Jón Þór Sturluson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, er einn þeirra átta starfsmanna sem tilkynnt var um að myndu missa starf sitt við skipulagsbreytingar Seðlabanka Íslands, sem kynntar voru í gær. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið voru sameinuð í eina stofnun um síðustu áramót og eru skipulagsbreytingarnar liður í þeirri sameiningu.
Í stöðuuppfærslu sem Jón Þór birti á Facebook í dag segist hann hafa, ásamt fleirum, unnið samviskusamlega að því síðustu 15 mánuði að tryggja að sameining Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans yrði sem farsælust. Ýmsir kraftar valdi því þó að öðrum en honum verði falið að sigla því verkefni í höfn. Jón Þór tilgreinir ekki um hvaða krafta sé að ræða. en ljóst sé að mikið verk sé óunnið til að tryggja skilvirkan og sterkan sameinaðan Seðlabanka.
Átta störf lögð niður
Nýtt skipurit Seðlabanka Íslands tók gildi í gær á grundvelli nýrra laga um Seðlabanka Íslands vegna sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins í upphafi þessa árs. Frá þessu er greint á vef Seðlabankans.
Samkvæmt skipuritinu verða kjarnasvið bankans sjö, það er hagfræði og peningastefna, markaðsviðskipti, fjármálastöðugleiki, bankar, lífeyrir og vátryggingar, markaðir og viðskiptahættir, og lagalegt eftirlit og vettvangsathuganir.
Stoðsvið bankans verða fjögur, það er rekstur, upplýsingatækni og gagnasöfnun, fjárhagur, og mannauður. Jafnframt er í skipuritinu miðlæg skrifstofa bankastjóra. Með nýju skipuriti verða nokkur svið lögð niður eða sameinuð, starfsfólk færist til og átta störf verða lögð niður, samkvæmt Seðlabankanum.
Hægt er að sjá nýtt skipurit hér að neðan: