Einungis ein íslensk kvikmynd ratar inn á listann yfir 20 tekjuhæstu kvikmyndir síðasta árs hér á landi en það var kvikmyndin Agnes Joy sem var með rúmlega 19,7 milljónir í tekjur og rúmlega 12 þúsund gesti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FRÍSK, félagi sem heldur utan um tekjur og aðsókn í íslenskum kvikmyndahúsum.
Þá kemur fram hjá FRÍSK að alls hafi 16 íslensk verk verið sýnd í kvikmyndahúsum á árinu 2019, sem er sami fjöldi og árið áður, en þrátt fyrir það hafi heildartekjur af íslenskum kvikmyndum og heimildamyndum farið niður um 68 prósent frá árinu á undan. Heildartekjur af íslenskum verkum hafi verið 76 milljónir samanborið við tæpar 240 milljónir árið 2018.
Hlutfall íslenskra kvikmynda af heildartekjum ekki verið lægra síðan 2015
Tæp 54 þúsund manns keyptu sig inn á íslensk verk samanborið við 164 þúsund árið 2018. Samkvæmt FRÍSK munar mest um gott gengi kvikmyndanna Lof mér að falla og Víti í Vestmannaeyjum, sem sýndar voru á árinu 2018. Hlutfall íslenskra kvikmynda af heildartekjum er því einungis 4,8 prósent, sem er það lægsta síðan 2015.
Samtals nam miðasala í íslenskum kvikmyndahúsum 1,6 milljörðum, sem er 12 prósent lækkun frá árinu á undan. 1.267.298 manns fóru í bíó á árinu og er það um þrjár og hálf bíóferð á hvert mannsbarn í landinu, samkvæmt FRÍSK.
Bandarískar myndir fyrirferðarmiklar
Bandarískar kvikmyndir voru fyrirferðarmiklar í kvikmyndahúsum og runnu 91 prósent af tekjum af gestum til þeirra, sem er heldur hærra en á árinu á undan þegar hlutfall bandarískra kvikmynda var rúm 84 prósent. Samkvæmt FRÍSK er ekki ólíklegt að dræmt gengi íslenskra kvikmynda hafi hér áhrif. Þá hafi miðaverð staðið í stað en það var 1.247 krónur á árinu 2019, sem sé einungis 0,3 prósent hækkun á meðalverði ársins 2018.
Þegar horft er til alþjóðlegra markaða þá hafi aðsókn í kvikmyndahús verið góð og samkvæmt Comscore var síðasta ár það tekjuhæsta í kvikmyndahúsum í sögunni.
Avengers: Endgame kom, sá og sigraði
Lokamyndin með Avengers: Endgame var lang tekjuhæsta kvikmynd síðasta árs í kvikmyndahúsum en hún halaði inn rúmar 92 milljónir króna, sem gerir hana að fimmtu tekjuhæstu kvikmynd kvikmyndahúsanna síðasta áratuginn, samkvæmt FRÍSK, en rúmlega 66 þúsund manns sáu myndina.
Önnur tekjuhæsta kvikmyndin var The Lion King og voru tekjur af henni tæplega 80 milljónir en hana sáu tæp 68 þúsund manns, sem gerir hana að aðsóknarmestu kvikmyndinni á árinu 2019, segir í tilkynningunni. Þriðja tekjuhæsta kvikmyndin var svo Joker með rúmar 72 milljónir í tekjur og tæplega 51.700 gesti. Á árinu 2019 voru því þrjár kvikmyndir þar sem gestir voru yfir 50 þúsund.