Icelandair gerir ekki ráð fyrir því að geta notað Boeing 737 Max-vélar sínar í flugi félagsins háannatíma næsta sumar. Í desember sendi Icelandair frá sér tilkynningu þar sem sagt var að félagið gerði ráð fyrir að geta notast við vélarnar í maí 2020, og þar með yfir sumarmánuðina þegar eftirspurn er mest.
Í gær greindi Boeing hins vegar frá því að flugvélaframleiðandinn reikni ekki með því að kyrrsetningu 737 Max-vélanna verði aflétt fyrr en um mitt ár. Í kjölfarið þarf að hefjast þjálfun áhafna að nýju og ýmsar prófanir áður en að eigendur vélanna mega fara að nota þær. Í ljósi þessa blasti við að Icelandair, sem hafði gert ráð fyrir að nota níu 737 Max-vélar í leiðakerfi sínu í sumar, mun ekki geta flogið þeim vélum.
Í tilkynningu sem Icelandair sendi til Kauphallar Íslands í nótt segir að vegna ráðstafana sem félagið hafi þegar gripið til verði áhrif á útgefna flugáætlun félagsins óveruleg. „Ástæður þess eru að hún var sett upp með það að leiðarljósi að takmarka áhrif frekari tafa á afléttingu kyrrsetningarinnar. Búið er að leigja inn þrjár Boeing 737-800 vélar og ákveðnum fjölda Boeing 757 véla verður haldið lengur í flota félagsins en áður hafði verið gert ráð fyrir.
Ljóst er að fjárhagsleg áhrif áframhaldandi kyrrsetningar verða mun minni á árinu 2020 en þau voru árið 2019. Skýrist það af ofangreindum þáttum auk þess sem gengið hefur verið frá leigu viðbótar véla með meiri fyrirvara nú en árið 2019 og leigukjör því mun hagstæðari. Áhafnir Icelandair munu jafnframt fljúga leiguvélunum en ekki áhafnir leiguflugfélaga sem leigðar voru inn með skömmum fyrirvara árið 2019. Félagið hefur þannig haft tækifæri til að skipuleggja rekstur sinn með þessa sviðsmynd í huga.”
Í tilkynningunni segir enn fremur að áhersla Icelandair á þessu ári verði líkt og á því síðasta á ferðamannamarkaðinn til Íslands. „Félagið gerir ráð fyrir að flytja að lágmarki jafnmarga farþega til Íslands á árinu 2020 og árið 2019.
Icelandair Group og Boeing hafa tvívegis gert bráðabirgðasamkomulag um skaðabætur. Viðræður um frekari skaðabætur standa yfir og stefnir Icelandair Group að því að fá allt tjón vegna MAX kyrrsetningarinnar bætt.”
Kjarninn greindi frá því í desember að Boeing hafi tímabundið hætt framleiðslu á 737 Max vélunum, meðal annars vegna óvissu um hvenær kyrrsetningu þeirra yrði aflétt.
Ástæðan fyrir kyrrsetningunni eru flugslys í Indónesíu 29. október 2018 og í Eþíópíu 13. mars 2019, en í þeim létust allir um borð, samtals 346. Frumniðurstöður rannsókna í löndunum fyrrnefndu benda til þess að vélarnar hafi verið með gallað MCAS-kerfi, sem á að sporna gegn ofrisi, og því hafi þær togast til jarðar með fyrrnefndu afleiðingum.
Fjölmargar athugasemdir hafa einnig komið fram í rannsóknum annarra á Boeing, þar á meðal hjá alríkislögreglunni FBI. Auk þess er Bandaríkjaþing ennþá að rannsaka félagið og hvernig það stóð að upplýsingagjöf til bandarískra flugmálayfirvalda og eftirlitsaðila. Í yfirheyrslum í þinginu hafa stjórnendur Boeing verið harðlega gagnrýndir fyrir að upplýsa ekki um galla í vélunum, og einnig að slaka á eftirliti með framleiðslunni.
Kyrrsetningin á Max vélunum hefur haft mikil áhrif víða um heim, ekki síst á Íslandi. Í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í nóvember, segir að samdráttur í ferðaþjónustu á árinu hafi ekki síst átt sér stað vegna kyrrsetningar á Max vélunum, sem hefur leitt til þess að Icelandair hefur þurft að draga úr sætaframboði.