Mynd: EPA

Arion banki á breytingaskeiðinu

Einn kerfislægt mikilvægur banki, samkvæmt formlegri skilgreiningu stjórnvalda, er í einkaeigu. Það er Arion banki. Á sama tíma og rætt er um mikilvægi þess að bankar styðji við vöxt í efnahagslífinu, eftir áfall með falli WOW air, þá er Arion banki að endurskipuleggja rekstur og draga saman seglin. Tilgangurinn virðist meðal annars vera sá að geta greitt eins mikið eigið fé út úr bankanum og mögulegt er til hluthafa hans.

Við hrunið voru þrír bankar endurreistir. Tilgangurinn var að verja hagsmuni íslensks almennings og íslenskra fyrirtækja enda allir bankarnir þrír kerfislega mikilvægir. Í dag, ellefu árum eftir að Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki fengu nýjar kennitölur, eru þeir enn taldir til kerfislega mikilvægra aðila af Fjármálastöðugleikaráði. 

Það eru aðilar sem vegna „stærðar og eðlis starfsemi sinnar geta haft umtalsverð neikvæð áhrif á stöðugleika fjármálakerfisins og á raunhagkerfið ef þeir lenda í erfiðleikum“. 

Einn kerfislægt mikilvægur banki, samkvæmt formlegri skilgreiningu stjórnvalda, er í einkaeigu. Það er Arion banki. Hann er á fullu við að endurskipuleggja rekstur sinn og draga verulega úr umsvifum sínum. Í því felst að takmarka verulega útlán sín, fækka starfsfólki hratt og borga út eins mikið af eigin fé sínu til eigenda og hann kemst upp með, á sem skemmstum tíma. 

Hófst allt með stöðugleikasamningunum

Allir íslensku bankarnir þrír eru á meðal tíu stærstu fyrirtækja landsins. Arion banki er þeirra minnstur með 77,5 milljarða króna í veltu í fyrra. Athygli vekur að á meðan að bæði Landsbankinn og Íslandbanki juku veltu sína á árinu 2018 dróst hún verulega saman hjá Arion banka, eða um 18 prósent. 

Þessi þróun er hluti af áætlun sem hefur verið lengi í bígerð. Nánar tiltekið frá því að stöðugleikasamningarnir svokölluðu tóku gildi þegar Arion banki fékk undanþágu frá fjármagnshöftunum snemma árs 2016. Þá var eignarhaldi bankans þannig háttað að íslenska ríkið átti 13 prósent hlut en Kaupþing, félag utan um eftirstandandi eignir kröfuhafa þess banka, átti 87 prósent. 

Í samningunum sem undirritaðir voru 13. janúar 2016 var meðal annars sagt til um að Kaupþing ætti að gefa út skuldabréf upp á 84 milljarða króna sem væri tryggt með veði í öllum hlut félagsins í Arion banka. Skuldabréfið bar vexti og einungis mátti greiða inn á það með því að selja hluta í Arion banka á gengi sem væri yfir 0,8 krónur fyrir hverja bókfærða krónu af eigin fé bankans. Ef viðskipti færu fram undir því gengi myndi virkjast forkaupsréttur sem ríkið samdi um að fá. Kaupþing þurfti að greiða upp skuldabréfið, og þar með selja Arion banka, fyrir árslok 2018.

Samandregið snerist þetta samkomulag um að ef Kaupþing seldi Arion banka myndi stór hluti af ágóðanum fara í ríkissjóð. Í dag hefur ríkissjóður fengið um 90 milljarða króna vegna sölu Kaupþings á hlutum sínum í Arion banka, sem hófst í mars 2017, auk vaxta. Skuldabréfið sem var með veði i hlutum í Arion banka var svo greitt upp að fullu á árinu 2018. 

