Bára Huld Beck

Hverju á eiginlega að treysta?

Á tímum samfélagsmiðla, falsfrétta og endalauss upplýsingaflæðis getur verið vandasamt að átta sig á hvaða vitneskju við eigum að taka til okkar og hverju við eigum að treysta. Kjarninn spjallaði við Finn Dellsén, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands, en hann hefur velt því fyrir sér hvort treysta eigi meirihluta vísindamanna og hvers vegna oftast sé rétt að gera það. Hann segir mikilvægt að treysta gagnrýnið og enn fremur að athuga hvort einhverjir hagsmunir liggi að baki þeim upplýsingum sem við sönkum að okkur.

Upp­lýs­ing­arnar flæða yfir nútíma­fólk þar sem aðgengi að þeim hefur auk­ist til muna með til­komu nýrrar tækni. Þó virð­ist sem fólk sæki í upp­lýs­ingar sem renna stoðum undir skoð­anir þeirra og hunsi frekar þær sem passa ekki inn í heims­mynd þess. En það breytir þó ekki þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir þegar meta á upp­lýs­ing­ar: Hverju á að treysta og trúa og hverju ekki? 

Kjarn­inn hitti heim­spek­ing­inn Finn Dell­sén til að ræða þessi mál en hann hefur meðal ann­ars fjallað í skrifum sínum og fyr­ir­lestrum um traust á sér­fræð­ingum og gagn­rýna hugs­un. Hann segir að vís­inda­kenn­ingar hafi í sögu­legu sam­hengi aldrei verið eins vel rök­studdar og því sé minni hætta á að kenn­ingar koll­varp­ist eins og áður þekkt­ist. Hann telur jafn­framt að það sé kostur að fólk sé ósam­mála og að ekki sé 100 pró­sent sam­staða um mál – og ef svo væri, þá fyrst ættum við að hafa áhyggj­ur. 

Finnur hlaut Nils Klim-verð­launin fyrir rann­sóknir sínar á þekk­ing­ar­fræði og vís­inda­heim­speki, fyrstur Íslend­inga, í mars síð­ast­liðnum en verð­launin eru veitt árlega nor­rænum fræði­manni yngri en 35 ára. Hann hlaut jafn­framt Hvatn­ing­ar­verð­laun Vís­inda- og tækni­ráðs 2019 í nóv­em­ber á þessu ári. Verð­launin eru veitt vís­inda­manni sem snemma á ferl­inum þykir hafa skarað framúr og skapað vænt­ingar um fram­lag í vís­inda­starfi er treysti stoðir mann­lífs á Ísland­i. 

Fríið fór í að læra heim­speki

Heim­spekin fang­aði þó ekki huga Finns á mennta­skóla­ár­unum en aðal­fög hans í Mennta­skól­anum á Akur­eyri voru eðl­is­fræði og stærð­fræði. Ætl­aði hann sér að verða sér­fræð­ingur á öðru hvoru svið­inu en örlögin hög­uðu því öðru­vísi. „Ég tók ekki einu sinni val í heim­speki á þessum tíma, það hent­aði ekki eða pass­aði inn í stunda­töfl­una. Ég hafði þó alltaf áhuga á heim­speki,“ segir hann. Finnur tók sér árs frí eftir mennta­skóla og fór það í að læra heim­speki. „Ég er það mikið nörd að ég fór ekki að ferð­ast um heim­inn heldur fór ég að læra heim­speki í stað­inn. Svo má segja að ég hafi fest í þessu, ég hafi í raun ekki farið úr heim­spek­inn­i,“ segir hann og hlær. Þó hafi hann reynt en hann tók eitt miss­eri í stærð­fræði og eitt í stærð­fræði­legri rök­fræði en svo hafi hann fljót­lega fundið að hann lang­aði aftur í heim­spek­ina. 

Hann sér­hæfði sig í vís­inda­heim­speki, rök­fræði og þekk­ing­ar­fræði og segir hann að hann hafi mikið notað tæki og tól stærð­fræð­innar í heim­speki­rann­sóknum sínum og búi því mikið að henni. „Það er samt þannig að ég er algjör alæta á heim­speki. Þannig að ég hef mjög mik­inn áhuga á þessu öllu.“ ­Finnur hefur í þessu sam­hengi meðal ann­ars stundað rann­sóknir á sögu heim­spek­innar og und­ir­stöðum sið­fræð­inn­ar, ásamt því að hafa alltaf haft mik­inn á huga á stjórn­mála­heim­speki.

