Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra finnst ekki hægt að dæma Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út frá einhverju sem eingöngu tengist ásýnd því það hafi í sjálfu sér verið vitað fyrirfram að ráðherrann hefði þessi tengsl við Samherja.
Þetta kom fram í viðtali í Silfrinu á RÚV í dag en þar var Katrín spurð hvort hún væri sátt við að Kristján Þór sæti áfram í ráðuneyti sjávarútvegsmála þar sem einstakar ákvarðanir – þegar kemur til að mynda að kvótamálum – snertu augljóslega beint og óbeint Samherja, stærsta fyrirtæki landsins á þessu sviði, og hvort það væri eðlilegt.
Katrín sagði jafnframt í þessu samhengi að ekkert hefði komið fram sem benti til þess að sjávarútvegsráðherra hefði haft vitneskju um þessa starfsemi Samherja. Varðandi traust og ásýnd stjórnmálanna í þessu tilfelli þá teldi hún að það þyrfti líka að horfa á staðreyndir máls og hvað væri sanngjarnt.
Óásættanlegt ef Samherji hefur brotið lög
Hún vék í máli sínu að því umhverfi sem fyrirtæki vinna í hér á landi. „Við verðum auðvitað að horfa í eigin barm hvað varðar hvernig kerfið okkar – og þá er ég að tala um umhverfi íslenskra fyrirtækja – er byggt upp þegar kemur að stjórnvöldum og því eftirliti sem þau hafa með því sem þessi fyrirtæki eru að gera.“
Hún sagði að það væri henni mikið kappsmál að það yrðu gerðar breytingar, til að mynda á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili hvað varðar sameign þjóðarinnar á auðlindum og hvernig Íslendingar umgangist þær. Einnig fyndist henni mikilvægt að auka upplýsingaskyldu og gagnsæi í íslenskum fyrirtækjarekstri.
„Við getum rætt pólitísku hliðina á þessu Samherjamáli en staðreyndir málsins eru þær að þarna er fyrirtæki sem virðist hafa brotið lög og það er óásættanlegt, hvort sem er hér heima eða erlendis,“ sagði Katrín.