Barnabætur á Íslandi eru fyrst og fremst nokkurs konar fátæktarhjálp fyrir mjög tekjulágar barnafjölskyldur. Skerðingarmörk bótanna eru hins vegar lág í norrænum samanburði og fær því töluverður fjöldi lágtekjufjölskyldna skertar tekjur og þá sérstaklega einstæðir foreldrar. Auk þess fá millitekjufjölskyldur hér á landi lítinn sem engan stuðning hér á landi.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um íslenska barnabótakerfið sem dr. Kolbeinn Stefánsson vann fyrir BSRB og kynnt var á fundi bandalagsins í dag. Að mati skýrsluhöfundar og BSRB er orðið tímabært að endurskoða íslenska barnabótakerfið.
Lítill sem enginn stuðningur við millitekjufjölskyldur
Í skýrslu Kolbeins er barnabótakerfið hér á landi borið saman við kerfi hinna Norðurlandanna en samkvæmt skýrslunni íslenska barnabótakerfið mjög lágtekjumiðað sem er ólíkt barnabótakerfum hinna Norðurlandanna. Ísland er ekki eitt um að vera með tekjutengdar barnabætur því bæturnar eru einnig tekjutengdar í Danmörku.
Þar í landi liggja þó skerðingarmörkin mun hærra og skerðingarhlutföllin lægri en hér á landi og fyrir vikið svipar danska barnabótakerfinu nokkuð til kerfanna í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð sem eru ekki tekjutengd.
Þá segir í skýrslunni að þó að barnabætur hér á landi séu háar í norrænu samhengi þá séu þær að nokkru leyti aðeins bundnar við fjölskyldur með ung börn, þegar börn ná sjö ára aldri dregur mjög úr stuðningi.
Stuðningur við meðaltekjuheimili er jafnframt markvert minni á Íslandi en fyrir samskonar fjölskyldur á hinum Norðurlöndunum. Foreldrar í hjúskap með meðal atvinnutekjur og með tvö börn fá 5.505 krónur á ári ef bæði börnin eru undir sjö ára aldri en ekki neitt ef bæði börnin eru eldri en sjö ára. Á hinum Norðurlöndunum fá slíkar fjölskyldur hins vegar umtalsverðan stuðning.
„Barnabætur á Íslandi eru fyrst og fremst nokkurs konar fátæktarhjálp fyrir mjög tekjulágar barnafjölskyldur en í ljósi þess hve lágt skerðingarmörk bótanna liggja má vera ljóst að nokkur fjöldi lágtekjufjölskyldna fær skertar barnabætur. Því má segja að barnabótum sé beint þangað sem þörfin er mest en aftur á móti er ekki ljóst að þær mæti þörfum allra lágtekjufjölskyldna sem þurfa á stuðningi að halda,“ segir í skýrslunni.
Minni hækkun til einstæðra foreldra
Í skýrslunni er einnig farið yfir þróun kerfisins hér á landi og þar kemur fram að hámarksupphæðir og skerðingarmörk barnabóta hafi hækkað á undanförnum árum en hafi þó ekki enn náð raunvirði hámarksupphæð barnabóta fyrir 2007. Aftur á móti hafi skerðingarhlutföll barnabóta einnig hækkað og árið 2019 var þrepaskipt tekjutenging barnabóta innleidd.
Enn fremur segir í skýrslunni að fyrirhuguð hækkun ríkisstjórnarinnar á skerðingarmörkum barnabóta á næsti ári, í kjölfar undirritunlífskjarasamninganna, muni skila mjög hóflegum hækkunum barnabóta og geri lítið sem ekkert fyrir allra tekjulægstu fjölskyldurnar. Þá gefi hækkun skerðingarmarka minni hækkun til einstæðra foreldra en til foreldra í hjúskap, en fyrrnefndi hópurinn býr við mjög auknar líkur á fátækt og fjárhagsþrengingum.
„Þegar horft er til þeirra kjarasamninga sem voru undirritaðir á árinu 2019 verður að teljast líklegt að þekja kerfisins verði minni árið 2020 en hún var 2019, það er að færri muni fá barnabætur,“ segir í skýrslunni.
Uppfullt af mótsögnum
Þá er ýmislegt í núverandi barnabótakerfinu sem orkar tvímælis að mati skýrsluhöfundar. Upphæðir hámarksbóta séu til dæmis hærri fyrir fyrsta barn einstæða foreldra en foreldra í hjúskap en aftur móti virðist gengið út frá því að börn umfram það fyrsta séu ódýrari í rekstri fyrir einstæða foreldra en foreldra í hjúskap.
Kolbeinn segir jafnframt að kerfið sé óþarflega flókið og erfitt sé að greina heildstæða hugsun á bak við það. Hann telur því að tímabært að taka íslenska barnabótakerfið til gagngerrar endurskoðunar. Slík endurskoðun þyrfti þá að taka tillit til þess hvernig fjölskyldan hefur breyst í íslensku samfélagi, til dæmis vegna sameiginlegrar forsjár barna og skiptrar búsetu skilnaðarbarna.
Þá sé jafnframt tilefni til að kanna hvort þurfi að auka þekju kerfisins með því að draga úr lágtekjumiðun. „Með skýrum markmiðum er hægt að móta kerfi sem styður við þau markmið fremur en kerfi sem lítur út eins og bútasaumur, upp fullt af mótsögnum og einkennum sem orka tvímælis,“ segir Kolbeinn að lokum í skýrslunni.