Skammtímasjóðir með skammtímamarkmið

Erlendu eigendur Kaupþings, og þar með Arion banka á þessum tíma, voru, og eru, að uppistöðu skammtímasjóðir. Það þýðir að þeir ætla sér ekki að eiga bankann til lengri tíma, heldur að hámarka virði eigna sinna á nokkrum árum. Svo verður sjóðnum slitið og þeir sem eiga hlut í honum, sem ekki er opinbert hverjir eru, fá greitt út ágóðann af fjárfestingunni. 

Þessir sjóðir þurftu að finna aðrar leiðir til að ná út hámarksverðmætum úr Arion banka en að láta Kaupþing selja hann. 

Leiðin sem var valin var ekki flókin, þeir keyptu bankann að mestu af sjálfum sér. 

Á árinu 2017 keyptu fjórir af stærstu eigendum Kaupþings, Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management Group, sjóðir í stýringu Attestor Capital og Goldman Sachs, samtals 29,6 prósent hlut í Arion banka. 

Tveir þeirra, Attestor og Goldman Sachs, bættu við sig 2,8 prósent hlut 13. febrúar 2018. Sama dag var kaupréttur Kaupþings á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka virkjaður. Sá kaupréttur var formgerður í samningi frá árinu 2009, var fortakslaus og einhliða. Ríkið mátti því ekki hafna tilboðinu án þess að gerast brotlegt við gerða samninga.

Gengið var formlega frá sölu hlutarins 26. febrúar 2018. Kaupverðið var 23,4 milljarðar króna og ekkert opið né gagnsætt söluferli fór fram. Um eina stærstu eignasölu ríkisins frá upphafi er að ræða.

Ein helsta ástæða þess að vogunarsjóðirnir sem áttu, og eiga, Kaupþing, vildu kaupa hlut ríkisins var, samkvæmt heimildum Kjarnans, að losna við fulltrúa Bankasýslu ríkisins, Kirstínu Þ. Flygering, úr stjórn Arion banka áður en að ráðist yrði í skráningu bankans á markað og frekari breytingar á starfsemi hans. 

15. febr­úar 2018 var sam­þykkt að Arion banki myndi kaupa 9,5 pró­­sent hlut í sjálfum sér af Kaupþingi, stærsta eig­anda bank­ans. Um var að kaup á eigin bréfum í sam­ræmi við ákvörðun hlut­hafa­fund­ar. Til við­bótar var greidd arð­greiðsla upp á 7,9 millj­arða króna.

Eigendahópur Kaupþings hafði kúvenst á nokkrum vikum. Og í kjölfarið var ráðist í skráningu á markað. Henni lauk sumarið 2018. 

Stefnt að því að ná út tugum milljarða

Í aðdraganda skráningar var farið víða til að reyna að telja nýja fjárfesta á að koma í þá vegferð sem var framundan með erlendu skammtímasjóðunum. Í henni fólst fyrst og síðast að fullnýta allar leiðir til að greiða út eigið fé út úr Arion banka, og til hluthafa. Íslenska ríkið hafði enda ekkert tilkall til þeirra fjármuna. Í fjárfestakynningu sem Kvika banki vann fyrir Kaupþing var því haldið fram að svigrúm væri til að greiða allt að 80 milljarða króna út úr Arion banka á tiltölulega skömmum tíma, eða þriðjung þess. Þær greiðslur myndu fara fram í gegnum endurkaup á bréfum og arðgreiðslur, eftir að aðgerðaráætlun yrði hrint í framkvæmd. 

Höskuldur H. Ólafsson steig til hliðar sem bankastjóri Arion banka fyrr á þessu ári. Í hans stað settist Benedikt Gíslason í stólinn.
Mynd: Samsett

Aðgerðirnar sem þurfti að grípa til voru eftirfarandi: Breyta fjármögnun bankans þannig að hægt væri að greiða út mikið af því eigin fé sem var að finna í honum, fækka starfsfólki verulega og minnka þannig rekstrarkostnað, selja undirliggjandi eignir sem væru ekki hluti af kjarnastarfsemi og taka svo til í útlánum.

