Sanna Marin, varaformaður finnskra jafnaðarmanna og samgönguráðherra, mun taka við embætti forsætisráðherra Finnlands í vikunni. Marin er 34 ára gömul og verður því yngsti forsætisráðherra í sögu landsins og jafnframt yngsti sitjandi forsætisráðherra í heiminum í dag. Þegar Marin tekur við embættinu verða fjórir af fimm forsætisráðherrum Norðurlandanna konur. Frá þessu er greint á vef Guardian.
Konur leiða ríkisstjórnarflokkana fimm
Í gær bar Marin sigur úr bítum í atkvæðagreiðslu meðal helstu áhrifamanna í Jafnaðarmannaflokknum í kjölfar þess að Annti Rinne, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, sagði af sér í kjölfar þess að Miðflokkurinn, einn ríkisstjórnarflokkanna, lýsti yfir vantrausti á hann eftir. Að lokum atkvæðagreiðslunnar sagði Marin við fjölmiðla að mikil vinna væri fram undan við að endurvinna traust.
Þeir fimm flokkar sem mynda ríkisstjórn Finnlands eru allir leiddir af konum og þrjár þeirra hafa jafnframt ekki náð 35 ára aldri.
Finland’s government is now led by these five party leaders. #newgeneration pic.twitter.com/vis0qB9tO8
— Tuomas Niskakangas (@TNiskakangas) December 8, 2019
Fjórir af fimm forsætisráðherrum konur
Þegar Marin tekur við embættinu verða fjórir af fimm forsætisráðherrum Norðurlandanna konur. Erna Solberg, leiðtogi Hægri-flokksins, hefur verið forsætisráðherra Noregs síðan haustið 2013. Mette Frederiksen, leiðtogi jafnaðarmann, tók við embætti forsætisráðherra Danmerkur í sumar og Katrín Jakobsdóttir er jafnframt forsætisráðherra Íslands.
Forsætisráðherra Svíþjóðar er Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmannaflokksins. Jafnframt stýra tveir karlmenn landsstjórn Grænlands og Færeyja en það eru Kim Kielsen í Grænlandi og Bárður á Steig Neilsen í Færeyjum.