Verðbólga lækkaði skarpt milli mánaða og fór úr 2,7 prósent í 2,0 prósent. Það er minnsta verðbólga sem mælst hefur í tvö ár, eða frá því í desember 2017. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofan birti í morgun.
Það þýðir að verðbólgan er komin undir 2,5 prósent verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands á ný, en hún var þar síðast í júní 2018. Frá þeim tíma reis hún hæst í 3,7 prósent í desember fyrir ári síðan.
Flestar spár gerðu ráð fyrir að verðbólgan myndi fara niður í átt að verðbólgumarkmiði í lok yfirstandandi árs, eða snemma á því næsta, en það voru ekki margir sem gerður ráð fyrir svona skörpum samdrætti hennar.
Hefur áhrif á lánakjör fjölda Íslendinga
Hin skarpa minnkun verðbólgu hefur jákvæð áhrif á alla þá sem eru með verðtryggð íbúðalán, en þorri íslenskra lántaka er með slík lán. Kjarninn hefur þó fjallað um það undanfarna daga að óverðtryggð lán hafi verið að sækja mjög í sig veðrið það sem af er þessu ári, meðal annars vegna þess að sumir lífeyrissjóðir landsins hafa breytt lánaskilmálum sínum þannig að þeir vísa fleirum í átt að slíku lánaformi.
Á þessu ári hefur samsetning lána tekið stakkaskiptum því óverðtryggð lánhafa vaxið um nær 30 prósent á milli ára en á móti vegur að hrein ný verðtryggð lán drógust saman um 37 prósent á verðlagi hvors árs.
Óvænt lækkun húsnæðisliðar
Í grein eftir Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka, sem birtist á heimasíðu bankans í dag segir að óvænt lækkun húsnæðisliðar hafi vegið þungt í því hversu mikill munur var á verðbólguspám og mælingu Hagstofunnar í desember. „Lækkandi vextir á íbúðalánum undanfarin misseri koma af nokkrum krafti inn í mælingu reiknaðrar húsaleigu nú um stundir,“ segir hann og bætir við að sú mæling samanstandi í raun af tveimur þáttum, annars vegar breytingum á íbúðaverði næstu þrjá mánuði á undan mælingarmánuði og hins vegar 12 mánaða hlaupandi meðaltali vaxta á íbúðalánum.
Að húsnæðisliðnum frátöldum vó liðurinn matur- og drykkjarvörur þyngst til lækkunar í mælingu desembermánaðar. Það helsta í mánuðinum sem vó til hækkunar á verðbólgu voru flugfargjöld.