Finnur útskrif­að­ist sem doktor í heim­speki árið 2014 frá UNC við Chapel Hill í Banda­ríkj­unum en þegar hann fór í það nám valdi hann að fara í deild þar sem fjöl­breytnin er mikil og hefur hann því einnig rann­sakað önnur svið innan heim­spek­inn­ar. „Þar var mikil áhersla lögð á að koma út úr nám­inu með breiða þekk­ingu og hug­myndin er sú að maður græði á því að sjá hvernig vanda­mál eru leyst á einu sviði heim­spek­innar sem og öðr­um.“

Hann hafði ímyndað sér að dvelja og starfa áfram í Banda­ríkj­unum en vegna fjöl­skyldu­að­stæðna ákváðu hann og konan hans að koma heims til Íslands en hún er lang­veik. „Þetta ströggl allt saman hafði verið erfitt og ég lagði ekki í það að kljást við banda­ríska heil­brigð­is­kerfið og sjúkra­trygg­ing­ar. Svo við komum heim um leið og við gátum en ég reyndi eins og ég gat að flýta mér að klára dokt­ors­rit­gerð­ina.“

Umgjörð vantar fyrir þá sem koma heim úr námi

Þegar Finnur kom til Íslands var lítið fyrir hann að gera. „Ég reyndi að sækja um ýmis­legt en ekk­ert gekk,“ segir hann. Hann telur að ein­hvers konar umgjörð vanti fyrir þá sem koma heim eftir nám og að mik­il­vægt sé að fólk hafi ein­hverjar leiðir til að bjarga sér. „Alls ekki neinn lúxus eða þvíum­líkt, heldur þannig að fólk geti verið áfram inn í aka­dem­í­unn­i,“ segir hann en hann sá mik­inn mun á aðstöðu úti í Banda­ríkj­unum fyrir nýút­skrifað fólk miðað við hér á landi. Þar eru ýmiss konar stöður fyrir fólk að sækja um og ganga í. 

„Svo er miklu auð­veld­ara að fá fyrstu vinn­una úti í Banda­ríkj­un­um. Á Íslandi fær fólk ekki akademíska vinnu fyrr en um fer­tugt og þá er það búið að vera í ströggli í að minnsta kosti tíu ár. Það er oft þannig.“ Þannig sé oft gert ráð fyrir því að fólk bíði í fimm til fimmtán ár í ein­hvers konar lim­bói. Svo sé atvinnu­á­standið orðið það slæmt að þá sé meira að segja eftir þennan tíma ekki víst að fólk fái starf eða stöðu við hæfi þrátt fyrir mennt­un. „Þetta er ómann­eskju­legt að vissu leyt­i,“ segir hann. 

Ég er það mikið nörd að ég fór ekki að ferðast um heiminn heldur fór ég að læra heimspeki í staðinn. Svo má segja að ég hafi fest í þessu, ég hafi í raun ekki farið úr heimspekinni.

Finnur byrj­aði að vinna utan aka­dem­í­unnar eftir heim­komu frá Banda­ríkj­unum og hóf störf á Alþingi en áður hafði hann unnið hjá þing­flokki Vinstri grænna. Þar starf­aði hann í um ár og segir hann að það hafi verið til að hafa í sig og á – hann hafi í raun neyðst til að fara aftur út úr aka­dem­í­unni. Hann hafi aftur á móti tekið þá ákvörðun eftir þetta ár að taka áhætt­una og reyna að finna stöðu innan háskóla­sam­fé­lags­ins en hægt og rólega fékk hann styrki sem hjálp­uðu honum að láta þá drauma ræt­ast. Hann fékk í fram­hald­inu nýdokt­ors­stöðu á Írlandi þar sem hann vann í eitt og hálft ár. Þrátt fyrir það bjó fjöl­skylda hans áfram á Íslandi og flakk­aði hann mikið milli land­anna tveggja á þessum tíma. Hann segir að þetta hafi verið erf­iður tími – og hafi hann verið með litlar tekjur þegar ferða­lögin hafi verið tekin með í reikn­ing­inn, sem og uppi­hald í tveimur lönd­um. 