Samhliða hefur verið skipt um fólk í brúnni. Bene­dikt Gísla­son var ráð­inn nýr banka­stjóri í stað Höskuldar H. Ólafssonar og hóf störf í byrjun júlí. Kjarn­inn hafði greint frá því rúmum tveimur mán­uðum áður en að til­kynnt var um ráðn­ingu Bene­dikts, að hann væri efstur á blaði stjórnar í starf­ið. Hann hafði unnið mikið fyrir Kaupþing og stærstu eigendur þess félags árin á undan, í kjölfar þess að hann færði sig þangað eftir að hana unnið fyrir stjórnvöld við að semja við kröfuhafa. Hann sat áður í stjórn Arion banka og nýtur trausts erlendu sjóðanna sem eiga þar enn stóran hlut. Benedikt hefur hreinsað til í framkvæmdastjórn Arion banka og réð auk þess Ásgeir Helga Reyk­fjörð Gylfa­son sem aðstoðarbankastjóra.

Kerfislega mikilvægur banki á breytingarskeiði

Nýju stjórnendurnir hafa látið hendur standa fram úr ermum við að breyta bankanum síðustu mánuði, þótt breytingarnar séu mislangt komnar. Þær áttu líka, til viðbótar við að bæta getu Arion banka til að greiða út fjármagn sem er að finna í bankanum, að skila því að bankinn nái markmiði um tíu prósent arðsemi eiginfjár. Það er enda auðveldara að ná slíku markmiði ef eigið féð er minna. Þá átti að ná því markmiði að rekstrarkostnaður nemi um 50 prósent af rekstrartekjum. 

Þetta er háleitt markmið, sé horft til þess hvernig rekstur bankans hefur gengið að undanförnu. Arðsemin hefur verið lítil sem engin, eða á bilinu 1,6 til þrjú prósent, en það telst lágt í alþjóðlegum samanburði. Kostnaðarhlutfallið - það er rekstrarkostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum - hefur einnig verið langt fyrir ofan fyrrnefnt markmið og hefur verið á bilinu 60 til 78 prósent sé horft yfir tímabilið frá því bankinn var skráður á markað 15. júní í fyrra.

Fækka starfsfólki og minnka útlán um 20 prósent

Starfsfólki bankans hefur fækkað hratt. Samstæðan var með 933 starfsmenn í lok þriðja ársfjórðungs í fyrra en ári síðar voru þeir orðnir 802 og hafði fækkað um 14 prósent. Fjármögnun bankans hefur verið kúvent með útgáfu víkjandi skuldabréfa. Arion banki hefur minnkað heildarumfang útlána sinna til að minnka greiðslur í sérstakan bankaskatt og til að reyna að breyta samsetningu eigna sinna svo bankinn þurfi ekki að uppfylla jafn ströng eiginfjárviðmið og hann gerir í dag. 

Í nýlegri fjárfestakynningu, sem aðstoðarbankastjóri Arion banka kynnti á markaðsdegi hans í London 12. nóvember síðastliðinn, kom fram að bankinn ætli sér að minnka fyrirtækjaútlán sín um 20 prósent til viðbótar fyrir lok næsta árs. Áhersla Arion banka verður þá á viðskiptavini sem þurfa á bilinu 500 til 10 milljarða króna fjármögnun. Stærri kúnnum verði beint í skuldabréfaútboð þar sem Arion banki hyggst verða milliliður og taka þóknanir fyrir, en lánin sjálf verða ekki hluti af efnahagsreikningi bankans. 

Þegar afkoma bankans fyrir þriðja ársfjórðung var kynnt var haft eftir bankastjóra bankans í tilkynningu að ákveðin áherslubreyting væri til staðar þegar kæmi að fjár­mögnun fyr­ir­tækja. „Vegna hárra skatta og mik­illa eig­in­fjár­kvaða á fjár­mála­fyr­ir­tæki getur verið hag­stæð­ara fyrir sum fyr­ir­tæki að fjár­magna sig með öðrum hætti en hefð­bundnum banka­lán­um. Arion banki ætlar að efla þjón­ustu við þessi fyr­ir­tæki, vera ráðgefandi um hag­stæð­ustu fjár­mögnun hverju sinni og vera öfl­ugur sam­starfs­að­ili með heild­ar­hags­muni þeirra í fyr­ir­rúmi.“

