Framkvæmdastjóri SORPU, Björn H. Halldórsson, hafnar „þeim ávirðingum“ sem á hann eru bornar í skýrslu innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í kvöld.
Stjórn Sorpu ákvað á stjórnarfundi í dag að afþakka vinnuframlag Björns á meðan að mál hans eru til meðferðar innan stjórnar, að því er fram kemur í tilkynningu sem stjórn Sorpu sendi frá sér vegna skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um ástæður framúrkeyrslu sem varð á áætluðum framkvæmdakostnaði vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi.
Hann bendir á að á þeim 12 ára tíma sem hann hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra SORPU hafi aldrei verið gerðar athugasemdir við störf hans. Eigi það meðal annars við um framsetningu rekstraráætlana á stjórnarfundum, frávikagreiningu vegna þeirra og áætlanagerð vegna framkvæmda á vegum fyrirtækisins.
Ekki innri endurskoðandi SORPU
Björn telur reyndar að innri endurskoðandi sé ekki innri endurskoðandi SORPU og þekki því takmarkað til fyrirtækisins eða starfsumhverfis og starfa hans.
„Skýrsla innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar einkennist af röngum, ótraustum og samhengislausum ályktunum um forsendur og gæði starfa minna. Við gerð skýrslunnar hafa t.d. verið dregnar veigamiklar ályktanir af skjölum sem aldrei hafa komið fyrir sjónir mínar. Sýnir það, eitt og sér, hversu óáreiðanleg skýrslan er,“ segir hann.
Þá séu ályktanir innri endurskoðanda í andstöðu við áður yfirlýstar skoðanir hans í skýrslu um verklegar framkvæmdir og innkaupamál hjá Reykjavíkurborg, sem sé svo nýleg að vera frá mars 2019. Um samanburð á kostnaði vegna mannvirkjagerðar við frumkostnaðaráætlun segi innri endurskoðandi í þeirri skýrslu á bls. 16:
„Í fjölmiðlaumfjöllun um kostnað vegna mannvirkjagerðar er kostnaður oft miðaður við frumkostnaðaráætlun sem er algjörlega óraunhæft því miða skal við kostnaðaráætlun um fullhannað mannvirki.“
Björn segir að þrátt fyrir að innri endurskoðandi segi þetta „algjörlega óraunhæft“ framkvæmi hann samanburð af þessum toga í málum SORPU með því að nota margra ára gamlar kostnaðaráætlanir sem SORPA hafi stuðst við áður og jafnvel löngu áður en gas- og jarðgerðarstöðin hafi verið fullhönnuð.
„Ef beitt væri sams konar samanburði og innri endurskoðandi telur rétt að gera í framangreindri skýrslu, og stuðst við áætlanir sem lágu fyrir þegar samið var við verktaka eftir samningskaupaferli (þá reyndar ekki fullhannað verk), væru frávik frá áætlun aðeins í kringum 11,7%, sem er innan almennra óvissuviðmiða um + 10-15%. Væri því helst sanngjarnt að álykta að kostnaðaráætlanir hafi staðist fremur vel en illa. Ég hef aðeins nýlega fengið afhent þau gögn sem innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar segist hafa aflað sér í tengslum við gerð skýrslunnar og vinn að gerð athugasemda um hana. Þar til ég hef lokið gerð þeirra mun ég ekki tjá mig frekar um efni hennar,“ skrifar hann.