„Ég efast um að nokkrar mútugreiðslur hafi átt sér stað eða að fyrirtækið sé eða hafi verið flækt í nokkuð ólögmætt.“ Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv. Þar segir hann enn fremur að hann telji að Jóhannes Stefánsson, sem starfaði hjá Samherja í Namibíu fram á mitt ár 2016 og uppljóstraði um viðskiptahætti fyrirtækisins þar, hafi verið einn að verki þegar kom að greiðslum sem stæðust ekki skoðun.
Þegar Björgólfur var spurður um greiðslur til félags skráð í Dubaí í eigu James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformanns namibísku ríkisútgerðarinnar Fischor, sem héldu áfram fram á árið 2019 sagði hann að ekkert benti til þess að þær greiðslur væru ólöglegar. Greiðslurnar hafi verið fyrir kvóta auk greiðslna fyrir ráðgjafarstörf. Blaðamaður Dagens Næringsliv benti Björgólfi á að eigandi reikningsins væri nú í fangelsi í Namibíu, þar sem hann hefur verið ákærður ásamt fimm öðrum fyrir að þiggja á níunda hundrað milljónir króna í mútugreiðslur frá Samherja. „Já, hann er borinn þungum sökum en hefur ekki hlotið dóm,“ svaraði Björgólfur.
Hann sagði Samherja ætla að draga fram það sem hefði átt sér stað í Namibíu, með rannsóknum sem fyrirtækið er að greiða norskri lögmannsstofu fyrir að framkvæma á sér, og leyfa svo þar til bærum yfirvöldum að meta afraksturinn. Björgólfur reiknar með því að hann muni ljúka hlutverki sínu sem tímabundinn forstjóri Samherja á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020. Það þýðir væntanlega að til standi að Þorsteinn Már Baldvinsson, sem steig tímabundið til hliðar sem forstjóri eftir að viðskiptahættir Samherja í Namibíu voru opinberaðir í síðasta mánuði, eigi að snúa aftur í stólinn á þeim tíma.
Launagreiðslur sjómanna
Samherjamálið hefur vakið mikla athygli í Noregi, sérstaklega vegna þess að norski bankinn DNB, sem er að hluta til í eigu norska ríkisins, er flæktur í það. Sá hluti, sem snýst um mögulegt peningaþvætti vegna greiðslna af reikningi í DNB sem aflandsfélagið Cape Cod Fs á Marshall-eyju átti, er til rannsóknar hjá norsku efnahagsbrotalögreglunni. Cape Cod er ekki með skráðan eiganda en í opinberun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera kom fram að starfsmaður Samherja hefði haft prókúru fyrir félagið.
Björgólfur segir í viðtalinu að greiðslur af reikningum Cape Cod hafi verið launagreiðslur sjómanna. Í yfirlýsingum Samherja á síðustu vikum hefur fyrirtækið neitað því að hafa átt Cape Cod, en því var heldur ekki haldið fram í umfjöllun ofangreindra miðla um viðskipti Samherja heldur bent á starfsmaður Samherja verið meðal prókúru á reikningi Cape Cod hjá DNB og hefði stofnað reikninginn.
Reikningunum var hins vegar lokað í fyrra vegna þess að bandarískur banki neitaði millifærslu frá félaginu vegna þess að hún stóðst ekki viðmið um peningaþvættisvarnir.
Ætlaðar mútugreiðslur 1,4 milljarðar
Málsvörn Samherja í málinu hingað til hefur fyrst og fremst byggst á þeirri línu sem Björgólfur fetar í viðtalinu. Að Jóhannes Stefánsson hafi einn framkvæmd ólögmæta viðskiptagjörninga í Namibíu, að fyrirtækið hafi ekki orðið uppvíst að peningaþvætti og að það hafi ekki stundað skipulega skattasniðgöngu með því að láta afrakstur veiða sinna safnast saman í lágskattaríkjum og komast þannig hjá því að greiða skatta í þeim ríkjum þar sem arðurinn varð til.
Jóhannes hefur gengist við því að hafa greitt mútur fyrir hönd Samherja til að tryggja fyrirtækinu aðgengi að kvóta í Namibíu. Hann segir hins vegar allar greiðslur hafa farið fram með vitund og vilja Þorsteins Más Baldvinssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja og eins aðaleiganda fyrirtækisins, og Aðalsteins Helgasonar, sem var yfir starfseminni í Namibíu.
Þegar er búið að handtaka og ákæra Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og fjóra aðra menn fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu.
Auk Shanghala og Esau voru James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor nýverið, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Jóhannes ræddi viðbrögð Samherja við málinu í Kastljósi á miðvikudag og sagði að fyrirtækinu væri „velkomið að reyna að villa um fyrir fólki“. Hann væri bara ábyrgur fyrir 20-30 prósemt af þeim mútugreiðslum sem greiddar hefðu verið til ráðamanna í Namibíu fyrir aðgang að kvóta áður en að hann hætti störfum hjá fyrirtækinu.
Samherjamálið er til rannsóknar á Íslandi, í Noregi, í Namibíu og Angóla.