„Eftir á að hyggja sé ég alls ekki eftir þessum tíma því ég græddi mjög mikið á þessu. Margt af því sem ég er að gera núna eru hlutir sem ég byrj­aði á í verk­efn­inu sem ég var í á Írlandi. Það var margt frá­bært við það þrátt fyrir að þetta hafi verið mikil áhætta,“ segir hann. Að lokum fékk Finnur vinnu í Lil­lehammer í Nor­egi en í milli­tíð­inni hafði hann sótt um á hinum ýmsu stöðum til að fá var­an­lega vinn­u.  

Þarna fékk Finnur loks­ins fasta stöðu en hann átti ein­stak­lega auð­velt með að aðlag­ast sam­fé­lag­inu í Nor­egi þar sem hann er hálfsænskur og mátti kenna þar á sænsku. Og þrátt fyrir að vera nú kom­inn með stöðu við Háskóla Íslands, en hann hefur nú starfað við HÍ í yfir eitt ár, þá kennir hann enn við Háskól­ann í Lil­lehammer í hluta­starf­i. 

Það má því með sanni segja að mikið hafi gengið á á þessum árum hjá Finni og fjöl­skyldu hans en sam­kvæmt honum hafa þau flutt á hálfs árs fresti að með­al­tali í gegnum árin. 

Finnur Dellsén
Bára Huld Beck

Hvernig getum við treyst vís­inda­kenn­ing­um?

Í námi og starfi hefur Finnur lagt áherslu á ýmis þekk­ing­ar­fræði­leg vanda­mál, til að mynda hvernig vís­inda­kenn­ingar eru rök­studdar og hvort við höfum ástæðu til að trúa þeim. Sem dæmi nefnir Finnur að eitt vanda­mál sem kemur upp, þegar hugsað er um vís­inda­kenn­ing­ar, sé að stundum getum við verið í þeirri aðstöðu að halda að kenn­ingin sé ágæt­lega rök­studd og passi við þær athug­anir sem hafa verið gerðar en aftur á móti höfum við ástæðu til að halda að ný kenn­ing geti komið fram í náinni fram­tíð sem muni breyta algjör­lega sýn okkar á það sem kenn­ingin fjallar um. 

„Það er erf­ið­ara að sjá fyrir hvenær það muni ger­ast og hvenær ekki eða hvort við séum að fá jákvæðar eða nei­kvæðar nið­ur­stöður úr ein­hverjum til­raun­um. Þar af leið­andi getur verið erfitt að vita hvort við eigum til dæmis að trúa á grund­vall­ar­kenn­ingar eins og afstæð­is­kenn­ingu Ein­steins, vegna þess að hún er mjög fræði­leg og önnur kenn­ing gæti verið sett fram sem væri allt öðru­vísi en almenna afstæð­is­kenn­ing­in. Hún gæti verið í jafn miklu sam­ræmi við öll gögn sem við höfum og munum fá. Þannig að spurn­ing vaknar hvort við eigum að trúa þessum vís­inda­kenn­ingum sem eru vel rök­studdar – eða virð­ast alla­vega vera það – en svo getur það allt í einu gerst að við finnum ein­hverja aðra leið til að hugsa um þessi fyr­ir­bæri sem eig­in­lega grefur undan þessu.“

Þær leiðir sem við höfum til að hugsa um hvort vís­inda­legar kenn­ingar séu vel rök­studdar hjálpi okkur ekki við að takast á við þetta vanda­mál. „Og vís­inda­legar aðferðir í heild sinni hjálpa okkur eig­in­lega heldur ekki að gera það. Þær geta hjálpað okkur að stað­festa kenn­ingu en þær hjálpa okkur ekki að vita hvort við höfum réttu kenn­ing­una til að byrja með.“

Notar tól og tæki úr stærð­fræð­inni

Til þess að takast á við þetta vanda­mál hefur Finnur notað lík­inda­fræði­legar aðferðir til þess að greina þau. „Ég nota til­tekin tæki úr stærð­fræð­inni og lík­inda­fræði til að takast á við spurn­ingar sem þessar og til að sýna fram á að ein­hver til­tekin rök séu rétt en ekki ein­ungis eitt­hvað sem manni finnst vera rétt,“ segir hann. 

