Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, telur það vera óviðeigandi fyrir svokallaða „lobbíista“ – eða fulltrúa hagsmunahópa – að halda lokaða fundi fyrir þingmenn. Þetta segir hann í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
„Ég mætti á fund í gær á Skólabrú þar sem rekstraraðilar ferðaþjónustu á hálendinu buðu þingmönnum á fund til þess að fjalla um stofnun hálendisþjóðgarðs. Í boði voru einhverjar fínar snittur og samtal við einhverja 20 rekstraraðila,“ skrifar hann.
Hann greinir frá því að fyrst hafi hann spurt hvort fólk áttaði sig á því hversu óviðeigandi lokaður fundur sem þessi væri. Þarna væri verið að fjalla um mál sem ættu að vera í formi opinberra umsagna frá þessum aðilum sem hægt væri að ræða í opinberri samfélagsumræðu. „Það er vægt til orða tekið að fólk tók ekki vel í þá spurningu og einn þingmaður meira að segja afsakaði fyrir framkomu mína. Það var mjög augljóst að nákvæmlega enginn þarna inni skildi hvernig samskipti kjörinna fulltrúa og lobbíista eiga að vera,“ skrifar hann.
Hefur áhrif að þiggja „smá“ gjafir
Björn Leví áréttar þó að það sé í góðu lagi fyrir fólk að hittast en það eigi að greina frá slíku. Fundir sem þessir hafi áhrif á aðkomu kjörinna fulltrúa að málefnum. „Nú hafa lobbíistar hitt mig á lokuðum fundi og sagt mér eitthvað sem enginn annar getur skoðað.“
Þetta þýði að allur hans málflutningur í því máli verði að skoðast í því ljósi. Það eigi ekki að gera lítið úr svona vinnubrögðum, það hafi almennt séð áhrif á fólk að þiggja veitingar eða aðrar „smá“ gjafir. Það búi til velvild og hafi áhrif, almennt séð.
„Ég þáði engar veitingar á þessum atburði nema vatn og leið satt best að segja illa á þessum fundi vegna þessara mála. Ég var að gera mig vanhæfari til þess að fjalla um málefni hálendisþjóðgarðs með því að vera á þessum fundi í ásýnd einhvers hluta samfélagsins,“ skrifar Björn Leví.
Skipir máli að fólk viti hver eigi þingmanninn sem það kýs
Þingmaðurinn segist hafa hvatt rekstraraðilana til þess að senda allt sem þau höfðu að segja sem umsögn í samráðsgátt stjórnvalda og til þingsins þegar málið kemur þangað. „Ég bað þau um að skafa ekkert utan af hlutunum og tala ekki undir rós því þau höfðu vissulega ýmsar ábendingar sem er ekkert óeðlilegt að stjórnvöld svari varðandi þetta mál. Hvað nákvæmlega það er, þá einbeitti ég mér að því að muna það ekki því þær spurningar eiga að koma í opinberri umsögn.“
Hann endurtekur að ekkert sé „að“ því að þingmenn hitti og tali við fólk. Það geti hins vegar varðað samskipti við lobbíista sem eigi að vera skráð og upplýst því – eins og hafi komið fram á fundinum – ferðaþjónustan hafi aldrei „átt“ þingmann. Að hans mati skiptir það máli að fólk viti hver eigi þingmanninn sem það er að kjósa.
Að lokum bendir hann á að verið sé að vinna frumvarp um lobbíista og að hann hlakki gríðarlega til þess að þingið fái það til umfjöllunar.
Lobbíistatilkynning. Ég mætti á fund í gær á Skólabrú þar sem rekstraraðilar ferðaþjónustu á hálendinu buðu þingmönnum...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Wednesday, January 15, 2020