Mannleg mistök urðu til þess að það gleymdist að hafa nafn Ástráðs Haraldssonar héraðsdómara með í fréttatilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu þegar greint var frá umsækjendum um skipun í laust embætti dómara við Landsrétt.
Umsækjendurnir eru því fjórir, en ekki þrír. Þeir, auk Ástráðs, Ásmundur Helgason, dómari við Landsrétt, Ragnheiður Bragadóttir, dómari við Landsrétt og Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Um er að ræða stöðu við Landsrétt sem losnaði þegar Ingveldur Einarsdóttir var skipuð dómari við Hæstarétt í desember.
Ástráður er einn þeirra fjögurra sem urðu af dómarasæti þegar Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað að víkja frá hæfnismati dómnefndar um skipun fimmtán dómara í Landsrétt í lok maí 2017. Hún ákvað að tilnefna fjóra einstaklinga dómara sem nefndin hafði ekki metið á meðal 15 hæfustu og þar af leiðandi að skipa ekki fjóra aðra sem nefndin hafði talið á meðal þeirra hæfustu. Alþingi samþykkti þetta í byrjun júní 2017.
Þeir voru báðir starfandi lögmenn og lögðu ekki fram nein gögn sem gátu sýnt fram á fjárhagstjón vegna ákvörðunar ráðherra. Skorað var á þá fyrir dómi að leggja fram skattframtöl og þar með upplýsingar um tekjur sínar þannig að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort þeir hefðu beðið „fjártjón vegna þeirra ákvarðana dómsmálaráðherra sem um ræðir í málinu“. Hvorugur þeirra gerði slíkt og þess vegna var íslenska ríkið sýknað af viðurkenningarkröfu um fjártjón. Íslenska ríkinu var hins vegar gert að greiða þeim miskabætur.
Ástráður var síðar skipaður dómari við héraðsdóm Reykjavíkur. Hann hefur á þessu ári sótt bæði um að vera skipaður í laust embætti við Landsrétt og settur í annað af tveimur embættum dómara við Landsrétt sem eru laus vegna þess að þeir fjórir dómarar sem voru skipaðir ólöglega 2017 eru í leyfi.