Arion banki, eigandi greiðslumiðlunarfyrirtækisins Valitor, bókfærði 600 milljóna króna kostnað vegna endurskipulagningar á Valitor á fjórða ársfjórðungi ársins sem var að líða. Endurskipulagningunni er ætlað að snúa við miklum taprekstri sem verið hefur hjá Valitor undanfarin misseri. Ákvörðun um hana var tekin af stjórn Valitor.
Í tilkynningu til Kauphallar vegna þessa segir að Valitor muni greina frá inntaki fyrirhugaðra breytinga innan tveggja vikna og að gert sé ráð fyrir því að þær muni breyta afkomu félagsins í hagnað fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði. „Fjárfestingar Valitor í alþjóðlegri starfsemi hafa verið umtalsverðar á undanförnum árum. Þessar fjárfestingar hafa skilað tekjuvexti, en sala á alrásarlausnum (e. omni-channel solutions), vörulínu fyrir evrópsk stórfyrirtæki, hefur ekki staðið undir væntingum. Þar munar mest um 6 milljarða króna fjárfestingu í alrásarlausnum á tímabilinu frá árinu 2014, en bókfærð óefnisleg eign af þessum fjárfestingum nemur nú um 4,5 milljörðum króna. Hins vegar nema ætlaðar tekjur af lausninni eingöngu um 1,1 milljarði króna árið 2019. Áætlað er að draga verulega úr áframhaldandi fjárfestingum á þessu sviði.“
Virðið lækkað um milljarða á skömmum tíma
Valitor var metið á 11,7 milljarða króna í bókum Arion banka í lok september síðastliðins. Það er 4,1 milljarði króna lægri verðmiði en var á félaginu í byrjun árs 2019.
Á sama tíma hafði rekstrarkostnaður aukist úr 5,9 milljörðum króna í tæplega 7,8 milljarða króna, eða um 31 prósent.
Mikið tap og fækkað í framkvæmdastjórn
Tap Valitor í fyrra kom í framhaldi af 1,9 milljarða króna tapi á árinu 2018. Samanlagt tap fyrirtækisins frá byrjun árs 2018 og til loka september 2019 nam því sex milljörðum króna. Árið 2017 skilaði Valitor 940 milljón króna hagnaði.
Ein helsta ástæðan fyrir tapinu er sú að einn stærsti viðskiptavinur Valitor, Stripe, hætti færsluhirðingarviðskiptum sínum við Valitor um mitt ár 2018, líkt og Kjarninn greindi frá í mars 2018 að stæði til. Þessi ákvörðun Stripe leiddi til þess, samkvæmt afkomutilkynningu frá Valitor sem send var út í fyrra, að velta fyrirtækisins fluttist frá Valitor sem „hafði talsverð áhrif á vöxt tekna og viðskipta Valitor á árinu.“
Hluti af tapinu í ár er tilkomið vegna þess að Valitor samdi um að greiða Datacell og Sunshine Press Productions, félagi tengt Wikileaks, 1,2 milljarða króna fyrr á þessu ári í skaðabætur. Landsbankinn, sem er í eigu íslenska ríkisins, greiddi alls 426 milljónir króna af af þeim bótum.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði í tilkynningu til Kauphallar Íslands, þegar uppgjör þriðja ársfjórðungs var birt, þar sem fjallað er um umtalsverðar niðurfærslur á virði eigna sem eru til sölu, að í tilfelli Valitor sé ástæðan vegna fjárfestingar í alþjóðlegri starfsemi og „gjaldfærsla kostnaðar vegna skipulagsbreytinga.“
Kjarninn greindi frá því 11. desember síðastliðinn að Valitor hefði breytt skipuriti félagsins og einfaldað það þannig að fækkað er í stjórnendateymi félagsins úr tíu í fjóra. Í nýrri framkvæmdastjórn Valitor sitja Robert Gray, Christine Bailey, Birkir Jóhannsson og Viðar Þorkelsson, forstjóri félagsins.