Sem dæmi tekur Finnur að eitt að því sem ákvarðar hvort við eigum að halda að það muni koma fram önnur kenn­ing á ákveðnu sviði, sem væri í and­stöðu við þá kenn­ingu sem við höf­um, væri fjöldi vís­inda­manna á því sviði. „Vís­inda­mönnum hefur fjölgað mikið – mjög mikið – á tutt­ug­ustu öld­inni. Ef við horfum á það hversu margar til­raunir hafa verið gerðar í heild­ina á hverju ári þá sjáum við mikla aukn­ingu. Einnig eru vís­inda­kenn­ingar betur rök­studdar en þær hafa nokkurn tím­ann ver­ið. Þannig að þegar fólk fer að tala um að í for­tíð­inni hafi ýmiss konar vís­inda­kenn­ingar reynst vera rangar og dregur þá ályktun að það sama gildi um núver­andi vís­inda­kenn­ing­ar, þá gleym­ist þessi stað­reynd,“ segir hann enn frem­ur. 

Á vissum sviðum er eitthvað til í þessum pælingum en sú hugmynd að við höfum haft svo oft rangt fyrir okkur í vísindum að þar af leiðandi eigum við ekki að treysta þeim núna á ekki við rök að styðjast.

„Þegar farið er að skoða þetta lík­inda­fræði­lega þá stand­ast slík rök verr en maður gæti hald­ið. Það er samt ekki þannig að það sé ekk­ert til í þessu. Á vissum sviðum er eitt­hvað til í þessum pæl­ingum en sú hug­mynd að við höfum haft svo oft rangt fyrir okkur í vís­indum að þar af leið­andi eigum við ekki að treysta þeim núna á ekki við rök að styðj­ast.“

Kostur að fólk sé ósam­mála

Finnur bendir á að vís­inda­legar kenn­ingar séu mis­vel rök­studd­ar. „Þegar kemur að lofts­lags­breyt­ingum þá myndi ég orða þetta þannig að sú afstaða að lofts­lags­breyt­ingar af manna­völdum sé mjög vel rök­studd. Ein af ástæðum þess að ég tel hana vera vel rök­studda er að lang­flestir vís­inda­menn, eða um 97 pró­sent, hafa kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu. Það að ein­hverjir vís­inda­menn séu á annarri skoðun er ekki endi­lega ekki eitt­hvað sem við ættum að hafa miklar áhyggjur af.“

Ástæðan fyrir því að við ættum ekki að hafa áhyggjur af þeim sem eru í miklum minni­hluta, að sögn Finns, er sú að við ættum að búast við því, nán­ast sama hvert mál­efnið er, að ein­hverjir séu ósam­mála nið­ur­stöð­unni sem allir aðrir eru sam­mála um. Þannig sjái Finnur það þvert á móti sem ákveðið styrk­leika­merki á kenn­ingu að þeir séu til sem eru ósam­mála henn­i. 

„Ef 100 pró­sent lofts­lags­vís­inda­manna væru sam­mála um að breyt­ing­arnar séu af manna­völdum þá myndi ég hafa meiri áhyggjur en ég hef núna. Þá væri ástæða til að trúa því að eitt­hvað skrítið væri í gangi með þessa vís­inda­menn vegna þess að þessi vís­indi eru mjög flók­in. Það er mjög flókið að kom­ast að því hverjar orsakir lofts­lags­breyt­inga eru – það er ekki jafn ein­falt og stundum er látið í veðri vaka þar sem heim­ur­inn hefur hlýnað og á sama tíma hefur gróð­ur­húsa­loft­teg­undum verið hleypt út í and­rúms­loft­ið. Það er ekki svo ein­falt að hægt sé að draga þá ályktun að annað sé orsök fyrir hinu. Við vitum að það er ákveðin hugs­ana­villa að þegar tveir hlutir fara saman þá sé þar af leið­andi orsaka­sam­hengi þarna á milli. Það er ekki þannig.“

Þannig ætti að koma okkur veru­lega á óvart ef allt í einu 100 pró­sent vís­inda­manna væru sam­mála um þessi mál. „Ég myndi segja að 97 pró­sent sé nokkurn veg­inn það hlut­fall sem sem við ættum að búast við að segði að lofts­lags­breyt­ingar séu af manna­völdum ef lofts­lags­breyt­ingar væru af manna­völd­um.“

Þetta er eitthvað sem gerist oft með sérfræðinga, að fólk dregur fram þá sem hentar þeirra málstað. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu og tel ég að við ættum að breyta því hvernig við hlustum á sérfræðinga.

