Finnur Dellsén, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands, telur að sú afstaða að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum mjög vel rökstudda en hann var í ítarlegu viðtali við Kjarnann sem birtist um áramótin.
Ein af ástæðum þess að hún er vel rökstudd, að hans mati, er að langflestir vísindamenn, eða um 97 prósent, hafa komist að þessari niðurstöðu. „Það að einhverjir vísindamenn séu á annarri skoðun er ekki endilega ekki eitthvað sem við ættum að hafa miklar áhyggjur af,“ segir hann.
Ástæðan fyrir því að við ættum ekki að hafa áhyggjur af þeim sem eru í miklum minnihluta, að sögn Finns, er sú að við ættum að búast við því, nánast sama hvert málefnið er, að einhverjir séu ósammála niðurstöðunni sem allir aðrir eru sammála um. Þannig sjái Finnur það þvert á móti sem ákveðið styrkleikamerki á kenningu að þeir séu til sem eru ósammála henni.
„Ef 100 prósent loftslagsvísindamanna væru sammála um að breytingarnar séu af mannavöldum þá myndi ég hafa meiri áhyggjur en ég hef núna. Þá væri ástæða til að trúa því að eitthvað skrítið væri í gangi með þessa vísindamenn vegna þess að þessi vísindi eru mjög flókin. Það er mjög flókið að komast að því hverjar orsakir loftslagsbreytinga eru – það er ekki jafn einfalt og stundum er látið í veðri vaka þar sem heimurinn hefur hlýnað og á sama tíma hefur gróðurhúsalofttegundum verið hleypt út í andrúmsloftið. Það er ekki svo einfalt að hægt sé að draga þá ályktun að annað sé orsök fyrir hinu. Við vitum að það er ákveðin hugsanavilla að þegar tveir hlutir fara saman þá sé þar af leiðandi orsakasamhengi þarna á milli. Það er ekki þannig.“
Þannig ætti að koma okkur verulega á óvart ef allt í einu 100 prósent vísindamanna væru sammála um þessi mál. „Ég myndi segja að 97 prósent sé nokkurn veginn það hlutfall sem sem við ættum að búast við að segði að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum ef loftslagsbreytingar væru af mannavöldum.“
Finnur segir að mjög algengt sé að fólk noti þessi þrjú prósent sem eru ósammála heildinni sem forsendu fyrir eigin skoðunum. „Þetta er eitthvað sem gerist oft með sérfræðinga, að fólk dregur fram þá sem hentar þeirra málstað. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu og tel ég að við ættum að breyta því hvernig við hlustum á sérfræðinga,“ segir hann. Í stað þess að leita eftir skoðunum einstakra sérfræðinga ættum við að spyrja okkar hvað sérfræðingarnir á tilteknu sviði eru flestir sammála um. Það sé miklu áreiðanlegri leiðarvísir að því hvað sé satt á viðkomandi sviði.
„Í þessu tilfelli eru 97 prósent loftslagsvísindamanna á því að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum og ég held að við ættum ekki að hlusta sérstaklega á neinn af þeim sem mynda þessi þrjú prósent. Við ættum frekar að horfa á það að nánast allt annað loftslagsvísindafólk er sammála um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Það er miklu meira upplýsandi í almennri og opinberri umræðu um öll mál. Loftslagsbreytingar eru mjög gott dæmi um þetta,“ segir hann.