Tíu þingmenn úr fjórum flokkum Samfylkingunni, Pírötum, VG og Viðreisn, auk Andrésar Inga Jónssyni þingmanni utan þingflokka, hafa lagt fram frumvarp þess efnis að auka aðhaldshlutverk loftslagsráðs.
Þingmennirnir leggja til að að ráðið leggi reglulega fram álitsgerð um hvort aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum uppfylli yfirlýst markmið stjórnvalda og alþjóðlegar skuldbindingar. Slík álitsgerð yrði síðan birt opinberlega sem sjálfstæð og hlutlæg rýni á fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda.
Rýna í áætlanir stjórnvalda á undirbúningsstigi
Vorið 2018 komu stjórnvöld á fót svokölluðu loftslagsráði sem veita á stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum. Loftslagsráð er sjálfstætt í sínum störfum og í ráðinu eiga sæti fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og umhverfisverndarsamtaka auk annarra fulltrúa. Halldór Þorgeirsson er formaður ráðsins.
Verkefni ráðsins eru meðal annars að veita ráðgjöf um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðir til að auka kolefnisbindingu, hafa yfirsýn yfir miðlun fræðslu og upplýsinga um loftslagsmál til almennings, fyrirtækja og stofnana.
Auk þess skal ráðið rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmála sem og tillögur sem berast frá fagstofnunum um vöktun og rannsóknir sem tengjast loftslagsbreytingum.
Vilja að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sé endurskoðuð á tveggja ára fresti
Með frumvarpi þingmanna er lagt til að auka aðhald ráðsins enn frekar. Í greinargerð frumvarpsins segir að þegar kemur að beinni aðkomu að stærri áætlunum stjórnvalda sé ekki skýrt hvernig eftirlit ráðsins skuli fara fram. Því leggja þingmennirnir til að ráðinu sé skylt að rýna aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum þegar hún hefur verið lögð fram innan fjögurra vikna frá framlagningu hennar.
Slíkt verklag yrði að mörgu leyti hliðstætt því hlutverki sem fjármálaráði er falið en það ráð skal meta hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi þeim grunngildum og skilyrðum sem talin eru í lögum um opinber fjármál, en nýtur að öðru leyti sjálfstæðis í því hvernig staðið skuli að því mati.
„Með opinberri birtingu á álitsgerð fjármálaráðs er stuðlað að almennri og hlutlægri umræðu um stefnu stjórnvalda um opinber fjármál. Flutningsmenn telja að sjálfstæð og hlutlæg rýni á fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum sé mikilvægt grundvallaratriði í stefnumörkun hins opinbera og opinberri umræðu þar um,“ segir í greinargerðinni.
Jafnframt leggja þingmennirnir til að aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum skuli endurskoðuð eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti í stað fjögurra til að „endurspegla þá brýnu þörf sem er á stigvaxandi eflingu aðgerða gegn loftslagsbreytingum“.