Loftvarnarskeyti Íran skaut niður farþegaþotu með þeim afleiðingum að 176 létust.
Stjórnvöld í Íran hafa viðurkennt að loftvarnarkerfi landsins hafi skotið niður farþegaþotu Ukraine International með þeim afleiðingum að 176 létu lífið, allir um borð. Þetta er sagt hafa verið óviljaverk.
Loftvarnarkerfið var virkt í gangi, skömmu eftir að Íran hafði gert flugskeytaárás á tvo flugvelli í Írak, þar sem bandarískir hermenn héldu sig.
Árásirnar voru hefndaraðgerð fyrir drónaárás á Qasamn Soleimani, æðsta mann Íranshers, og lést hann í árásinni.
New York Times greindi frá því í gær, að Bandaríkjaher hefði einnig gert árás á annan háttsettann mann innan íranska hersins á sama tíma, en sú árás var gerð í Jemen. Sú árás misheppnaðist.
Dregið hefur úr spennunni milli Írans og Bandaríkjanna undanfarna daga, en hún er þó enn mikil og óvissa fyrir hendi um hvort átök brjótist. Þannig hafa stjórnvöld í Íran lofað því að hefna enn frekar fyrir morðið á Soleimani.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði á blaðamannafundi í gær, að hann teldi allar líkur á því að her Írans hefði skotið þotuna niður, og hafa stjórnvöld nú staðfest það. Yfir 60 Kanadabúar féllu þegar flugvélin fórst, en 138 farþegar vélarinnar voru á leið til Toronto með tengiflugi.