Finnur segir að mjög algengt sé að fólk noti þessi þrjú pró­sent sem eru ósam­mála heild­inni sem for­sendu fyrir eigin skoð­un­um. „Þetta er eitt­hvað sem ger­ist oft með sér­fræð­inga, að fólk dregur fram þá sem hentar þeirra mál­stað. Ég hef veru­legar áhyggjur af þessu og tel ég að við ættum að breyta því hvernig við hlustum á sér­fræð­inga,“ segir hann. Í stað þess að leita eftir skoð­unum ein­stakra sér­fræð­inga ættum við að spyrja okkar hvað sér­fræð­ing­arnir á til­teknu sviði eru flestir sam­mála um. Það sé miklu áreið­an­legri leið­ar­vísir að því hvað sé satt á við­kom­andi sviði.

„Í þessu til­felli eru 97 pró­sent lofts­lags­vís­inda­manna á því að lofts­lags­breyt­ingar séu af manna­völdum og ég held að við ættum ekki að hlusta sér­stak­lega á neinn af þeim sem mynda þessi þrjú pró­sent. Við ættum frekar að horfa á það að nán­ast allt annað lofts­lags­vís­inda­fólk er sam­mála um lofts­lags­breyt­ingar af manna­völd­um. Það er miklu meira upp­lýsandi í almennri og opin­berri umræðu um öll mál. Lofts­lags­breyt­ingar eru mjög gott dæmi um þetta,“ segir hann. 

Ótækt að vísa í ein­stakar rann­sóknir

Þetta á þó ekki ein­ungis við um risa mál á borð við lofts­lags­breyt­ingar heldur ýmiss konar rann­sóknir sem til að mynda rata í fjöl­miðla, að mati Finns. Hvað gerir súkkulaði fyrir lík­amann og hvað ekki? Hvaða áhrif hefur rauð­vín á lang­lífi? Í fjöl­miðlum má sjá hinar ýmsu rann­sóknir um hitt og þetta en þá er iðu­lega vísað í ein­stakar rann­sókn­ir. Finnur telur þetta vera ótækt. „Þarna er verið að taka ein­staka vís­inda­menn sem hafa gert eina rann­sókn sem virð­ist stað­festa ein­hverja kenn­ingu en það er vel vitað innan vís­ind­anna sjálfra að ein rann­sókn segir okkur oft mjög lít­ið. Það er aftur á móti ekk­ert að því að gera ein­staka rann­sóknir og birta nið­ur­stöð­urnar en að það að treysta ein­stökum rann­sóknum er sjaldan ekki góð leið til að mynda sér skoð­an­ir. Og vís­inda­menn gera það almennt séð ekki sjálfir,“ segir hann. 

Finnur bendir á að vís­inda­menn lesi þá rann­sókn sem þeir gera og fram­kvæmi síðan fleiri. Svona haldi þetta áfram nægi­lega lengi til þess að kom­ast í þá aðstöðu að geta haldið ein­hverju fram með nægi­legri vissu. Oft séu rann­sóknir sem ein­hver hefur hag að því í að birta settar fram í fjöl­miðlum með þessum hætti. „Það er svo mis­vísandi því við vitum að það er oft lík­legt að þessi ein­staka rann­sókn hafi verið gölluð eða nið­ur­staðan hrein­lega til­vilj­un. Lang­flestar rann­sóknir eru þannig að hægt er að fá nið­ur­stöðu sem er mis­vísandi. Það er ein­fald­lega eðli vís­inda og ger­ist reglu­lega. Þess vegna held ég að betra sé að ein­blína ekki á ein­staka rann­sóknir heldur eigum við að skoða hverjar sam­stöðu­skoð­anir sér­fræð­inga á hverju sviði séu orðnar að loknum fleiri rann­sókn­um.“

Hann segir að stundum sé þetta marg­slungið og erfitt að segja til um vegna þess að stundum sé ein­fald­lega ekki búið að taka saman hver skoðun meiri­hluta vís­inda­manna sé á ákveðnum sviðum á til­teknu efni. Finnur telur að ákveðin hreyf­ing í þessa átt sé farin að eiga sér stað, það er að skoða hvað meiri­hluti vís­inda­manna hefur um ein­hver ákveðin mál­efni að segja. „Þá erum við með vís­inda­sam­fé­lög sem taka saman hver afstaða vís­inda­manna á því sviði er. Ég held að það sé allt af hinu góða og þurfi að halda áfram í þá átt.“

Sér­fræð­ingar þurfa einnig að axla ábyrgð

Það getur verið gríð­ar­lega erfitt fyrir fólk að mynda sér skoðun á flóknum mál­efnum enda getur hver ein­stak­lingur ekki verið sér­fræð­ingur í öllu. Hver ein­stak­lingur þarf því að treysta því sem sér­fræð­ing­arnir segja en hverjum á þá að trúa og treysta?

