Mynd: Bára Huld Beck

Nýtt Ísland og nýjar leikreglur

Nýjar valdablokkir eru byrjaðar að teiknast upp í atvinnulífinu, og þar eru kunnuglegar persónur og leikendur í aðalhlutverkum. Afnám fjármagnshafta er nú að teiknast upp eins og strik í sandinn, fyrir þróun mála í hagkerfinu. Vaxandi þrýstingur er á afnám regluverks. Kunnuglegt, segja sumir.

Hin mikla upp­sveifla á árunum 2012 og fram til árs­ins 2018 - þegar henni lauk með nokkrum hvelli þegar WOW air fór í gjald­þrot - var um margt merki­leg. Hún var að grunni til sköpuð með fjár­magns­höft­um. Gjald­eyrir flæddi inn í land­ið, ekki síst frá erlendum ferða­mönn­um, en lítið sem ekk­ert úr land­inu á sama tíma vegna hafta. 

Gengi krón­unnar styrkt­ist gagn­vart helstu erlendu við­skipta­mynt­um, eigna­verð hækk­aði mikið - hluta­bréf og fast­eignir þar á meðal - og nær for­dæma­laust hag­vaxt­ar­skeið varð að veru­leika. Vorið 2017 mæld­ist árleg hækkun fast­eigna­verðs 23,5 pró­sent, en í Banda­ríkja­dal mælt var hækk­unin 40 pró­sent. Þetta var þá mesta hækkun fast­eigna­verðs í heim­in­um.

Kúvend­ingin mikla

Á hápunkti þessa tíma­bils styrkt­ist staða hins opin­bera veru­lega, með stöð­ug­leika­fram­lögum slita­búa hinna föllnu banka. Skulda­staða rík­is­ins kúvent­ist, um 500 millj­arða króna, og við­skipta­jöfn­uður lands­ins varð við­var­andi jákvæð­ur. Það er staða sem Ísland hefur ekki átt að venj­ast und­an­farna ára­tugi. Hluti af þessu var að íslenska ríkið eign­að­ist eitt stykki banka í við­bót, Íslands­banka, sem þýddi að um 80 pró­sent af íslenska banka­kerf­inu var nú komið í rík­i­s­eigu.

Þessi staða mynd­aði það sem Ásgeir Jóns­son, seðla­banka­stjóri, tal­aði um sem Nýja Ísland, á hádeg­is­fundi í Kviku banka 29. októ­ber. Þar er við­var­andi afgangur af við­skiptum við útlönd og landið í reynd orðið að fjár­magns­út­flytj­anda. 

Gjald­eyr­is­forði Seðla­banka Íslands nemur um 800 millj­örð­um, og hann má nota til að halda stöð­ug­leika á gjald­eyr­is­mark­aði. Ásgeir hefur sjálfur talað um að Seðla­bank­inn eigi ekki að stjórna verð­inu á krón­unni gagn­vart erlendum mynt­um, heldur eigi það að mynd­ast á mark­aði og stjórn­ast af und­ir­liggj­andi þátt­um. Stór gjald­eyr­is­forði hjálpar til við að milda skamm­tíma­sveifl­ur, sem oft hafa verið ýktar í íslenskri hag­sögu eins og almenn­ingur á Íslandi þekkir vel. Hann er auk þess mik­il­vægur til að skapa traust og trú á fjár­mála­kerf­inu og efna­hags­um­hverf­inu í heild. 

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, hefur haft það sem skýra stefnu - eins og Bene­dikt Jóhann­es­son, for­veri hans, að greiða niður skuldir hins opin­bera, helst hratt og örugg­lega. Skuldir hins opin­bera eru komnar niður í 30 pró­sent af lands­fram­leiðslu en hæst fóru þær upp undir 70 pró­sent af lands­fram­leiðslu skömmu eftir hrun­ið. Þá kúvent­ist staðan upp á við, en fyrir hrun var rík­is­sjóður næstum skuld­laus og heild­ar­skuldir hins opin­bera, það er ríkis og sveit­ar­fé­laga, voru á milli 10 og 15 pró­sent af lands­fram­leiðslu. Áætlun í fjár­málum rík­is­ins gerir ráð fyrir að rík­is­sjóður geti verið næstum búinn að ná þeirri stöðu eftir 3 til 4 ár. Þetta þótti fjar­stæðu­kennt fyrir tíu árum, að gæti orðið veru­leik­inn, og sýnir hversu miklar breyt­ingar hafa orðið á stöðu mála til hins betra á síð­ustu árum.

Fjár­lögin fyrir næsta ár gefa þó til kynna að hið opin­bera ætlar sér að styðja við við­spyrnu í efna­hags­líf­inu með opin­berum fram­kvæmd­um. Þar vegur þungt umfangs­mikil upp­bygg­ing sam­göngu­mann­virkja.

