Útgerðarfélag Reykjavíkur keypti nýverið 33,3 prósent hlut KG fiskverkunar í eignarhaldsfélaginu Kristján Guðmundsson ehf., sem átti 37 prósent í Útgerðarfélagi Reykjavíkur.
Eftir þau kaup á Hjálmar Þór Kristjánsson ekki neinn hlut í Útgerðarfélagi Reykjavíkur og mun hverfa úr öllum stjórnunarstörfum í félaginu. Í orðsendingu sem Kjarnanum barst frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur segir að þar með séu „rofin fjárhagsleg tengsl á milli bræðranna Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona. Eignarhald félaga þeirra bræðra á hlutafé í Brimi hf. er aðskilið.“
Útgerðarfélag Reykjavíkur er þar af leiðandi að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, sem er einnig forstjóri Brims. Eignarhlutur félagsins í Brim er nú 36,13 prósent. Auk þess eiga tvö tengd félög þess hlut, þar af á FISK-Seafood eignarhaldsfélag, í 100 prósent eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur, 10,05 prósent hlut. Samtals á þessi samstaða Guðmundar Kristjánssonar því nú 46,26 prósent í sjávarútvegsrisanum.
Félag Hjálmars Þór Kristjánssonar, KG Fiskverkun á Rifi, er líka á meðal stærstu eigenda Brims, með 6,5 prósent eignarhlut.
Kvóti yfir löglegu hámarki
Brim er það sjávarútvegsfyrirtæki sem heldur á mestum kvóta, en félagið fór yfir hámark sem lög heimila í kvóta, í krókaaflsahlutdeild í þorski, í nóvember þegar stjórn þess samþykkti samninga um kaup á tveimur sjávarútvegsfyrirtækjum í Hafnarfirði, Fiskvinnslunni Kambi og Grábrók. Hjálmar Kristjánsson átti 39 prósent í Kambi og allt hlutafé í Grábrók. Brim var því að kaupa eignir af bróður forstjóra síns. Samanlagt kaupverð nam rúmlega þremur milljörðum króna.
Stærsti eigandi Brim er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á um 46,26 prósent hlut í því félagi eftir að hafa selt stóran hlut til KG Fiskverkunar fyrir skemmstu. Það félag KG Fiskverkun, var 1. september síðastliðinn með um eitt prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Auk þess var félagið Ögurvík með 1,3 prósent aflahlutdeild.
Eftir áðurnefnda uppskiptingu er Guðmundur aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur auk þess sem systir hans, Sigurrós Kristjánsdóttir, á minni hlut í félaginu. Hjálmar á hins vegar KG Fiskverkun nú einn.
Samanlagður kvóti þessara þriggja félaga (Brims, Ögurvíkur og Útgerðarfélags Reykjavíkur), sem eru ekki skilgreind sem tengd, var 15,6 prósent í byrjun september síðastliðins.