Eigið féð minnkað um 30 milljarða

Í kynningu fjármálastjóra bankans á sama fundi í London kom fram að tækifæri væru til að endurskipuleggja fjármögnun tryggingafélagsins Varðar og losa þannig um fé til útgreiðslu. Þá hefur lengi staðið til að selja greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor, en hörmuleg rekstrarframmistaða þess – Valitor hefur tapað sex milljörðum króna frá upphafi árs 2018 – hefur leitt til þess að áhuginn á kaupum hefur ekki verið mikill. Virði Valitor í bókum Arion banka hefur samhliða dregist verulega saman og dótturfélagið er nú verðmetið á 11,7 milljarða króna, eða 4,1 milljörðum króna minna en í upphafi árs. 

Arion hefur líka reynt að selja kisilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík, sem bankinn hefur setið með í fanginu frá því að slökkt var á henni fyrir rúmum þremur árum. Verðmiðinn á henni hefur hríðfallið undanfarið, en hún er nú bókfærð á 5,5 milljarða króna. Það er 20 prósent lægri verðmiði en var á verksmiðjunni í lok mars 2019. 

Afleiðing allra ofangreindra aðgerða sem þegar búið er að framkvæma er sú að eigið fé Arion banka hefur lækkað úr 225,7 milljörðum króna í lok árs 2017 í 196 milljarða króna í lok september síðastliðins. Eða um 30 milljarða króna. Ljóst er að stefnt er að því að minnka það enn frekar í nánustu framtíð. 

Hröð breytinga á eignarhaldi

Erlendu skammtímasjóðirnir sem komu til Íslands eftir hrunið hafa flestir dregið verulega úr starfsemi sinni hérlendis eftir að höftum var lyft. Þeir hafa sérstaklega dregið sig út úr eignarhaldi á skráðum hlutabréfum og í dag má finna erlenda fjárfestingu sem einhverju nemur í tveimur skráðum íslenskum félögum. Annað er Marel, langverðmætasta félagið í íslensku kauphöllinni sem var tvískráð í ár og hyggur á mikinn viðbótarvöxt alþjóðlega næsta áratuginn. Hitt er Arion banki. 

Innrás eða útrás?

Viðmælendur Kjarnans á fjármálamarkaði sögðu umræðu um íslenska bankakerfið nokkuð einsleita þessi misserin. Flestir væru að ræða um slakan rekstragrunn og ofmönnun – eins og „þið blaðasnáparnir”,svo vitnað sé beint í einn viðmælandann – en of fáir væru að ræða um hvað væri framundan. Sú sýn væri ekki spennandi fyrir íslenskt fjármálakerfi, að það geti ekki þjónustað útflutningshlið fjármálakerfisins af nægilegum metnaði. Þó útrásarhugtakið væri ekki beint í tísku þá væri það samt spurning hvernig bankakerfið ætti að geta stutt við íslenskt efnahagslíf til framtíðar án góðra tenginga við alþjóðlega fjármálamarkaði. Staðan í dag er þannig allt íslenska bankakerfið er með um 89 prósent eigna sinna í íslenskum eignum en ellefu prósent í erlendum.

Annar möguleiki er líka alveg fyrir hendi, og raunar farið að sjást glitta í hann. Það er að innreið tæknifyrirtækja inn á fjármálamarkaði muni verða verulega umfangsmikil á næstu misserum, og Íslandi muni ekki geta undanskilið sig frá þessu.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, hefur sagt að bankinn hafi metnað til þess að efla enn frekar fjártækni sína, til að vera samkeppnishæfur á þessu sviði. Bæði Íslandsbanki og Landsbankinn hafa einnig haft þessar áherslur.

