Dennis A. Muilenburg, sem var rekinn úr forstjórastóli flugvélaframleiðandans Boeing í desember síðastliðnum, mun fá 62,2 milljónir dali, tæplega 7,7 milljarða króna, í formi hlutabréfa og lífeyrisréttinda að skilnaði.
Fyrirtækið greindi frá þessu í gær. Samkvæmt frásögn The New York Times mun Muilenburg hins vegar ekki fá neinar viðbótar starfslokagreiðslur vegna brottreksturs síns og Boeing segir að hann hafi gefið eftir viðbótar hlutabréfahlunnindi sem metin séu á 14,6 milljónir dali, um 1,8 milljarð króna.
Háar greiðslur Boeing til Muilenburg hafa verið harðlega gagnrýndar af stjórnmálamönnum í Bandaríkjunum. Öldungardeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren, sem sækist eftir því að verða forsetaefni demókrata í forsetakosningunum síðar á þessu ári, kallaði greiðslurnar til Muilenburg hreina og klára spillingu í stöðuuppfærslu á Facebook.
346 people died. And yet, Dennis Muilenburg pressured regulators and put profits ahead of the safety of passengers,...
Posted by Elizabeth Warren on Friday, January 10, 2020
Greint var frá því á Þorláksmessu að Muilenburg, sem hafði starfað hjá Boeing í 35 ár, hefði verið rekinn úr starfi. Ástæðan var fyrst og síðast ábyrgðin sem forstjórinn ber á vandræðagangi Boeing og alvarlegum hönnunargöllum í framleiðslu hjá félaginu, meðal annars á 737 Max vélunum, en talið er að gallar í búnaði vélanna hafi verið orsökin fyrir því að tvær slíkar vélar toguðust til jarðar, í Indónesíu og Eþíópíu, með þeim afleiðingum að 346 létust, allir um borð.
Ennþá er verið að rannsaka seinna slysið í Eþíópíu, en samkvæmt frumniðurstöðum er talið að orsökin hafi verið sú sama og í slysinu í Indónesíu.
Bandaríkjaþing hefur framferði Boeing til rannsóknar, og það sama á við um alríkislögregluna FBI.
Boeing er stærsta útflutningsfyrirtæki Bandaríkjanna, og stærsti flugvélaframleiðandi heims. Þá er félagið einn stærsti hergagnaframleiðandi heimsins, og framleiðir auk þess vélarparta fyrir flug- og geimiðnað.
Alþjóðleg kyrrsetning á 737 Max vélunum, sem staðið hefur yfir frá því í mars á síðasta ári, hefur haft miklar afleiðingar fyrir Boeing, viðskiptavini þess og jafnvel heilu þjóðríkin, eins og í tilfelli Íslands. Icelandair hefur lent í miklum hremmingum vegna kyrrsetningarinnar á Max vélunum, en ekki liggur fyrir hvenær henni verður aflétt. Gert er ráð fyrir að það verði ekki fyrr en á vormánuðum næsta árs, en óvissa ríkir þó um það.
David Calhoun, sem tók við forstjórastarfinu hjá Boeing, mun fá bónusgreiðslu upp á sjö milljónir dali, um 860 milljónir króna, ef honum tekst að koma 737 Max vélunum aftur í loftið.