Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt til breytingar á innflutningskröfum fyrir hunda og ketti. Hann leggur meðal annars til að einangrun dýranna hér á landi verði stytt úr fjórum vikum í tvær vikur.
Þetta kemur fram í reglugerðardrögum ráðherra sem birt hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda.
Heimasóttkví fyrir hjálparhunda
Enn fremur er lagt til að undirbúningur fyrir almennan innflutning fari að mestu fram í heimalandi eða útflutningslandi dýranna, það er hvað varða bólusetningar, rannsóknir, meðhöndlun og heilbrigðisskoðun.
Í drögunum eru hjálparhundar jafnframt sérstaklega skilgreindir en þeir skulu sæta sömu innflutningsskilyrðum og aðrir hundar að því undanskildu að 14 sólarhringa einangrun geti farið fram í heimasóttkví undir eftirliti Matvælastofnunar.
Breytingartillögurnar byggja á áhættumati frá Preben Willeberg, fyrrum yfirdýralækni Danmerkur, og sérfræðiáliti Matvælastofnunar en í frétt Stjórnarráðsins um reglugerðardrögin segir að ekki sé litið svo á að verið sé að slaka á kröfum heldur er öðrum aðferðum beitt til þess að halda uppi sömu eða jafnvel meiri vörnum gegn smitsjúkdómum en nú er gert.
Hægt er að senda inn umsagnir um reglugerðina til 3. janúar næstkomandi.