„Húsið okkar og útihúsin eru brunnin og ég kemst ekki heim. Ég veit ekki hvort að hestarnir mínir lifa af,“ segir tannlæknir frá Mount Hotham í Viktoríufylki í Ástralíu á Facebook-síðu sinni. Hann er í hópi þeirra hundruða manna sem misst hafa heimili sín í gróðureldunum miklu síðustu daga og eru á vergangi. Margir hafa sofið í bílum sínum og hafa gripið til þess ráðs að auglýsa á samfélagsmiðlum eftir skjóli. Farrugia Sammut, 82 ára, segist ekki hafa orðið jafn hrædd frá því að sprengjum rigndi yfir heimabæ hennar á eyjunni Möltu í síðari heimsstyrjöldinni. „Við erum umkringd eldum,“ segir hún. „Ég sef ekki fyrir áhyggjum.“
Andrew Constance, samgönguráðherra Nýja Suður-Wales var ekki að skafa utan af því er hann varaði við frekari hörmungum: „Þetta er ekki kjarreldur,“ sagði hann. „Þetta er atómsprengja.“ Methitar og metþurrkar hafa breytt skógum Ástralíu í eldspýtustokk.
Enn eitt hitametið: 48,9°C
„Hræðileg“ helgi er að baki í þeim fylkjum sem verst hafa orðið úti, að sögn fylkisstjóra Nýja Suður-Wales. Enn eitt hitametið var slegið: 48,9°C mældist fyrir utan Sydney i gær. Reykur hefur borist alla leið til Suður-Ameríku, um 1.500 kílómetra leið. Tugir þúsunda hafa orðið að yfirgefa heimili sín síðustu daga og nokkur ringulreið hefur skapast.
Um 1.000 manns og yfir 100 hundar voru fluttir með herskipum frá strandbæjum og til Melbourne í gær. Herinn var kallaður til aðstoðar við rýmingar. Umfang þeirrar aðstoðar hefur ekki verið meira frá seinna stríði. Slökkviliðsstjórinn sem heldur utan um aðgerðir frétti af því í fjölmiðlum og var gramur forsætisráðherranum af þeim sökum.
Enn á eftir að meta eyðilegginguna en ljóst er að hundruð bygginga hafa orðið eldi að bráð á síðustu klukkustundum, þúsundir húsa hafa brunnið síðustu mánuði. Rigningarúði féll úr lofti í dag og gaf slökkviliðunum, sem að stærstum hluta eru byggð upp af sjálfboðaliðum, kærkomna hvíld um stund. Tekist hefur að hefta útbreiðslu margra elda af þessum sökum en þó logar enn á yfir 150 stöðum í Nýja Suður-Wales einu saman. Mestur er eldurinn suðvestur af bænum Eden á suðurströnd fylkisins. Þar hafa logar ætt yfir 140 þúsund hektara lands. Íbúar segja ástandið hryllilegt, að mikil hræðsla hafi gripið um sig og að „svartamyrkur“ hafi lagst yfir að degi til vegna reyks og ösku. Helst eru það stórhættulegar glæður er rignir úr lofti sem veitt hafa birtu. Íbúar Eden hafa lýst flóttanum undan eldunum sem ógnvekjandi. „Brak og aska“ hafi verið um allt í loftinu. Erfitt hafi reynst að sjá og anda. Hvíldin sem slökkviliðsmennirnir hafa nú fengið mun ekki vara lengi. Síðar í vikunni er enn á ný spáð miklum hita og hvassviðri.
Fleiri dauðsföll
Og enn bætist í fjölda látinna vegna eldanna. Í gær lést David Harrison, 47 ára, úr hjartaáfalli. Hann var að aðstoða vin sinn við að verja hús hans frá eldunum í Snowy Mountains. Þá slösuðust fjórir slökkviliðsmenn um helgina. Einn þeirra hlaut alvarleg brunasár á höndum.
Í Nýja Suður-Wales, fjölmennasta fylki Ástralíu, hafa að minnsta kosti 1.425 heimili eyðilagst í eldunum en slökkviliðsstjórinn Shane Fitzsimmons telur að um mikið vanmat sé að ræða. Líklegt sé að hundruð húsa hafi brunnið nú um helgina. „Það eru miklar skemmdir og eyðilegging,“ sagði hann í viðtali við Sydney Morning Herald í dag.