Finnur segir að við þurfum sem sam­fé­lag að átta okkur á því að það sé ekki sér­stak­lega snið­ugt að treysta ein­stökum sér­fræð­ing­um. „Það getur verið verra en ekk­ert, því mið­ur, því við­kom­andi sér­fræð­ingur getur verið í and­stöðu við þá almennu afstöðu sem ríkir á við­kom­andi sviði. Hins vegar er hægt að kom­ast hjá þessum vanda með því að biðja sér­fræð­inga um að greina frá því hver sé almenn afstaða sér­fræð­inga á við­kom­andi sviði frekar en þeirra eigin afstöðu. Að sama skapi ber sér­fræð­ingum skylda til að upp­lýsa um meiri­hluta­skoð­anir á sínu sér­fræð­inga og þá mögu­lega greina frá því af hverju þeir séu sjálfir ósam­mála meiri­hluta­skoð­un­inn­i.“

Þannig verði sér­fræð­ingar að axla ábyrgð. Þeir þurfi að átta sig á þessu vanda­máli og tjá sig öðru­vísi þegar þeir eru spurðir álits. 

Ég hef mínar skoðanir sem ég tel að séu réttar en stundum þarf maður að stíga til baka og átta sig á því að það gæti verið að hluta til vegna þess að maður tekur eftir því sem styður manns eigin skoðanir og horfir framhjá hinu.
Finnur Dellsén
Bára Huld Beck

Höfum til­hneig­ingu til að halda að við séum klár­ari en við erum

Hvað almenn­ing varðar þá telur Finnur að við þurfum að hugsa öðru­vísi þegar sér­fræð­ingar tala. „Þegar sér­fræð­ingar sem koma fram í fjöl­miðlum eru ósam­mála hættir okkur stundum til að draga þá ályktun að það séu skoð­anir á báða bóga og að þá sé best að vera þarna ein­hvers staðar inn á milli. Gera ein­hverja mála­miðlun eða fresta því að taka afstöðu. Vand­inn er hins vegar sá að það er nán­ast alltaf hægt að finna sér­fræð­ing sem er á önd­verðum meiði við það sem aðrir sér­fræð­ingar eru lang­flestir sam­mála um. Þar af leið­andi ættum við maður ekki að draga miklar álykt­anir af því að til séu sér­fræð­ingar sem eru á önd­verðum meið­i.“

Hann segir að við höfum öll til­hneig­ingu til að halda að við séum aðeins klár­ari en við raun­veru­lega erum, og teljum að við getum metið hin og þessi rök til að kom­ast að nið­ur­stöð­u. 

„Ég tel að það sé oft einmitt ekki þannig og sér­stak­lega þegar mál­efnin eru orðin mjög flók­in. Þá verður maður að sýna ákveðna auð­mýkt. Oft stjórn­umst við af ýmiss konar sál­fræði­legum skekkj­um, til dæmis eigum við það öll til að taka betur eftir gögnum eða nið­ur­stöðum sem styðja okkar skoð­anir heldur en gögnum sem ganga gegn því sem við trúum nú þeg­ar. Um leið og maður man það, ef hægt er að rifja það reglu­lega upp með sjálfum sér, þá er kannski hægt að passa sig á því að vera ekki jafn kok­hraustur um ágæti eigin skoð­ana. Ég við­ur­kenni það fús­lega að þetta á við um mig líka. Ég hef mínar skoð­anir sem ég tel að séu réttar en stundum þarf maður að stíga til baka og átta sig á því að það gæti verið að hluta til vegna þess að maður tekur eftir því sem styður manns eigin skoð­anir og horfir fram­hjá hin­u.“

Hverjir eru raun­veru­legir sér­fræð­ing­ar?