En spurningarnar hvað þessa þróun varðar, eru mun frekar tengdar heildarmynd fjármálakerfisins á Íslandi og hvernig það mun þróast. Hvernig eru okkar kerfislægt mikilvægu bankar – og Arion banki þar meðtalinn – munu takast á við það þegar greiðslumiðlun opnast upp á gátt, tæknifyrirtæki fara að bjóða upp á þjónustu, eins og lán og nútímalega bankaþjónustu, þvert á landamæri. Það má líkja því sem er að eiga sér stað við hálfgerða innrás, í þessu samhengi. Lítið fjármálakerfi, sem styðst við eitt minnsta myntkerfi í heimi, gæti átt erfitt með að aðlagast þessum breytingum. Áherslur fyrirtækja eins og Amazon og Apple hafa birst neytendum á undanförnu ári, en bæði fyrirtæki hafa boðið sérstök greiðslukort og hafa farið beint inn á fjármálamarkað í Bandaríkjunum með þeim, og þannig komist inn í greiðslumatskerfi (Credit Score) fjármálageirans.

Flestar spár gera ráð fyrir að tæknirisarnir í heiminum muni fara hratt og örugglega inn á neytendamarkað með fjármálaþjónustu, og hefur Amazon nú þegar sýnt á spilin með innbyggðu afsláttarkerfi sínu fyrir alla korthafa Amazon greiðslukorts. Líklega líður ekki á löngu þar til lán og tryggingar fara að bjóðast frá tæknifyrirtækjunum, enda eru þau með fulla vasa fjár og búa yfir ítarlegum gögnum um neytendur, sem hjálpar til við að greina áhættu. Þrátt fyrir að þetta virðist langt í burtu, frá íslenskum veruleika, þá þarf það ekki að vera raunin. Innan fárra ára gætu tæknifyrirtækin hafið innreið á íhaldssaman fjármálamarkað af miklu meiri krafti en þau hafa nú þegar gert.

Á því er þó að verða breyting samhliða því að greiðslur út úr bankanum hafa aukist. Frá þeim tíma þegar íslenska ríkið seldi hlut sinn í bankanum, í febrúar í fyrra, þá hefur verið mikil hreyfing á hlutabréfum í honum. Markaðsvirði bankans var um 150 milljarðar þegar ríkið seldi, en um þessar mundir er það 140,5 milljarðar króna. Á tæplega tveimur árum hefur því markaðsvirði bankans lækkað um tæpa tíu milljarða. 

En ólíkt því sem var við skráningu, þá er bankinn nú kominn með allt annað eignarhald. Uppistaðan í upphafi voru sjóðir sem tengdust gamla kröfuhafahópi Kaupþings. Innlendir hluthafar eru samtals með 43,5 prósent hlutafjár en erlendir 56,5 prósent. Stærsti hluthafinn er Taconic Capital með 23,5 prósent hlut og sjóður tengdur Och-Ziff með 9,3 prósent hlut. Samanlagt fara þessir tveir sjóðir með um þriðjungshlut. 

Hlutur íslenskra lífeyrissjóða hefur smátt og smátt verið að aukast, ef horft er til tímans frá því bankinn var skráður á markað. Gildi lífeyrissjóður á stærstan hlut íslenskra lífeyrissjóða, eða 7,49 prósent hlut. Markaðsvirði hlutarins er um 10,5 milljarðar króna.
Stærstu íslensku einkafjárfestarnir í hluthafahópnum eru Stoðir hf. með tæplega 5 prósent hlut og Hvalur hf., þar sem Kristján Loftsson er stærsti hluthafinn, með 1,45 prósent hlut. Þriðju stærstu íslensku einkafjárfestarnir eru hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson. Íslandsbanki, sem íslenska ríkið á að öllu leyti, er með 1,7 prósent eignarhlut í bankanum, samkvæmt yfirliti yfir 20 stærstu hluthafa.
Eignarhlutur Stoða er því um sjö milljarða króna virði og Hvals tveggja milljarða virði. Virði hlutar Svanhildar Nönnu og Guðmundar Arnar er um 800 milljónir. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar