Umhverfisstofnun hefur hvatt alla landsmenn til hófsemi í notkun flugelda og undirstrikar stofnunin að mengun frá flugeldum sé raunverulegt vandamál hér á landi. Stofnunin bendir á að loftmengun hafi neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa eins og börn, aldraða og fólk sem er veikt fyrir. Svifryk valdi ekki einungis óþægindum heldur skerðir lífsgæði margra.
„Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir og því er mikilvægt að minnka verulega magn flugelda sem skotið er upp um áramót þar sem þeim fylgir ávalt mikið svifryk,“ segir í fréttatilkynningu Umhverfisstofnunar.
Eitt kvöld jafngildir allt að mánuði í mengun
Umhverfisstofnun mældi efnainnihald svifryks um áramótin í fyrra og árið þar á undan og samkvæmt niðurstöðum stofnunarinnar varð verulega aukning á hlutfalli ýmissa efna í svifrykinu um áramótin en þau efni sem hækka langmest eru efni sem má kalla einkennisefni fyrir megnun frá flugeldum.
Stofnunin segir því að ljóst sé að þessi mikla aukning í mengunin komi frá flugeldum en ekki frá öðrum uppsprettum eins og til dæmis áramótabrennum. Svifryk með slíka efnasamsetningu telst varasamt samkvæmt Umhverfisstofnun.
Í niðurstöðum mælinganna kemur fram mengunarálagið af áramótunum í fyrra jafngildir um 5 til 15 daga hefðbundins álags í úthverfi ef eingöngu er horft til heildarmagns svifryks.
Fyrir einstök efni sem mældust í svifrykinu jafngildir mengunarálagið aftur á móti talsvert lengra tímabili. Fyrir blý og arsen jafngildir mengunarálagið um áramót gróflega þriggja vikna hefðbundnu mengunarálagi og styrkur kadmíum og brennisteins um áramót jafngildir gróflega eins mánaðar hefðbundnu mengunarálagi
Yfir helmingur þjóðarinnar vildi einhverskonar takmörkun á sölu flugelda í fyrra
Mikil umræða hefur skapast um flugeldamál á síðustu árum vegna neikvæðra áhrifa þeirra á umhverfi og heilsufar og færist því sífellt í aukana að farið sé fram á að óheft flugeldasala verði bönnuð.
Mengunin sem stafar af flugvöldum hefur til að mynda mikil áhrif á lungnasjúklinga. Mengunin getur verið þeim mjög skaðleg og leitt þá í andnauð. Á vef heilsugæslunnar segir að mengunin um áramót sé það mikil að jafnvel frískt fólk getur fundið fyrir áhrifum á öndunarfærin. „Hér er því um að ræða mikla umhverfisvá sem taka ber á. Þetta má líta á sem heilsuvernd og því þurfum við að taka á þessu máli án tafar,“ segir á vef heilsugæslunnar.
Í niðurstöðum könnunar Maskínu um flugeldasölu frá því í desember í fyrra kim fram að tæplega 55 prósent þjóðarinnar vildu einhverskonar takmarkanir á sölu flugelda. Rúmlega 45 prósent landsmanna vildi hins vegar óbreytt fyrirkomulag á sölu flugelda.
Helsta tekjulind björgunarsveitanna
Flugeldasala er hins vegar mikilvægasta tekjulind Björgunarsveita landsins og segja sveitirnar að án hennar væri ekki hægt að halda úti því öfluga öryggisneti sem björgunarsveitirnar séu fyrir Íslendinga.
Í áramótakveðju sinni í fyrra sagði Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar að björgunarsveitirnar séu ekki sérstakir varðhundar flugelda en að þær munu eftir megni verja ávinninginn sem fer í verkefnin sem sveitirnar leysa af hendi.
„Við höfum ekki fundið aðra leið til fjármögnunar. Það þarf að skoða báða enda tommustokksins þegar rætt er um afleiðingar flugelda, ræða kostina og gallana, og hvar hagsmunirnir eru meiri eða minni. Fjármögnun viðbragðs björgunarsveita er ekki einkamál sjálfboðaliðanna að leysa,“ skrifaði Smári.
Björgunarsveitirnar hafa þó brugðist við aukinni gagnrýni með því að bjóða upp þeim sem vilja styrkja starfsemi þeirra án þess að kaupa flugelda upp á að kaupa tré sem verða gróðursett í Áramótaskógi í staðinn.
Starfshópur um flugelda ekki skilað af sér tillögum
Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshóp í lok desember í fyrra sem taka á til skoðunar og gera tillögur um hvort og þá með hvaða hætti eigi að takmarka notkun flugelda og hvernig hægt sé að tryggja að það hafi sem minnst neikvæð áhrif á fjármögnun þeirra verkefna sem björgunarsveitir inna af hendi í þágu almannaheillar.
Hópurinn hefur þó ekki enn skilað af sér tillögum og því verða engar breytingar gerðar á reglugerðum varðandi flugeldaframboð og flugeldasölu fyrir næstu áramót, samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið fékk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og greindi frá í nóvember síðastliðnum. Innkaup á flugeldum eru gerð með löngum fyrirvara og því þurfi að taka ákvarðanir um breytingar á flugeldasölu áður en komi að slíkum innflutningi.