Umsækjendum um alþjóðlega vernd fjölgaði í þjónustu í svokölluðu verndarkerfi framan af árinu 2019 og voru flestir um 630 í apríl og maí áður en þeim fækkaði aftur. Í upphafi árs 2020 nutu um 600 einstaklingar þjónustu hjá Útlendingastofnun og sveitarfélögum. Þetta kemur fram í samantekt Útlendingastofnunar fyrir síðasta ár.
Þá segir á vef stofnunarinnar að sú þróun hafi orðið á árinu að þeim einstaklingum fjölgaði sem nutu þjónustu sveitarfélaganna þriggja, Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Reykjanesbæjar, sem Útlendingastofnun hefur samið við um þjónustu við umsækjendur og hafi meirihluti þeirra dvalið í húsnæði á þeirra vegum á árinu. Í svari við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að ekki hafi fleiri sveitarfélög bæst við á listann á árinu.
Um 350 einstaklingar voru í þjónustu hjá félagsþjónustum sveitarfélaganna þriggja um áramót en móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar veittu um 250 umsækjendum þjónustu, samkvæmt stofnuninni.
Biðlaði til sveitarfélaganna
Kjarninn greindi frá því í lok júní síðastliðins að Útlendingastofnun hefði leitað á náðir sveitarfélaganna um miðjan mars á síðasta ári og biðlað til þeirra að gerður yrði þjónustusamningur við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Einungis þrjú sveitarfélög á landinu hafa gert slíka samninga, eins og áður segir.
Útlendingastofnun sendi bréf um miðjan mars síðastliðinn til allra sveitarfélaga á landinu til að kanna áhuga þeirra á að gera samning við stofnunina um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sambærilega við þá sem stofnunin hefur nú þegar gert við sveitarfélögin þrjú.
Í svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn Kjarnans kom fram að ekkert þeirra sveitarfélaga sem svarað hafði erindinu teldi sig þá í stakk búið til að bætast í hóp sveitarfélaga sem veita umsækjendum um vernd þjónustu en mörg þeirra hefðu þó lýst yfir jákvæðri afstöðu til verkefnisins. Þó hefur síðan þá engin breyting orðið á stöðunni en samkvæmt svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn Kjarnans í kjölfar samantektar ársins 2019 þá hefur enn ekkert sveitarfélag bæst í þennan hóp.
Félagsleg þjónusta byggð upp á nærþjónustu
Samkvæmt svörum frá Rauða krossinum til Kjarnans á sínum tíma hafði stofnunin lengi bent á það að æskilegast væri að umönnun umsækjenda um alþjóðlega vernd væri í höndum sveitarfélaga enda væri félagsleg þjónusta byggð upp á nærþjónustu í landinu öllu og því eðlilegt að aðstoð við þennan hóp væri með sama hætti og við aðra hópa í þjóðfélaginu.
Þær félagsþjónustur sem hafa sinnt þjónustunni hingað til hefðu gert það með mikilli prýði og ekki væri nein ástæða til að ætla annað en að ef fleiri sveitarfélög bættust í hópinn yrði sami metnaður þar að leiðarljósi. Rauði krossinn taldi því mjög jákvætt að fleiri umsækjendur um alþjóðlega vernd dveldust í umsjón sveitarfélaga á meðan á málsmeðferð stendur.
Hægt er að lesa ítarlega fréttaskýringu um málið hér.