Heildarendurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar hafa vaxið hratt á undanförnum árum og í fyrra námu þær rúmum þremur milljörðum króna. Stærstur hluti þeirra endurgreiðslna rann til fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og hæstu endurgreiðslurnar fengu Össur og Alvotech eða alls 90 milljónir hvort fyrirtæki fyrir sig.
Þetta kemur fram í svari ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar um stuðning við nýsköpun.
Endurgreiðslunar vaxið hratt
Skattafrádráttur er hluti af þeim stuðningi sem stjórnvöld veita nýsköpunarfyrirtækjum, með það fyrir augum að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði slíkra fyrirtækja. En allir þeir lögaðilar sem telja sig stunda rannsóknir og þróun og falla undir lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki geta sótt um endurgreiðslur.
Fyrstu endurgreiðslurnar voru árið 2011 vegna kostnaðar sem féll til árið 2010. Umsóknum um endurgreiðslur hefur fjölgað jafnt og þétt síðan þá og hefur heildarfjárhæð endurgreiðslna hækkað samhliða því. Auk þess hafa stjórnvöld hækkað þá hámarksupphæð draga má frá skatti með lagabreytingum á síðustu árum.
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar var stefndi að því að afnema þak á endurgreiðslur ríkisins vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Í stað þess afnema þakið lagði fjármálaráðherra fram frumvarp, sem samþykkt var í desember 2018, um að hámarkið á þeim kostnaði sem fellur til vegna rannsókna og þróunar og leyfilegt verður að draga frá skatti yrði hækkað úr 300 milljónum króna í 600 milljónir króna. Auk þess var hámarkið hækkað úr 450 milljónum í 900 milljónir króna ef um samstarfsverkefni er að ræða eða verkefni sem útheimta aðkeypta rannsóknar- og þróunarvinnu.
Árið 2011 námu endurgreiðslur til fyrirtækja vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar 634,6 milljónum og átta árum síðar námu þær tæplega 3,6 milljörðum króna, að því er fram kemur í svari ráðherra. Heildarfjárhæð endurgreiðslna fyrirtækjanna á síðustu 9 árum eru rúmir 16 milljarðar.
Alvotech hefur fengið 180 milljónir endurgreiddar á síðustu tveimur árum
Alls bárust 444 umsóknir um endurgreiðslur í fyrra en flestar þeirra komu frá höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt svari ráðherra hafa þó yfir 80 prósent þeirra sem sækja um endurgreiðslur í öllum landshlutunum erindi sem erfiði.
Ríkisskattstjóri ber þó einungis skylda að birta upplýsingar um þau nýsköpunarfyrirtæki sem fá endurgreiðslur yfir 60 milljónir á ári.
Á vef ríkisskattstjóra má sjá að árið 2018 fengu 11 fyrirtæki endurgreiðslur upp á 60 milljónir eða meira. Í heildina námu endurgreiðslur þessara 11 fyrirtækja rúmlega 743 milljónum króna.
Fyrirtæki sem fengu svo háar endurgreiðslur bæði í fyrra og 2017 voru þónokkur. Þar á meðal voru stórfyrirtæki á borð við Alvotech, CCP, Advania og Össur. Auk þess fengu LS Retail og Nox Medical 60 milljóna endurgreiðslur bæði árin.
Mikilvægt að hlúa vel að umhverfi stórra fyrirtækja
Í nýrri nýsköpunarstefnu stjórnvalda sem kynnt var í október kemur fram að áfram verði litið til endurgreiðslu skatta vegna rannsókna og þróunarkostnaðar sem hvata fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki.
Jafnframt kemur fram í stefnunni að stýrihópurinn sem mótaði stefnuna telji að mikilvægt sé að hlúa vel að rekstrar- og starfsumhverfi þeirra fyrirtækja sem mynda undirstöðu nýsköpunarumhverfis á Íslandi í krafti stærðar sinnar, fjármagns, þekkingar og reynslu.
„Nýsköpunarstefnan sem hér er kynnt á að gera Ísland betur í stakk búið að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum. Nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn. Nýsköpun er ekki aðeins grundvöllur efnahagslegrar velengni heldur lykillinn að úrlausn stærstu viðfangsefna komandi áratuga,“ skrifar Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra, í inngangi stefnunnar.