Atvinnu­leysi stígur en staðan mis­jöfn

Hið Nýja Ísland er þó ekki án áfalla. Það mikla högg sem fylgdi falli WOW air og þreng­ingum í ferða­þjón­ustu hefur haft mikil áhrif víða. Til dæmis hefur atvinnu­leysi auk­ist umtals­vert á Reykja­nesi, og þá einkum í Reykja­nes­bæ. Þar hefur átt sér stað mikil upp­bygg­ing á und­an­förnum árum, sam­hliða vext­inum í ferða­þjón­ustu, og því var sam­fé­lagið þar sér­stak­lega næmt fyrir miklum breyt­ingum í ferða­þjón­ust­unn­i. 

Atvinnu­leysi er nú mun meira á Reykja­nesi heldur en á land­inu öllu, og er það sam­bæri­leg staða og mynd­að­ist eftir hrun fjár­mála­kerf­is­ins. Atvinnu­leysi mælist tæp­lega 6,5 pró­sent en á land­inu öllu hefur það mælst 3,5 pró­sent und­an­farin miss­eri. Í Reykja­vík er það 3,94 pró­sent og hefur farið hækk­andi, sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem Vinnu­mála­stofnun tekur sam­an. Í nágranna­sveit­ar­fé­lögum Reykja­víkur á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, er atvinnu­leysið heldur minna eða á bil­inu 2,5 til 3,2 pró­sent. 

Allt á fullu í Skaga­firði

Mörg svæði á land­inu hafa ekki upp­lifað mik­inn sam­drátt, og má nefna svæði eins og Skaga­fjörð, en þar er atvinnu­leysi nær ekk­ert, eða 0,54 pró­sent. Þrátt fyrir að mikil breyt­ing hafi átt sér stað - með falli úr 4,6 pró­sent hag­vexti í fyrra í lík­legan lít­ils háttar sam­drátt á þessu ári, þá hefur samt ekki enn sést glitta í mikla erf­ið­leika. Hag­ræð­ing er víða hafin og helst áhyggju­efni þeirra sem Kjarn­inn hefur rætt við, er lít­ill vilji fyr­ir­tækja til fjár­fest­inga.

Banka­menn segja þetta meðal ann­ars tengj­ast því að banka­kerfið hafi ekki náð að miðla betri vaxta­kjörum nægi­lega vel til heim­ila og fyr­ir­tækja, og það sé ekki síst vegna hárra skatta á banka. En við­mæl­endur Kjarn­ans í atvinnu­líf­inu og hjá stétt­ar­fé­lögum nefndu einnig að fyr­ir­tæki væru mörg hver að halda að sér hönd­um, og bíða og sjá hvernig þessi vetur mun teikn­ast fram. Veit­inga­geir­inn er t.d. að upp­lifa mikla erf­ið­leika víða, með lok­unum á veit­inga­stöðum og hag­ræð­ingu innan grein­ar­inn­ar, sem er nátengt sam­drætti í ferða­þjón­ust­u. 

En horf­urnar í ferða­þjón­ust­unni fyrir næsta ár þykja ekki svo slæmar - þrátt fyrir allt. Icelandair hefur glímt við for­dæma­lausa erf­ið­leika vegna kyrr­setn­ingar á 737 Max vél­un­um, eins og ítar­lega hefur verið fjallað um í frétta­skýr­ingum Kjarn­ans yfir langan tíma. Síð­asta upp­gjör félags­ins má túlka sem varn­ar­sig­ur. Ekki aðeins fyrir Icelandair heldur fyrir ferða­þjón­ust­una. Félagið til­kynnti um að annað sam­komu­lag við Boeing væri í höfn um bætur vegna kyrr­setn­ing­ar­inn­ar, sam­hliða því að til­kynna um 7,5 millj­arða hagnað á þriðja árs­fjórð­ungi eftir 11 millj­arða tapa á fjórð­ung­unum tveimur þar á und­an. Ekki eru þó öll kurl komin til grafar enn, þar sem óljóst er enn hvenær Max vél­arnar fá að fljúga aft­ur. 

Í umfjöllun Seattle Times, sem fjallað hefur ítar­lega um vanda Boeing, hefur komið fram að áætl­anir miði við að vél­arnar fái að fljúga í byrjun næsta árs. 



Margt þarf þó að ganga upp, ef svo á að verða. Opin­berar yfir­heyrslur í Banda­ríkja­ríkja­þingi, sem fóru fram í síð­ustu viku, komu skelfi­lega út fyrir Boeing en þing­menn bæði Repúblik­ana og Demókrata gagn­rýndu stjórn­endur félags­ins harð­lega fyrir að slá af kröfum um eft­ir­lit við fram­leiðslu­ferli, og spurðu ítar­lega út í hönn­un­ar­galla í vél­un­um, og hvernig hefði staðið á því að ekki hefði verið brugð­ist við áhyggjum starfs­manna Boeing þegar þeim var komið áleiðis til stjórn­enda.

