð­ast við þessum athuga­semdum hratt, auk þess sem fyrir lá að fjórða pen­inga­þvætt­is­til­skipun Evr­ópu­sam­bands­ins yrði tekin upp í samn­ingnum um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES) í des­em­ber 2018.

Starfs­hópur á vegum dóms­mála­ráð­herra var því settur í að semja frum­varp um heild­ar­end­ur­skoðun á lögum um pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka.

Sú vinna skil­aði því að Sig­ríður Á. And­er­sen, þáver­andi dóms­mála­ráð­herra, lagði fram frum­varp um ný heild­ar­lög um varnir gegn pen­inga­þvætti 5. nóv­em­ber í fyrra. Málið var afgreitt frá efna­hags- og við­skipta­nefnd 12. des­em­ber og síð­ari tvær umræður kláraðar dag­inn eft­ir. Frum­varpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þing­manna þann sama dag. Þau tóku gildi þann 1. jan­úar 2019.

Til við­bótar þurfti að laga til mjög víða ann­ars staðar í stjórn­sýsl­unni. Og það var gert, meðal ann­ars með því að fjölga starfs­mönnum á pen­inga­þvætt­is­skrif­stof­unni, sem nú hefur fengið nýtt nafn, og láta þá raun­veru­lega gera eitt­hvað. 

Í eft­ir­­fylgn­is­­skýrslu sem birt var snemma í sept­­em­ber 2019 kom fram að Ísland hefði upp­­­­­fyllt 28 af 40 til­­­­­mælum sem FATF gerði kröfu um að lög­­­­­gjöf ríkja þurfi að upp­­­­­fylla. Ísland upp­­­­­fyllir ell­efu til­­­­­mæli að hluta en ein til­­­­­mæli, sem lúta að starf­­­semi almanna­heilla­­­fé­laga, töld­ust enn óupp­­­­­fyllt. Ráð­ist var í að keyra í gegn lög um þau fyrr í þessum mán­uð­i. 

Á morgun kemur svo í ljós hvort nóg hafi verið gert. 

Óbragð vegna sinnu­leysis

Frá hruni hefur blasað við að mengi fólks kom pen­ingum undan því sem restin þurfti að takast á við. Í skýrslu rann­sókn­ar­nefndar Alþingis sem birt var í apríl 2010 var þetta stað­fest að mörgu leyti og myndin varð enn skýr­ari sex árum síðan þegar Panama­skjölin sviptu hul­unni af hversu mikið af pen­ingum íslenskt fólk í aðstöðu til þess hafði falið á aflandseyj­u­m. 

Þessi hóp­ur, sá sem orsak­aði meðal ann­arra hrun­ið, hagn­að­ist síðan á því og hefur fengið að nýta þann hagnað til að sölsa aftur undir sig nýjar og fyrri eignir á Íslandi, er auð­vitað bara einn af þeim sem sér tæki­færi í slökum pen­inga­þvætt­is­vörn­um. Þeir sem stunda skipu­lagða alþjóð­lega glæp­a­starf­semi gera það auð­vitað líka, sem og allir hinir hóp­arnir sem eru sífellt í leit að því að öðl­ast lög­mæti fyrir skítugu pen­ing­ana sína. Það þarf að vera ansi barna­legur til að halda að slíkir hópar hafi ein­fald­lega sleppt því að horfa til Íslands í þeim efn­um, þegar pen­inga­þvætt­is­varnir okkar voru eng­ar, og Seðla­bank­inn var að bjóða upp á þvætt­is­leið­ir, en þess í stað ein­beitt sé að því að nýta aðrar erf­ið­ari og kostn­að­ar­sam­ari leiðir í öðrum lönd­um. 

Það var hægt að fara á eftir þeim pen­ingum sem komið var undan hér­lend­is, en það var ákveðið að gera það ekki. Það var hægt að grípa þá þegar þeir flæddu aftur inn í íslenskt efna­hags­líf, en það var ákveðið að gera það ekki. Það var hægt að laga aug­ljósar brotala­mir víða í íslenska kerf­inu, en það var ákveðið að gera það ekki. 

Frá því í jan­úar 2017 hefur Kjarn­inn skrifað tugi frétta­skýr­inga, frétta og skoð­ana­greina um pen­inga­þvætt­is­mál. Það var með­vituð ákvörðun rit­stjórnar vegna þess að um er að ræða eina aug­ljós­ustu brota­löm sem fyr­ir­finnst í íslenskum kerf­um. Við­brögðin hafa verið algjört sinnu­leysi, þar til á allra síð­ustu dögum og vik­um. Það sá eng­inn það sem hann vildi ekki sjá, þótt það hafi blasað við.