Finnur telur enn fremur að fjöl­miðlar hafi ákveðnu hlut­verki að gegna í þessu öllu sam­an. „Þeir þyrftu kannski að hafa í huga hversu mis­vísandi það getur til dæmis verið að leita til sér­fræð­inga úr þessum þremur pró­sentum í lofts­lags­málum sem eru í minni­hluta um lofts­lags­breyt­ingar af manna­völd­um. Að draga fram þeirra afstöðu getur verið verra en ekk­ert þegar það gefur svona mis­vísandi mynd af stöðu þekk­ingar á þessu svið­i.“

Einnig er algengt að reynt sé að draga fram fólk sem nýtur virðingar af ólíkum ástæðum til að ljá málstaðnum rödd sína, sem er því miður öflugt áróðursbragð í mörgum tilvikum.

Jafn­framt segir hann að mik­il­vægt sé velta því fyrir sér hverjir séu raun­veru­legir sér­fræð­ingar á ólíkum svið­um. Til að mynda séu ekki allt raun­vís­inda­fólk með sér­fræði­þekk­ingu í lofts­lags­vís­ind­um, heldur séu fræð­ing­arnir fyrst og fremst þeir sem stundi rann­sóknir á svið­inu. „Ég hef tekið eftir því að í áróð­urs­mynd­böndum og greinum eftir afneit­un­ar­sinna er oft gefið í skyn að ýmsir aðrir en lofts­lags­vís­inda­fólk séu sér­fræð­ing­ar, til dæmis í krafti þess að vera menntað í raun­vís­ind­um. Einnig er algengt að reynt sé að draga fram fólk sem nýtur virð­ingar af ólíkum ástæðum til að ljá mál­staðnum rödd sína, sem er því miður öfl­ugt áróð­urs­bragð í mörgum til­vik­um,“ segir hann. 

Þannig sé ekki rétt hjá fjöl­miðlum að setja fram tvær hliðar eins og hlut­leysi sé þeirra á milli því alveg ljóst sé, til dæmis í til­felli er varðar lofts­lags­breyt­ingar af manna­völd­um, að svo sé ekki. „Frekar á að reyna að setja fram þau vís­indi sem eru rétt eða sem við höfum ástæðu til að halda að séu rétt,“ segir Finn­ur. Þá þurfi að aðgreina vel hverjir séu sér­fræð­ingar og hverjir ekki – og hverjir séu fengnir til að end­ur­spegla ein­hverja ákveðna skoðun í sam­fé­lag­in­u. 

Fólk velur sér upp­lýs­ingar sem stað­festir þeirra skoð­anir

Varð­andi þær nýju þekk­ing­ar­gátt­ir, ef svo mætti kalla, sem komið hafa með sam­fé­lags­miðlum á síð­ustu ára­tug­um, þá flæk­ist enn meira í hugum fólks hvað sé satt og rétt og hvað ekki. Hvernig hefur fólk mögu­leika á því að vita hvað sé satt þegar upp­lýs­ing­arnar koma úr hinum ýmsu áttum og þegar hver og ein­stak­lingur er í sinni „sam­fé­lags­miðla-kúlu“?

Finnur bendir í þessu sam­hengi á að hér áður fyrr hafi fólk leitað til sömu upp­lýs­inga­veitna í miklu meira mæli en núna. Þá hafi upp­lýs­ingar komið frá til að mynda Rík­is­út­varp­inu og Morg­un­blað­inu og nokkrum öðrum fjöl­miðlum en fyrir ekki svo löngu hafi orðið gíf­ur­leg fjölgun fjöl­miðla. Nú sé það að miklu leyti stjórn­mála­skoð­anir okkar sjálfra sem móti það hvaðan við fáum upp­lýs­ing­ar. 

„Þannig að það vantar þennan sam­eig­in­legu upp­lýs­inga­veitur og þá getum við ekki lengur tekið ákvarð­anir og myndað okkur skoð­anir út frá sömu gögn­un­um. Ein afleið­ingin þessa er pól­aris­er­ing þar sem ólíkir hópar fólks fær­ast sífellt fjær hver öðr­um. Fólk hefur þá mjög sterkar skoð­anir á ein­hverjum ákveðnum mál­efnum og hægt og rólega velur það sér þær upp­lýs­ingar sem stað­festa þeirra skoð­anir enn frek­ar. Það velur sér þar af leið­andi upp­lýs­inga­veitur og fjöl­miðla sem gera slíkt hið sama.“

