Íslenska landsliðið í handbolta valtaði yfir Rússa í dag, og endaði leikurinn 34-23 fyrir Ísland. Í viðtali við RÚV eftir leik, sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari að liðið gæti leyft sér að brosa eftir þennan frábæra leik, en undirbúningur fyrir næsta leik - sem er gegn Ungverjum á miðvikudag - hefst þó strax.
Íslenska liðið hefur verið einkar samstillt í fyrstu tveimur leikjunum. Fyrst voru Danir lagðir af velli, og síðan Rússar í dag.
Aron Pálmarsson, hefur verið frábær í leik Íslands, en hann sagði í viðtali við RÚV eftir leikinn, að hugarfar liðsins hefði verið til fyrirmyndar.
Var hátt uppi og þurfti að koma ýmsu frá mér í skýrslu kvöldsins.
— Henry Birgir (@henrybirgir) January 13, 2020
https://t.co/qBnGBGIhz2
Í leikskýrslu Henrys Birgis Gunnarssonar, íþróttafréttamanns Sýnar, segir að leikur Íslands hefði verið það góður að hugurinn hefði reikað til Peking 2008, þegar Ísland fékk silfur á Ólympíuleikunum.
„Varnarleikurinn var algjört auknakonfekt. Menn með áhuga á varnarleik fengu fyrir allan peninginn. Landsliðsþjálfarinn fékk gæsahúð og hugur minn reikaði til Peking 2008. Grimmdin, einbeitingin, aginn, vinnslan, fótavinnan og hjálparvörnin. Þetta jaðraði við að vera erótískt á köflum. Stórkostlegt á að horfa. Þar fyrir aftan var Björgvin Páll eins og við þekkjum hann best,“ sagði Henry Birgir.
Danir verða að vinna Rússa og treysta á að Íslendingar vinni Ungverjaland til að fara áfram í milliriðla. Danir og Ungverjar gerðu 24-24 jafntefli í dag.