Að undanförnu hafa birst umfjallanir og greinar í Morgunblaðinu, þar sem fjallað hefur verið um möguleikann á því að sameina Íslandsbanka og Arion banka. Meðal þeirra sem fjallaði um þessi mál, var Albert Þór Jónsson, viðskiptafræðingur og fjárfestir, sem hvatti til þess í gær í grein, að þetta yrði skoðað vandlega, enda væri þörf á því að hagræða í bankakerfinu svo það gæti þjónustað heimili og fyrirtæki betur og með betri vaxtakjörum á lánum.
Tekið skal fram, að ekkert formlegt ferli er komið í gang, hvað þessi sameiningaráform varðar, en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur talað fyrir því að hann vilji ekki bíða of lengi með að koma söluferli á hlutum ríkisins í bönkum af stað, og þá með meiri hagkvæmni í bankakerfinu að leiðarljósi.
Samkeppnissjónarmiðin
Ljóst er að það yrði ekki auðsótt að fá samþykki samkeppnisyfirvalda fyrir sameiningu tveggja af þremur bönkum á Íslandi, sem skilgreinast sem kerfislægt mikilvægir bankar. En vel gæti farið svo, að látið yrði á það reyna, enda virðist óhjákvæmilegt að bankarnir hagræði verulega í rekstri.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, fjallaði um áskoranir og stöðu fjármálakerfisins í erindi á SFF deginum, og sagði þar meðal annars að bankakerfið væri að skreppa saman, krefjandi væri að skila viðunandi arðsemi og þrýstingurinn væri í þá átt til framtíðar horft.
Merkileg staða á Íslandi
Ekki þarf að hafa mörg orð uppi um það, að á Íslandi er uppi merkileg staða í fjármálakerfinu. Kerfið byggðist upp á neyðarlögunum, þar sem nýir bankar voru búnir til á grunni innlendrar starfsemi föllnu bankanna, og hefur það á tíu árum smátt og smátt verið að styrkjast, og efnahagsreikningar að taka á sig endanlega mynd, eftir uppfærslur á lánasöfnum.
Staðan núna er sú að eigið fé Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans er um 620 milljarðar króna, og á íslenska ríkið bæði Íslandsbanka og Landsbankann en samanlagt eigið fé þeirra banka nemur um 415 milljörðum króna.
Eiginfjárhlutföll hafa verið á bilinu 22 til 27 prósent, sem telst hátt í alþjóðlegum samanburði, en um 89 prósent af bankakerfinu er nú bundið við starfsemi á Íslandi en 11 prósent erlendis. Þetta er algjör kúvending frá því sem áður var. Farið var ítarlega yfir þessa stöðu í fréttaskýringum um stöðuna hjá Arion banka, á dögunum.
Hvernig liti sameinaður banki út?
Sé horft til hugmyndarinnar um að sameina Íslandsbanka og Arion banka, þá myndi eigið fé þess banka vera um 371 milljarður króna, sé miðað við samanlagt eigið fé eins og það er á pappírunum.
Hins vegar myndi sameining gefa færi á mikilli hagræðingu, en í grein sinn í Morgunblaðinu í gær, nefndi Albert að það mætti spara um 15 milljarða árlega með sameiningu, og skila því meðal annars til heimila og fyrirtækja með betri kjörum.
Sé litið til þess, að uppsagnir á 100 starfsmönnum Arion banka áttu að skila um 1,3 milljarði í sparnaði á ári, þá er ljóst að 15 milljarða sparnaður myndi þýða að mikill fjöldi starfsmanna myndi missa vinnuna. Að teknu tillit til annars rekstrarkostnaðar en launa, þá gætu þetta verið um 800 starfsgildi, lauslega áætlað.
Íslandsbanki er með um 47 prósent af eigin fénu, eins og það er í dag, en Arion banki 53 prósent. Sameinaður banki gæti verið í stöðu til að lækka eigið fé sitt nokkuð mikið, og greiða tugi milljarða til hluthafa, ef það tækist að draga mikið úr kostnaði samhliða sameiningunni.
Bara hugmyndir
Eins og áður segir, þá er ekkert fast í hendi í þessum efnum, en búast má við því að hagræðing í fjármálakerfinu muni halda áfram á næstunni. Landsbankinn er stærsti banki landsins, og hefur grunnrekstur hans einnig gengið mun betur en hjá hinum bönkunum, á undanförnum misserum. Kostnaðarhlutfall er lægst þar og arðsemi á eigin fé er hæst.