Ríkasta eitt prósent heimsins á meira en 6,9 milljarðar manns, eða tæplega 85 prósent íbúa jarðar. Alls eiga 2.153 einstaklingar yfir milljarð dali, rúmlega 123 milljarða króna. Samanlagt átti þessi hópur, í lok árs 2019, meiri auðæfi en 4,6 milljarður manns, alls um 60 prósent allra íbúa jarðar, sem áttu minnst milli handanna í fyrra. Þá eiga 22 ríkustu karlar heims meira fé en allar konur sem búa í Afríku. Ef skattur á ríkasta eitt prósentið yrði hækkaður um 0,5 prósentustig í tíu ár þá myndi vera hægt að nota það fjármagn sem myndi skila sér í sameiginlega sjóði til að búa til 117 milljón störf í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og í umönnunargeirum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Oxfam-samtakanna um misskiptingu auðs, sem birt var í dag.
Í skýrslunni segir: „Ef allir myndu sitja á auð sínum þannig að honum yrði raðað upp í bunka af 100 dala seðlum, þá myndi þorri mannkyns sitja á gólfinu. Einstaklingur í miðstétt í ríku landi myndi sitja í svipaðri hæð og ef hann sæti á stól. Tveir ríkustu menn í heimi myndu sitja í himingeimnum.“
Arðgreiðslur hækka mun hraðar en laun
Í skýrslunni kemur fram að laun hafi vaxið um þrjú prósent innan G7-landanna (Bretland, Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan og Bandaríkin) á milli 2011 og 2017 en á sama tíma hafa arðgreiðslur til hluthafa í skráðum félögum innan sömu landa vaxið um 31 prósent. Þá eiga karlar 50 prósent meiri auð en konur og er það meðal annars tengt við það í skýrslu Oxfam að konur séu einungis 18 prósent af ráðherrum í ríkisstjórnum heimsins og 24 prósent af þingmönnum. Þar af leiðandi komi konur mun síður að ákvörðunartöku sem hafi áhrif á hvernig kerfi heimsins þróast og virka.
Hinir ríkustu koma sér undan því að greiða skatt
Oxfam birtir líka tölur, og niðurstöður úr rannsóknum, sem eiga að sýna umfang skattasniðgöngu hinna ríkustu í heiminum, sem geri þeim kleift að ná árlega um 7,4 prósent ávöxtun á auð sinn að meðaltali. Í skýrslunni er vitnað í rannsókn sem framkvæmd var af Max Lawson og birt var í fyrra (Public Good or Private Wealth? Universal health, education and other public services reduce the gap between rich and poor, and between women and men. Fairer taxation of the wealthiest can help pay for them) sem sýni að ríkasta lag heimsinsisé að komast hjá því að greiða allt að 30 prósent af þeim skatti sem það ætti að vera að greiða, og með því að veikja möguleika stjórnvalda út um allan heim til að eyða meiru fé í þá geira sem líklegastir eru til að draga úr misskiptingu: heilbrigðis- og menntageirunum.
Þar kemur einnig fram að einungis fjögur prósent af öllum skatti í heiminum komi til vegna skatta sem lagðir eru á auð og hinir ríkustu séu líka þeir sem hagnist mest á því að fyrirtækjaskattar hafi víða verið lækkaðir í sögulega lág hlutföll, enda séu þeir að uppistöðu stærstu hluthafar þeirra fyrirtækja sem hagnist mest á þeirri þróun.
„Milljarðamæringar geta einnig keypt sér refsileysi, haft áhrif á stjórnmálamenn eða fjölmiðla og jafnvel haft áhrif á niðurstöður kosninga. Notkun fjármuna til að hafa áhrif á kosningar og opinbera stefnumótun er vaxandi vandamál út um heim allan,“ segir í skýrslunni.
Sex tillögur til að breyta stöðunni
Skýrsla Oxfam er að venju birt á sama degi og viðskiptaráðstefnan í Davos í Sviss, þar sem margt áhrifamesta fólk heimsins á sviði stjórnmála og viðskipta kemur saman til skrafs og ráðagerða, er sett.
Í henni eru lagðar fram sex lykil tillögur um það hvernig megi vinna gegn vaxandi ójöfnuði. Sú fyrsta er að auka fjárfestingu í umönnunarkerfum til að taka á því ójafnvægi sem er milli kynjanna þegar kemur að ummönnunarstörfum, sérstaklega ólaunuðum, í heimunum. Í öðru lagi að vinna að því að binda endi á óhoflega auðsöfnun til að geta bundið endi á öfgafulla fátækt. Í þriðja lagi að setja löggjöf alls staðar sem verndar réttindi allra í umönnunarstörfum og tryggir þeim laun sem hægt er að lifa af.
Í fjórða lagi að tryggja að þeir sem vinna í umönnunarstörfum hafi áhrif á stefnumótun. Í fimmta lagi að skora skaðleg norm þegar kemur að stöðu kynjanna á hólm. Í sjötta lagi að virða mikilvægi umönnunar fyrir viðskipti í heiminum.