Seðlabanki Íslands átti alls gjaldeyrisviðskipti tólf daga á árinu 2019. Í janúar í fyrra seldi Seðlabankinn gjaldeyri fjóra viðskiptadaga í röð í því skyni að vega á móti snarpri lækkun gengis krónunnar. Í mars, maí og júní seldi bankinn gjaldeyri bæði vegna útflæðis aflandskróna og til að koma í veg fyrir óhóflegt skammtímaflökt af öðrum ástæðum.
Á fyrri helmingi síðasta árs keypti Seðlabankinn gjaldeyri fyrir samtals fyrir 11,9 milljarða króna en á þeim síðar fyrir 2,4 milljarða króna. Gjaldeyriskaupin áttu sér stað tvo viðskiptadaga í júlí og september.
Þetta kemur fram i fréttatilkynningu sem bankinn hefur birt um gjaldeyrismarkað, gengisþróun og gjaldeyrisforða á árinu 2019.
Gjaldeyrisvaraforðinn orðinn 822 milljarðar
Í fréttatilkynningunni kemur fram að gengi krónunnar hafi lækkað um alls 3,1 prósent í fyrra. Flökt á henni hafi verið minna en á árinu 2018 en munur á hæsta og lægsta gildi krónunnar var 7,2 prósent.
Heildarvelta á gjaldeyrismarkaði var svipuð og á árinu 2018, eða 188,3 milljarðar króna. Hlutdeild Seðlabankans í veltunni var 7,6 prósent sem var öllu meira en árið 2018, en talsvert minna en á árinu 2017.
Afnám bindiskyldu skilaði ekki meiri fjárfestingu
Í fréttatilkynningunni segir að á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019 hafi gengi krónu lækkað um 4,3 prósent. Það hafi meðal annars mátt rekja til þess að óvissa hafði ríkt um afdrif f WOW air, sem fór lokst í þrot í lok marsmánaðar. „Lækkunin var lítil í samanburði við haustmánuði árið á undan og virðist sem áhrif gjaldþrots félagsins hafi þegar verið verðlögð að einhverju leyti inn í gengi krónunnar.“
Í byrjun mars gekk í gildi breyting á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og breytingar voru gerðar á reglum um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris. Vonast var til að sú breyting, sem kvað á um að lækkun bindingarhlutfalls á nýtt fjármagnsinnstreymi í skuldabréf og hávaxtainnstæður var lækkuð úr 20 prósent í 0 prósent, myndi örva erlenda fjárfestingu til landsins. Af því hefur ekki orðið af neinu marki.
Hreint innflæði nýfjárfestinga erlendis frá nam þvert á móti 32 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, sem er þremur milljörðum krónum minna en á sama tímabili 2018.