Bæir „þurrkast algerlega út“
Skógareldar eru nokkuð óútreiknanlegir. Erfitt, nær ómögulegt, er að slá því föstu hvernig þeir þróast þar sem margir þættir spila inn í. Einna verst er þegar risavaxin bál myndast, sem æða áfram og skapa nokkurs konar hvirfilbylji og þrumuveður sem þeyta öllu sem á vegi þeirra verður í loft upp. Því er erfitt og flókið að leggja mat á hvar skuli rýma, hvaða vegum skuli loka, og svo framvegis. Stöðugt þarf að uppfæra slíkar áætlanir.
Slökkviliðsstjórinn Fitzsimmons varar við sinnuleysi nú þegar regndropar hafa loks fallið úr lofti. „Það síðasta sem við höfum efni á er að verða sinnulaus. Sinnuleysi drepur,“ varaði hann við.
Myndband Morrisons vekur reiði
Óttinn er langt frá því að vera eina tilfinningin sem heltekið hefur fólk á hættusvæðum. Gríðarleg reiði er í garð stjórnvalda og þá helst forsætisráðherrans Scotts Morrison. Myndband sem hann birti á samfélagsmiðlum um helgina hefur verið harðlega gagnrýnt og sagt sýna sjálfumgleði hans og afneitun.
We’re putting more Defence Force boots on the ground, more planes in the sky, more ships to sea, and more trucks to roll in to support the bushfire fighting effort and recovery as part of our co-ordinated response to these terrible #bushfires pic.twitter.com/UiOeYB2jnv
— Scott Morrison (@ScottMorrisonMP) January 4, 2020
Í myndbandinu er farið yfir viðbrögð stjórnvalda við eldunum og dramatísk tónlist leikin undir. Hann hefur ekki svarað spurningum um hversu mikið eignatjón hafi orðið í eldunum en hann hefur sagt að aðgerðir sem stjórnarandstaðan hefur lagt til svo draga megi úr áhrifum loftslagsbreytinga séu of kostnaðarsamar. Kolavinnsla er mikill iðnaður í Ástralíu og útblástur gróðurhúsalofttegunda á hvern íbúa landsins er meðal þess mesta sem þekkist í heiminum. Um jólin var þegar orðið ljóst að losunin vegna eldanna þetta sumarið hefði náð um 2/3 árlegs útblásturs Ástralíu. Og sumarið er ný hafið.
Afrek þykir að slökkviliðsmönnum hafi tekist að verja raflínur frá Snowy-vatnsaflsvirkjuninni um helgina og koma þannig í veg fyrir stórkostlegt rafmagnsleysi. Margir eru þó án rafmagns í nokkrum bæjum og hafa jafnvel verið frá því á nýársdag.
Hjartnæmar kraftaverkasögur
Dýralíf Ástralíu er á margan hátt einstakt. Um 87% dýrategunda sem þar eru er hvergi annars staðar að finna á jörðinni. Áhrif eldanna á dýrin hafa verið hamfarakennd og talið er að um hálfur milljarður spendýra, fugla og skriðdýra hafi þegar farist.
Þær eru þó allnokkrar kraftaverkasögurnar sem ástralskir fjölmiðlar hafa greint frá síðustu daga. Þær fjalla bæði um menn og önnur dýr, og þær vinsælustu oft um hinn ástsæla kóalabjörn. Talið er að þúsundir þeirra hafi farist í eldunum en fregnir af frækilegum björgunum hafa einnig fyllt mörg augun tárum.
Ein slík frétt fjallar um Damian Campbell-Davys, bílstjóra á vatnsflutningabíl, sem tók upp í ungan björn sem hann sá birtast milli furutrjáa skammt frá bænum Nerriga í Nýja Suður-Wales. Campbell-Davys gaf sér góðan tíma til að svala þorsta litla bjarnarins.
After the horrors of yesterday if this doesn’t put a smile on your face somethings wrong
Posted by Damian Campbell-davys on Sunday, January 5, 2020
„Eftir hrylling gærdagsins þá var þetta kærkomið,“ sagði hann í samtali við fjölmiðla. „Þetta var smá sólargeisli inn í þessa martröð.“