Samkeppniseftirlitið telur brýnt að stuðningur við fjölmiðla af almannafé hafi það að meginmarkmiði að styðja við fjölræði og fjölbreytni. „Í þessu sambandi hefur Samkeppniseftirlitið í huga að eignarhald stærri einkarekinna fjölmiðla hefur í vaxandi mæli þróast á þann veg að eignarhaldið hefur færst á hendur fjársterkra aðila sem standa fyrir tiltekna skilgreinda hagsmuni í íslensku atvinnulífi. Í sumum tilvikum blasir við að ráðstöfun þessara aðila á fjármunum í fjölmiðlarekstur hefur það meginmarkmið að Ijá hagsmunum viðkomandi aðila enn sterkari rödd og vinna þeim þannig frekari framgang.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarp um stuðning við öflun og miðlun frétta. Frestur til að skila inn umsögnum um frumvarpið, sem hefur það meginmarkmið að veita um 400 milljónum króna úr opinberum sjóðum til einkarekinna fjölmiðla, rann út síðastliðinn föstudag.
Í umsögn þess segir enn fremur að við ofangreindar aðstæður, þar sem fjársterkir aðilar sem standi fyrir tiltekna skilgreinda hagsmuni í íslensku atvinnulífi nýti fjölmiðla í sinni eigu til að vinna hagsmunum sínum framgang, sé mikilvægt að stjórnvöld hagi stuðningi sínum við fjölmiðla þannig að þeir aðilar eða hagsmunaöfl sem hafa úr minni fjármunum að moða geti einnig komið sínum málstað á framfæri. „Ættu stjórnvöld að þróa almenn viðmið um stuðning með þetta í huga, án þess að afstaða sé tekin til viðkomandi lögmætra hagsmuna eða þeim mismunað.“
Lægri endurgreiðslur vinni gegn smærri miðlum
Samkeppniseftirlitið telur að öll skilyrði fyrir stuðningi sem miði að, eða hafi þau áhrif, að opinber stuðningur verður fyrst og fremst stærri og öflugri fjölmiðlum til gagns, á kostnað smærri fjölmiðla, séu óheppileg út frá þessum sjónarhóli. „Slík skilyrði fá raunar illa samræmst markmiðum um fjölræði og fjölbreytni yfirhöfuð. Að þessu leyti tekur Samkeppniseftirlitið undir athugasemdir ýmissa smærri fjölmiðla, sem fram hafa komið, sem benda á að breytingar á frumvarpinu, frá fyrri útgáfu, sem horfa til strangari skilyrða fyrir stuðningi (og lægra endurgreiðsluhlutfalls), vinni gegn smærri fjölmiðlum og þar með fjölbreytni og fjölræði.“
Í umsögninni segir enn fremur að hugmyndir sem fram hafi komið sem fela í sér að almenningur geti með einhverjum hætti haft áhrif á hvert stuðningur rennur séu allra gjalda verðar. „Sé það vilji löggjafans að almenningur styrki fjölmiðla, í þessu samhengi með greiddum sköttum, er hægt að færa rök fyrir því að almenningur væri best til þess fallin að útdeilda þeim fjármunum. Ein leið í því samhengi væri að gera skattskyldum aðilum kleyft að velja hvert styrkur hvers skattgreiðanda rynni samhliða skilum á skattskýrslu.“
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fyrir stuðningsgreiðslum eins og frumvarpið er í dag.