Eftir situr óbragð í munni vegna þeirri stöðu sem er uppi. Og veik von um að nú muni stjórn­mála­menn loks­ins taka sig til, klára að koma pen­inga­þvætt­is­vörn­unum í almenni­legt horf að öllu leyti og setji svo upp rann­sókn­ar­nefnd Alþingis til að fara yfir það lík­lega pen­inga­þvætti sem hefur verið stundað hér­lendis óáreitt, og á stundum með opin­berri aðstoð, árum sam­an.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sífellt fleiri notendur kjósa að nálgast sjónvarpsþjónustu í gegnum aðrar leiðir en með leigu á myndlykli.
Enn dregst leiga á myndlyklum saman en tekjur vegna sjónvarps halda áfram að aukast
Tekjur fjarskiptafyrirtækja vegna sjónvarpsþjónustu hafa rokið upp á síðustu árum. Þær voru 3,8 milljarðar króna á árinu 2017 en 14,9 milljarðar króna í fyrra. Þorri nýrra tekna í fyrra var vegna sjónvarpsþjónustu.
Kjarninn 27. júní 2022
Hagstofan býst við að hagvöxtur verði enn kröftugri en spáð var í lok vetrar
Hagstofan býst við því að hagvöxtur verði 5,1 prósent á árinu og 2,9 prósent á næsta ári, samkvæmt nýrri þjóðhagsspá. Búist er við því að um 1,6 milljónir ferðamanna sæki landið heim í ár, en fyrri spá gerði ráð fyrir 1,4 milljónum ferðamanna.
Kjarninn 27. júní 2022
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er utanríkisráðherra.
Telja að upplýsingar um fjölda sérstakra vegabréfa geti skaðað tengsl við önnur ríki
Utanríkisráðuneytið vill ekki segja hversu mörg sérstök vegabréf það hefur gefið út til útlendinga á grundvelli nýlegrar reglugerðar. Það telur ekki hægt að útiloka neikvæð viðbrögð ótilgreindra erlendra stjórnvalda ef þau frétta af vegabréfaútgáfunni.
Kjarninn 27. júní 2022
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Fjármálaráðuneytið segist ekki hafa yfirlit yfir fjársópseignirnar sem seldar voru leynilega
Fjármála- og efnahagsráðuneytið segist ekki hafa komið að ákvörðunum um ráðstöfun eigna sem féllu íslenska ríkinu í skaut vegna stöðugleikasamninga við kröfuhafa föllnu bankanna.
Kjarninn 27. júní 2022
Frá brautarpalli við aðallestarstöðina í þýsku borginni Speyer. Ef til vill hafa einhverjir þessara farþega nýtt sér níu evru miðann.
Aðgangur að almenningssamgöngum í heilan mánuð fyrir níu evrur
Níu evru miðinn gildir í allar svæðisbundnar samgöngur í Þýskalandi til loka ágústmánaðar. Þetta samgönguátak er hluti af aðgerðapakka stjórnvalda vegna vaxandi verðbólgu og hækkandi orkuverðs en er einnig ætlað að stuðla að umhverfisvænni ferðavenjum.
Kjarninn 26. júní 2022
Steingrímur J. Sigfússon hætti á þingi í fyrrahaust. Síðan þá hefur hann verið skipaður til að leiða tvo hópa á vegum ríkisstjórnarinnar.
Steingrímur J., Óli Björn og Eygló skipuð í stýrihóp til að endurskoða örorkukerfið
Fyrrverandi formaður Vinstri grænna, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fyrrverandi félagsmálaráðherra og aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar mynda stýrihóp sem á að endurskoða örorkulífeyriskerfið. Hópurinn á að skila af sér eftir tvö ár. Ingu Sæland er óglatt.
Kjarninn 26. júní 2022
Örn Bárður Jónsson
Veðurfræðingar án framtíðar!
Kjarninn 26. júní 2022
Heildartekjur fjarskiptafyrirtækja jukust um 6,1 milljarð í fyrra og voru 72,4 milljarðar
Farsímaáskriftum fjölgaði aftur í fyrra eftir að hafa fækkað í fyrsta sinn frá 1994 á árinu 2020. Tekjur fjarskiptafyrirtækjanna af sölu á farsímaþjónustu jukust gríðarlega samhliða þessari þróun.
Kjarninn 26. júní 2022
Meira úr sama flokkiLeiðari