Kyrrsetning Boeing 737 Max vélanna er mikið hagsmunamál fyrir Ísland.
Mynd: Icelandair.

Eins og kunn­ugt er var kyrr­setn­ingin sett á eftir tvö flug­slys þar sem 346 lét­ust í Indónesíu og Eþíóp­íu, 29. októ­ber í fyrra og 13. mars á þessu ári. Sam­kvæmt nið­ur­stöðu rann­sókn­ar­nefndar í Indónesíu var það galli í MCAS kerfi Max vél­anna, sem á að sporna gegn ofrisi, sem var orsökin fyrir slys­inu í Indónesíu. Allt bendir til þess að það sama hafi verið uppi á ten­ingnum í Eþíópíu en form­leg nið­ur­staða þar­lendra yfir­valda liggur ekki fyr­ir. Eitt af því sem var spurt um í yfir­heyrsl­unum í Banda­ríkja­þingi var hvernig stjórn­endur gætu sett fram áætl­anir um að koma vél­unum í loft­ið, ef nið­ur­stöður í rann­sóknum sem væru í gangi - sem eru þónokkrar, þar á meðal á vegum alrík­is­lög­regl­unnar FBI - væru ekki fyr­ir­liggj­andi. Þarf ekki að bíða eftir því að það liggi fyrir hvað gerð­ist? Þetta var eitt af því sem Dennis Mui­len­burg, for­stjóri, átti erfitt með að svara. 

Fyrir Ísland er þetta mikið hags­muna­mál, enda myndi aflétt­ing kyrr­setn­ingar - og upp­færsla á örygg­is­þáttum í Max vél­un­um, sem myndi tryggja öryggi þeirra - vera mik­ill léttir fyrir Icelandair og íslenska ferða­þjón­ustu. Bogi Nils Boga­son for­stjóri hefur sagt að starfs­fólk Icelandair hafi unnið afar vel úr erf­iðri stöðu, við að halda leiða­kerfi félags­ins gang­andi og þjón­ustu ásætt­an­legri í erf­iðum aðstæð­um. Hann hefur einnig sagt að Icelandair sé með alla mögu­leika til skoð­un­ar, til að styrkja flota félags­ins, eftir kyrr­setn­ingin dregst á lang­inn. Þar á meðal að taka Air­bus vélar inn í flot­ann, en ekk­ert slíkt hefur þó verið kynnt opin­ber­lega. 

Áhættu­þáttur

Ásgeir Jóns­son gerði stöðu ferða­þjón­ust­unnar að umtals­efni á fyrr­nefndum hádeg­is­fundi hjá Kviku, og sagði óvissu vera uppi um hvernig greinin myndi spjara sig á næst­unni. Þessi óvissa hefði mikil áhrif á Íslandi, til dæmis á fast­eigna­mark­aði og þró­unin á næstu miss­erum myndi fara mikið eftir því hvernig tæk­ist til. 

Eitt af því sem gerir henni erfitt fyrir eru vax­andi erf­ið­leikar á alþjóða­vett­vangi, sem þá dregur úr kaup­getu fólks til að ferð­ast langar leiðir - alla leið til Íslands jafn­vel. Varn­að­ar­orð hafa víða sést und­an­farin miss­eri, meðal ann­ars vegna hæga­gangs í heims­bú­skapnum sem rakin hefur verið til tolla­stríðs Banda­ríkj­anna og Kína og fleiri þátta. Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóð­ur­inn hefur sagt að stjórn­völd - það er rík­is­stjórnir og seðla­bankar - verði að vera vak­andi og reyna að vinna gegn því að of mik­ill hæga­gangur skap­ist í heims­bú­skapn­um, þar sem slíkt geti verið hættu­legt í við­kvæmri stöðu alþjóða­stjórn­mála. 

Þessi óvissa í heims­bú­skapnum teygir sig að þessu leyti til Íslands, þar sem okkar litla hag­kerfi - langt frá mörk­uðum heims­ins - er veru­lega háð því að alþjóða­við­skipti gangi hratt og vel fyrir sig, og eft­ir­spurn á okkar helstu mark­aðs­svæðum hald­ist stöðug og helst vax­i. 

