Steingrímur H. Pétursson hefur verið ráðinn fjármálastjóri á skrifstofu Samherja í Hollandi.
Steingrímur gegndi stöðu framkvæmdastjóra fjármála- og viðskiptaþróunar hjá Högum en var þar á undan framkvæmdastjóri fjármálasviðs Olís í þrjú ár.
Samherji hf., félag utan um hluta af starfsemi Samherjasamstæðunnar, er sjötti stærsti eigandi Haga með 4,22 prósent hlut. Sá hlutur var stærri þar til nýlega, þegar Samherji seldi umtalsvert magn af bréfum í Högum. Samherji kom inn í eigendahópinn þegar Hagar og Olís runnu saman, en Samherji hafði verið stærsti eigandi Olís fyrir þann samruna.
Í tilkynningu kemur fram að Steingrímur hafi einnig gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjá Eimskip, Sandblæstri og Málmhúðun og Fjárfestingarfélaginu Sjöfn en hóf starfsferil sinn að loknu háskólanámi hjá KPMG Endurskoðun á Akureyri þar sem hann vann í fjögur ár.
Hagar tilkynntu til Kauphallar á sunnudagskvöld um yfirvofandi breytingar á framkvæmdastjórn sinni vegna brotthvarfs Steingríms. Þar kom fram að Steingrímur hefði sjálfur óskað eftir því að láta af störfum og að hann hefði ráðið sig til starfa erlendis. „Steingrímur mun hefja störf erlendis á nýju ári, en mun sinna verkefnum fyrir félagið þangað til.“