Björgólfur Jóhannsson, tímabundinn forstjóri Samherja, reiknar ekki með því að sitja í forstjórastólnum lengur en fram á mitt ár 2020. Hann útilokar ekki að Þorsteinn Már Baldvinsson, sem var forstjóri Samherja til áratuga en steig til hliðar eftir opinberanir fjölmiðla um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja, muni snúa aftur í starfið. Þetta kemur fram í viðtali við Björgólf í vefmiðlinum Intrafish, sem sérhæfir sig í umfjöllun um sjávarútvegsmál, sem birt var í vikunni.
„Hann hefur verið starfandi í sjávarútvegi á Íslandi í mörg ár og er líklega sá náungi sem veit mest um sjávarútveg á Íslandi og í Evrópu,“ sagði Björgólfur um Þorstein Má.
Áður hafði Björgólfur sagt að hann byggist ekki við því að vera forstjóri Samherja lengur en fram á fyrsta ársfjórðung þessa árs. Nú er ljóst að sá tími hefur lengst, en Samherji býst við því að rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á viðskiptaháttum þess, sem Samherji greiðir fyrir, muni ljúka í apríl. Yfirvöld í Namibíu, Angóla, Íslandi og í Noregi eru einnig að rannsaka mál tengd Samherja.
Einbeita sér að ásökunum um mútugreiðslur
Í viðtalinu við Intrafish sagði Björgólfur að Samherji væri að einbeita sér að því að kanna ásakanir um mútugreiðslur og að fyrirtækið hefði þegar útilokað að ásakanir um peningaþvætti ættu sér stoð. Enn er þó verið að rannsaka þær ásakanir af yfirvöldum á Íslandi og í Noregi samkvæmt heimildum Kjarnans.
Samherji tilkynnti um það í lok síðustu viku að fyrirtækið ætli að þróa og innleiða heildrænt stjórnunar- og regluvörslukerfi sem byggist á áhættuskipulagi fyrirtækisins, meðal annars með áherslu á spillingu, efnahagslegar refsiaðgerðir og peningaþvætti.
Í tilkynningu vegna þessa kom fram að stefnt sé að því að ljúka innleiðingu kerfisins síðar á þessu ári og að ákvörðun um innleiðingu kerfisins hafi verið tekin á „grundvelli reynslu af starfsemi fyrirtækisins í Namibíu.“
Samherji segist vera að draga úr starfsemi sinni í Namibíu um þessar mundir með það að markmiði að hætta alfarið rekstri í landinu. Það sé hins vegar ljóst að það muni taka einhvern tíma.
Björgólfur sagði við Intrafish að Samherji hefði ekki tapað neinum viðskiptavini vegna þeirra ásakana sem settar hafa verið fram gagnvart fyrirtækinu. Viðskiptavinir þess hafi hins vegar áhyggjur af stöðu mála og Samherji væri að vinna náið með þeim.
Meira fjármagn tryggt í rannsóknir
Samherji hefur verið í miklu brimróti undanfarna mánuði eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu.
Þegar er búið að handtaka og ákæra Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og fjóra aðra menn fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu. Auk Shanghala og Esau voru James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor nýverið, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Um síðustu helgi tilkynnti fjármála- og efnahagsráðherra um 200 milljóna króna viðbótarfjárveitingu til embættis héraðssaksóknara, skattrannsóknarstjóra og Skattsins á þessu ári. Sú fjárveiting kemur í kjölfar þess að ríkisstjórnin kynnti aðgerðaráætlun í sjö liðum til að auka traust á íslensku atvinnulífi. Í aðgerðaráætluninni sagði meðal annars að hugað yrði sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara „í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjamálinu.“