Bar­áttan um banka og eig­in­fjár­kröf­urnar

Eitt af því sem við­mæl­endur Kjarn­ans eru sam­mála um, að greini­legt sé að póli­tísk átök eigi sér nú stað - bæði bak við tjöldin og einnig nokkuð opin­ber­lega - þegar kemur að fjár­mála­kerf­inu og þróun þess. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn vill flýta því að hefja sölu­ferli á eign­ar­hlutum rík­is­ins í banka­kerf­inu og hefur Bjarni Bene­dikts­son talað fyrir því að fljót­lega ætti að vera hægt að byrja ferlið með eign­ar­hluti í Íslands­banka. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill hefja söluferli Íslandsbanka.
Mynd: Bára Huld Beck

Eins og greint var frá í frétta­skýr­ingu Kjarn­ans fyrir viku, hefur meðal ann­ars verið rætt um það að það geti gerst með skrán­ingu bank­ans á mark­að, þar sem lít­ill hluti yrði seldur í fyrstu.

Stefnur stjórn­ar­flokk­anna eru ólíkar í þessum málum og ekki aug­ljóst að það muni takast á ná sátt um þessi mál á kjör­tíma­bil­inu. Auk þess er það ekki víst að það sé góður tími núna til að selja hlut í bönk­um, enda hefur áhugi á þeim ekki verið mik­ill. Hvorki á Íslandi né út í heimi. Eins og afleitur rekstur Arion banka, frá skrán­ingu hans á mark­að, ber með sér, er rekstr­ar­um­hverfi banka krefj­andi um þessar mund­ir. 

Þá eru einnig átök fyr­ir­sjá­an­leg um hvaða stefnu eigi að taka, þegar kemur að eft­ir­liti með bönk­un­um. Átökin gætu birst í því hver það verður sem ráð­inn verður næsti vara­seðla­banka­stjóri, sem hefur fjár­mála­stöð­ug­leika á sínu borði. Þar undir eru meðal ann­ars þættir eins og eig­in­fjár­kröfur banka og fleira, sem skiptir miklu máli fyrir rekstur og arð­greiðslu­getu banka. Tíu hafa sótt um starf­ið, en um þessar mundir eru umsækj­endur metnir áður en Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra skipar svo í starf­ið. Umsækj­endur eru Arnar Bjarna­­son, lektor og fram­­kvæmda­­stjóri, Ásdís Krist­jáns­dótt­ir, aðal­­hag­fræð­ingur og for­­stöð­u­­maður efna­hags­sviðs Sam­­taka atvinn­u­lífs­ins, Guð­rún Johnsen, hag­fræð­ing­­ur, Gunnar Jak­obs­­son, lög­­fræð­ing­­ur, Haukur C. Bene­dikts­­son, hag­fræð­ing­­ur, Jón Þór Sturlu­­son, aðstoð­­ar­­for­­stjóri Fjár­­­mála­eft­ir­lits­ins, Kristrún Heim­is­dótt­ir, lög­­fræð­ing­­ur, Óttar Guð­jóns­­son, fram­­kvæmda­­stjóri Lána­­sjóðs sveit­­ar­­fé­laga, Tómas Brynj­­ólfs­­son, skrif­­stofu­­stjóri í fjár­­­mála- og efna­hags­ráðu­­neyt­inu, og Yngvi Örn Krist­ins­­son, hag­fræð­ingur Sam­­taka fjár­­­mála­­fyr­ir­tækja.

Flestir við­mæl­enda Kjarn­ans sögðu að þrýst­ingur á til­slak­anir á þennan þátt væri mik­ill frá hlut­höfum Arion banka, þar sem það gæti hjálpað til við að greiða út tugi millj­arða úr bank­anum til hlut­hafa. Þau sjón­ar­mið heyr­ast einnig víða, að þær kröfur sem uppi eru á íslenska banka, varð­andi eig­in­fjár­stöðu, séu of háar þessi miss­erin og hamli því að þeir geti þjón­u­stað atvinnu­lífið bet­ur. Eig­in­fjár­hlut­föll íslenskra banka eru há í alþjóð­legum sam­an­burði, og hafa að með­al­tali verið á bil­inu 20 til 25 pró­sent und­an­farin tvö ár.

Miklir hags­munir eru í húfi fyrir almenn­ing þegar kemur að því að byggja upp fjár­mála­kerf­ið, en eins og staða þess er núna þá er það fremur óhag­kvæmt í alþjóð­legum sam­an­burði, og ríkið hefur mikið um það að segja sem eig­andi 80 pró­sent af heild­ar­um­fangi kerf­is­ins. Eignir íslenska banka­kerf­is­ins eru um 3.900 millj­arðar króna og eigið féð 620 millj­arð­ar, en 89 pró­sent eigna eru íslenskar og 11 pró­sent erlend­is. Þver­öf­ugt við það sem var fyrir hrun, auk þess sem það var þá næstum tíu sinnum stærra. Á papp­ír­unum að minnsta kosti.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar