Bankareikningar Victória de Barros Neto, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Angóla, eiginmanns hennar og barna hafa verið frystir og sakamál hefur verið höfðað á hendur henni. Þetta kom fram angólska dagblaðinu Jornal De Angola á sunnudag.
Ástæðan er ætluð þátttaka hennar í Samherjamálinu svokallaða, þar sem hún á að hafa leikið hlutverk í athæfi sem fól í sér mútugreiðslur, peningaþvætti og skattsvik. Á meðal þeirra sem eiga að hafa notið góðs af greiðslum til sjávarútvegsráðherrans fyrrverandi er João de Barros, einn barna ráðherrans fyrrverandi. Hann hefur meðal annars heimsótt Samherja til Íslands og má sjá mynd af honum hér að ofan. Með honum á myndinni eru Antonio, ráðgjafi sama ráðherra, Tamson Hatuikulipi, Þorsteinn Már Baldvinsson, þá forstjóri Samherja, James Hatuikulipi og Sacky Shanghala. Hún var tekin í Hafnarfjarðarhöfn í nóvember 2013.
Þetta átti sér stað í kjölfar þess að dómari í Namibíu gaf út handtökuskipun á hendur De Barros Neto vegna málsins. Hún bætist þar með í hóp sex Namibíumanna, þar af tveggja fyrrverandi ráðherra, sem hafa verið ákærðir vegna málsins.
Sex þegar ákærðir í Namibíu
Kveikur og Stundin greindu frá því 12. nóvember að Samherji lægi undir grun um að hafa greitt mútur til að tryggja aðgengi að ódýrum kvóta í Namibíu og Angóla. Hægt er að lesa umfjöllun Kveiks um Angóluhluta fyrirkomulagsins hér. Auk þess hefur er grunur um að Samherji hafi stundað umfangsmikið peningaþvætti og skattasniðgöngu.
Málið byggir á frásögn uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar, sem starfaði hjá Samherja í Namibíu og hefur sjálfur viðurkennt að hafa tekið þátt í umfangsmiklum lögbrotum fyrirtækisins, og gríðarlegu magni af gögnum sem hann lét Wikileaks í té. Þau gögn eru nú aðgengileg á internetinu. Al Jazeera sjónvarpsstöðin tók einnig þátt í opinberuninni og birti sinn hluta hennar í byrjun desember
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og fjórir aðrir menn voru nýverið ákærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu.
Auk Shanghala og Esau voru James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor nýverið, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Samherjamálið er einnig til rannsóknar í Noregi, þar sem fyrirtækið hefur verið í bankaviðskiptum við DNB, og á Íslandi.