Finnur segir að það sem er sér­stak­lega áhuga­vert og vand­með­farið í þessum mál­efnum sé að fæstir af þeim sem haga sinni upp­lýs­inga­leit með þessum hætti geri það með óábyrgum hætti. „Ef við teljum til dæmis að lofts­lags­breyt­ingar séu af manna­völdum þá hlustum við ekki á ein­hverja miðla sem halda öðru fram. Það eru bara eðli­leg við­brögð. Ég met áreið­an­leika heim­ilda minna eftir því hvað fjöl­mið­ill­inn segir um aðra hluti. Það sama ger­ist hinum megin hjá þeim sem til dæmis segja að lofts­lags­breyt­ingar séu ekki af manna­völd­um, og þar af leið­andi skilj­ast þessir heimar þá hægt og rólega að – án þess að nokkur sé sér­stak­lega að haga sér óábyrgt – og verða ein­hvern veg­inn algjör­lega sund­ur­læg­ir.“

Í verri aðstöðu til að verja okkur fyrir fjár­sterkum aðilum

Finnur segir rök­ræður á net­inu um bólu­setn­ingar gott dæmi um það hvernig falskar upp­lýs­ingar fari eins og eldur í sinu manna á milli. Þá sé oft ekki hlustað á sér­fræð­inga heldur sé skoð­unum um mál­efnið frekar deilt á sam­fé­lags­miðlum og margir taki mark á þeim. Með til­komu sam­fé­lags­miðla séum við enn fremur í sífellt verri aðstöðu til að verja okkur fyrir fjár­sterkum aðilum af ýmsu tagi sem vilja hafa áhrif á skoð­anir okk­ar. Nú sé þetta orð­inn iðn­aður til að stjórna því hvaða skoð­anir við höfum í gegnum sam­fé­lags­miðla.

En hverjum á þá að treysta? „Ég held að það séu engar algildar reglur hvernig við eigum að haga okkur í þessu. En þó er hægt að fara eftir nokkrum þum­al­putta­regl­um. Í fyrsta lagi eigum við að spyrja hvort grun­sam­lega mikil sam­staða sé um eitt­hvað meðal sér­fræð­inga á til­teknu sviði. 100 pró­sent sam­staða er ekki góðs viti, eins og ég sagði áðan, en mik­il­vægt er þó að meiri­hluta­sam­staða sé um nið­ur­stöð­ur. Til dæmis er ekki nægi­lega mikið að 50 pró­sent sam­staða sé um eitt­hvað mál­efni. Í öðru lagi er vert að spyrja sig hvort ein­hverjir hags­munir liggi að baki afstöðu sér­fræð­inga,“ bendir hann á. 

Hluti af gagnrýnni hugsun á að vera gagnrýnið traust. Hluti af trausti er að leyfa öðrum að hafa áhrif á sig, til dæmis í krafti þess að vera sérfræðingar.

Í þriðja lagi sé hægt að horfa til þess hvort sér­fræð­ing­arnir komi úr mis­mun­andi áttum eða komi úr mjög eins­leitum hóp. „Þarna er hægt að líta á bak­grunns­þekk­ingu og aðferða­fræð­ina sem þeir nota og annað slíkt. Þá getur maður reitt sig á að fjöl­breyttar aðferðir hafi verið not­aðar til að prófa kenn­ing­u.“ Þess vegna telur Finnur það mik­il­vægt að vís­inda­menn og fræði­menn séu með fjöl­breyttan bak­grunn, til dæmis með til­liti til kyns og stétt­ar. Það geri vís­indin meira trausts­ins verð.

Líkt og margir aðrir íslenskir heim­spek­ingar hefur Finnur skrifað um gagn­rýna hugsun og hlut­verk hennar en hann telur gagn­rýna hugsun að vissu leyti ofmetna. „Því miður getum við ekki myndað okkur upp­lýstar skoð­anir á öllu sjálf, því við höfum ein­fald­lega ekki for­sendur til þess. Í vissum skiln­ingi þurfum ekki að vera betri í því að hugsa gagn­rýn­ið, það er ekki stærsta vanda­málið núna. Stærsta vanda­málið er hvernig við ætlum að treysta gagn­rýn­ið, frekar en að hugsa gagn­rýn­ið. Eða rétt­ara sagt: Hluti af gagn­rýnni hugsun á að vera gagn­rýnið traust. Hluti af trausti er að leyfa öðrum að hafa áhrif á sig, til dæmis í krafti þess að vera sér­fræð­ing­ar. Þannig þurfum ekki endi­lega að mynda okkur upp­lýsta afstöðu sjálf, heldur getum við gert það í gegnum sér­fræð­ing­ana.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal